Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Page 131
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS130
nýsköpunarverkefni sem unnið var sumarið 2015 undir handleiðslu dr.
Hauks Þorgeirssonar með styrkveitingu úr Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Jón Sigurðsson vann upphaf lega að ritgerðunum fyrir Þjóðverjann Karl
Gustav Homeyer, og var efnið nýtt í bók hans Die Haus- und Hofmarken,
sem kom út í Berlín árið 1870.1 Þar var hluti ritgerða Jóns birtur í þýskri
þýðingu, en þessi skrif Jóns um innsigli, búmörk og eignarmörk voru
aldrei birt á Íslandi. Jón hafði mikla vitneskju um efnið, enda hafði hann
unnið að útgáfum tengdum innsiglafræðum og fornbréfum og hafði auk
þess aðgang að ýmsum fornbréfum og innsiglum. Þótt Jón hafi unnið að
þessum útgáfum er þó margt í ritgerðum hans sem ekki var nýtt í þeim
og mörg innsigli sem hann nefnir og dregur upp virðast ekki vera nefnd í
þeim útgáfum heldur, og sum hver eru jafnvel ekki varðveitt. Að því leyti
er mikill fengur í skrifum Jóns og nauðsyn að koma þeim á prent, þar sem
þau gefa einstaka innsýn í þróun innsigla og notkun innsigla, búmarka og
annarra eignarmarka á Íslandi.
Ritgerðir Jóns eru varðveittar í eiginhandarriti hans, JS 496 4to, á
Handritadeild Landsbókasafns Íslands og eru birtar í heild sinni hér að
aftan með stuttri greinagerð um innsiglarannsóknir á Norðurlöndum. Í
handriti eru ritgerðirnar innan um samtíning af glósum úr fórum Jóns. Jón
gefur ekki frekari upplýsingar um eigendur innsigla sem hann nefnir, að
öðru leyti en því að hann getur um nöfn þeirra, innsigli og einstaka sinnum
starfstitil viðkomandi. Því hef ég reynt að hafa upp á þeim mönnum sem
nafngreindir eru til að reyna að gefa mynd af því hverjir áttu innsigli á
Íslandi á árum áður og hvernig innsigli þeir báru. Í eiginhandarriti sínu vísar
Jón til heimilda einstaka sinnum, og eru heimildavísanir hans skrifaðar upp
með textanum. Þó eru þær þess eðlis að oft er erfitt að átta sig á í hvaða rit
Jón er að vísa, þar sem hann getur ekki um útgáfuár, heldur aðeins styttan
titil og stundum blaðsíðutal. Heimildaskrá Jóns hefur verið endurgerð með
hliðsjón af því hvaða útgáfur lágu fyrir á ritunartíma, og er hún birt aftan
við skrif hans með fyrirvara um villur.
Innsigli: stimplar, framleiðsla, efniviður og notkun
Innsigli voru fyrst og fremst notuð til að staðfesta og votta skjöl og framanaf
voru þau algengari en undirskrift, undirskriftin sjálf dugði ekki ein og sér,
heldur var innsiglið notað til að staðfesta undirskriftina. Ef mikið lá við
voru jafnvel notuð tvö innsigli saman, t.d. stofnunarinnsigli dómkirkju og
1 Homeyer 1870.