Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Síða 135
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS134
Innsiglarannsóknir á Norðurlöndum
Innsiglarannsóknir á Norðurlöndum eru komnar nokkuð vel á veg, en á
undanförnum áratug hafa mörg fræðirit um innsigli komið út þar. Nýlegast
er ritið Norske Sigiller fra Middelalderen, III. bindi, í útgáfu Odd Fjordholm,
Erlu B. Hohler, Halvor Kjellberg og Britu Nyquist, sem kom út árið 2012,
að Odd Fjordholm látnum. Það er ein ítarlegasta rannsókn á einstökum
innsiglum og f lokkum innsigla sem gerð hefur verið fram að þessu. Þar er
yfirlit um innsigli kirkjunnar í Niðarósi og manna sem tengdust kirkjunni,
ásamt ljósmyndum og teikningum af hverju innsigli fyrir sig og stuttu yfirliti
um innsiglið, myndefnið, hvar það er varðveitt o.þ.h. Þá hafa mörg söfn í
Skandinavíu tekið saman útgáfur um varðveitt innsigli í safnkosti sínum.
Í Danmörku var Poul Bredo Grandjean (1880-1957) fyrstur til að
rannsaka innsigli en hann hóf störf árið 1910 við ríkisskjalasafn Danmerkur
og frá árinu 1917 bar hann ábyrgð á söfnun innsigla og varðveislu þeirra
fyrir safnið. Árið 1944 gaf hann út bókina Dansk Sigillografi sem er enn
í dag ein ítarlegasta heimild um vaxinnsigli. Á árunum 1928-1933 vann
Grandjean við rannsóknir og varðveislu á innsiglum í safni Árnastofnunar
í Kaupmannahöfn, og virðist hafa skoðað allt safnið á þeim tíma.13
Grandjean lauk störfum árið 1950 og fimm árum síðar var Niels Gärtig
(1898-1978) ráðinn í stöðu hans. Gärtig lét útbúa sérstaka vinnustofu til að
sinna varðveislu innsiglanna og vann þar allt fram til 1968. Hann hélt þó
áfram í verkefnum tengdum innsiglum á Árnastofnun í Kaupmannahöfn á
árunum 1971-1978, en þar rannsakaði hann helst innsigli og skjaldarmerki
í dönskum og norskum skjölum. Síðan þá hefur staðan verið mönnuð og
innsiglarannsóknum og varðveislu sinnt af miklu kappi í Danmörku.
Í Svíþjóð hófust innsiglarannsóknir nánast samtímis og í Danmörku en
þar var Harald Fleetwood (1879-1960) ráðinn til starfa árið 1915 til að sinna
varðveislu og rannsóknum á konunglegum innsiglum í Stokkhólmi.14 Árið
1917 gaf hann út bókina Handbok i svensk heraldik. Þó hafði áður verið gefin
út þriggja binda ritröð um sænsk innsigli, Svenska sigiller från medeltiden, sem
Emil Hildebrand tók saman og gaf út á árunum 1862-1867.15
Í Noregi hófust innsiglarannsóknir nokkuð síðar, en staða við slíkar
rannsóknir var búin til árið 1967 og fyrstur til að gegna starfinu var
áðurnefndur Odd Fjordholm. Áður höfðu þó fáein innsigli verið teiknuð
13 Petersen 2002, bls. 45.
14 Karlson 2002, bls. 50.
15 Svenska sigiller från medeltiden 1862-1867.