Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Síða 59
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS58
og grasleysis. Á seinni hluta 19. aldar var venja að slá melinn í Skeri áður
en vermenn komu þangað. Var melurinn settur upp í lanir og svo f luttur
til Hergilseyjar á áttæringum þegar lag gafst að vetrinum, um 11 km leið.
Voru þetta kallaðar melferðir en melurinn þótti ágætt kúafóður.53
Hér að framan hefur verið stiklað á stóru í sögu Oddbjarnarskers en
bent skal á að umhverfi, örnefnum, staðháttum og verbúðalífi hafa verið
gerð frábær skil annars staðar og er hér með vísað til heimildaskrár aftast
í þessari grein. Á þessum vettvangi verður hins vegar fjallað nánar um
fornleifarnar sem finna má í Oddbjarnarskeri og landbrot sem herjar þar á.
Landbrot í Oddbjarnarskeri
Ástæða þess að ráðist var í fornleifaskráningu í Oddbjarnarskeri var ekki
eingöngu þær gagnmerku minjar sem þar eru heldur einnig sú staðreynd
að landbrot er þar mikið. Í hamfaraveðrum brotna af Hólnum spildur og
sandurinn á skerjunum sópast til. Á þessu vakti Bergsveinn Breiðfjörð
Gíslason athygli en hann fór þrjú ár í röð í Oddbjarnarsker, 1995-1997, til
athugana og mælinga.54 Tilefnið var ofsaveður árið 1993 og þær breytingar
sem urðu á Hólnum við það áhlaup.55 Sýndist honum að helst brotnaði af
Hólnum að norðan og norðvestan í einstökum vonskuveðrum. Einnig benti
hann á hvernig skeljasandurinn væri á sífelldri hreyfingu og færðist þá helst til
austurs með Hólnum norðvestanverðum en dreifðist líka um skerjaf lákann í
stórsjó og brimi. Bergsveinn veitti einnig eftirtekt fornleifum í brotsárum í
bakkanum norðvestantil, grjóti úr búðaveggjum og miklu magni af kinda-
og fiskibeinum auk selabeina. Bergsveinn mældi í ferðum sínum stærð
Hólsins en það hafa f leiri gert og eru til heimildir um mælingar allt frá
seinni hluta 19. aldar,56 en það virðist lengi hafa verið áhugamál þeirra sem í
Oddbjarnarsker koma að mæla umfang þessarar litlu eyju. Í gegnum tíðina
hafa verið notaðar mismunandi aðferðir við mælingu Oddbjarnarskers og
eru mælingarnar ekki sambærilegar. Því er erfitt að meta breytingu á lögun,
stærð og rofi.57 Þó er ljóst að á þeim þremur árum sem Bergsveinn mældi
53 Pétur Jónsson 1940, bls. 2; Sveinbjörn Guðmundsson 1953, bls. 25.
54 Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason 1998, bls. 39-43.
55 Sama heimild, bls. 39.
56 Pétur Jónsson 1940, bls. 2; Hermann S. Jónsson 1939, bls. 1; Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason 1998,
bls. 40.
57 Sem dæmi telur Pétur Jónsson frá Stökkum að um 1880 hafi sjálft Oddbjarnarskerið verið um 100
m langt og rúmir 80 m að breidd, sjá Pétur Jónsson 1940, bls. 2. Hermann S. Jónsson telur stærðina
vera „þangað sem mætist melur og sandur“ um 70-75 faðma (u.þ.b. 128-137 metra) á lengd frá
austri til vesturs og 50-55 faðma (u.þ.b. 90–100 metra) að breidd frá norðri til suðurs, sjá Hermann