Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Síða 62
61FORNLEIFAKÖNNUN Í ODDBJARNARSKERI
að setja þær í sömu stærð og er bersýnilegt hversu mikið hefur brotnað
af Hólnum og sömuleiðis áhugavert hvernig skeljasandurinn færist til
á skerjunum undan straumum, veðri og vindum og myndar nýja og
síbreytilega strandlínu. Á mynd 3 sést vel hversu mikið hefur brotnað af
Oddbjarnarskeri á þessum 25 árum. Undir er loftmyndin frá 1984 en ofan
á lagðar uppmælingarnar frá 2009 en það er ekki að sjá að Hóllinn hafi
breyst að ráði milli 2009 og gervi hnatta myndar innar frá 2011. Ef horft er
til árabilsins 1984 til 2011 er hins vegar ljóst að allar hliðar Hólsins hafa
látið undan síga gagnvart sjávargangi, minnst þar sem Hóllinn nær lengst
til vesturs og austurs en annars staðar er sjávarrofið mikið. Að minnsta kosti
um 750 m2 hafa brotnað af norður- og norðvesturhluta Hólsins og a.m.k.
200 m2 við suður- og suðausturhluta sem þýðir að a.m.k. 1000 fermetrar
hafa brotnað af Oddbjarnarskeri á aldarfjórðungi.
Landbrot er hins vegar ekki nýtt í Oddbjarnarskeri. Sr. Ólafur Sívertsen
getur þess í lýsingu sinni á Flateyjarsókn (um 1840) að sjórinn brjóti sífellt
af skerinu og „finnst þar í ærna mikið af kjöt- og fiskibeinum. Fundist
hefur þar einnig rostungshaus og tennur, en það þróast aftur kringum
skerið á einn veg, sem af öðrum brýtur, svo skerið minnkar ekki, þar eð
hinn mikli skerjaklasi, á hvers miðbiki það stendur, heldur því saman, því
ella væri það löngu burt numið.“61 Af þessu má ráða að um langa hríð hafi
sandbakkar Oddbjarnarskers brotnað í brimi en ekki er hægt að gera sér
grein fyrir stærð áfallanna eða hvort og hvar hafi bæst við melhólmann
þegar sandur sviptist til í straumum og stórviðrum og sest til annars staðar.
Minjar í Oddbjarnarskeri
Þær minjar sem enn sjást vel á yfirborði í Oddbjarnarskeri eru yngstu
minjarnar í eynni, sennilega frá seinni hluta 19. aldar til fyrri hluta þeirrar
tuttugustu. Önnur ummerki eru horfin í sand. Eina búðin, sem enn
er almennt vitað heitið á, er búð Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey
eða Hergilseyjarbúð. Sú var lengst í notkun og stóð með þaki a.m.k.
fram yfir 1923 og eru veggir búðarinnar áberandi vel uppistandandi. Í
Árbók Barðastrandarsýslu 1952 er að finna örnefna- og staðháttalýsingu
Oddbjarnarskers sem Sveinbjörn Guðmundsson, kennari í Flatey, skráði
eftir Þórði Benjamínssyni síðasta ábúanda í Hergilsey.62 Þar er gerð grein
fyrir staðsetningu nokkurra nafngreindra rústa og búða og mun hér á
61 Ólafur Sívertsen 1952, bls. 139.
62 Sveinbjörn Guðmundsson 1953, bls. 30-33.