Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Side 89
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS88
norðar, hafi kumlin eftir það verið sett við nýjan norðurbakka árinnar. Ef
þetta er rétt, hefur Brimnesá sennilega breytt um farveg á 10. öld. Þessum
hugleiðingum er varpað hér fram, meira til gamans en af fullri alvöru,
enda skortir hér rannsóknir til þess að byggja á. Ef til vill má enn finna
jarðfræðileg ummerki um hvenær farvegur árinnar breyttist.
Ljóst er að eftir að gröfin var gleymd hefur verið byggt á staðnum,
eins og bæði þykk gólfskán yfir gröfinni og hleðsluleifar litlu norðar á
sjávarbakkanum benda til. Um þá byggð er hins vegar ekkert hægt að segja
án frekari rannsóknar á staðnum, en áhugavert gæti verið að kanna betur
samhengi þessara minja, áður en þær verða frekara landbroti að bráð. Af
nýlegum loftmyndum að dæma virðist sem ekki hafi brotnað nema lítillega
framan af bökkum á þessu svæði síðan beinin fundust.
Hvar voru kumlateigarnir?
Ljóst er að byggð á Dalvík hefur tekið miklum breytingum frá byrjun
19. aldar. Eitt af því sem mér þótti áhugavert að reyna, var hvort hægt
væri að nota afstöðumynd sem Daniel Bruun teiknaði af kumlunum við
rannsóknina árið 1909 til þess að staðsetja þau í umhverfi dagsins í dag.5
Teikningin birtist fyrst árið 1910 með grein þeirra Finns Jónssonar um
kumlin. Hún var hins vegar svo smátt prentuð, aðeins 7x3 cm að stærð, að
mjög erfitt var að bera hana saman við raunaðstæður. Með því að skanna
teikninguna og leggja hana yfir loftmynd af svæðinu í sama mælikvarða, var
nú hægt að staðsetja kumlin af allmikilli nákvæmi, eins og sjá má á mynd
12. Hér að neðan er yfirlit yfir kumlin sem fundist hafa við Brimneslág.
Nr.
kumls
Nánari lýsing
I Líklega miðaldra kona. Talin hafa setið í gröfinni. Tíu sörvistölur, viður og járn.
IIa Hestur, sem lá til fóta og aðeins yfir IIb.
IIb Karl sem lá á bakinu. Brýni, hnífur, 8 blýmet, spjót, járn.
III Fullorðinn karl. Spjót, naglar, 3 blýmet. Sama steinalag var yfir gröfum I-III.
IV Bátkuml með ungum einstaklingi, hesti og hundi.
Va Hestur norðan við og til fóta Vb. Tvær gjarðahringjur, þrír járnnaglar.
Vb Miðaldra kona. Kúpt næla, hnífur, 3 járnbútar, grýtubrot.
VIa Hestur norðan við og til fóta við VIb.
VIb Gömul kona. Ekkert haugfé fannst.
5 Bruun og Finnur Jónsson 1910, bls. 65.