Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Síða 147
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS146
Ritgerðir Jóns eru hér birtar eftir handritinu JS 496 4to í stafréttri uppskrift. Stafsetning
og orðmyndir Jóns eru látnar halda sér og málfar er ekki aðlagað að nútímamáli.
Einstök orð eða setningar sem Jón hefur strikað yfir í handriti sínu eða leiðrétt eru
hér birtar eins og leiðréttingin gefur til kynna, en yfirstrikana ekki getið sérstaklega
nema ástæða þyki til, þá neðanmáls. Tákn af innsiglum, sem eru birt í textanum, eru
sýnd eins og þau eru dregin upp í handritinu en hafa þó verið unnin til að ná fram
meiri skerpu. Jón notar undirstrikanir til áhersluauka, sem haldið er í uppskriftinni og
hástafir eru notaðir til aðgreiningar texta á leturf leti innsigla (en. legend). Handritið
sjálft er vel varðveitt og texti þess auðlæsilegur. Ritgerðir Jóns, ásamt upprunalegum
uppdrætti hans á táknum, eru einnig birtar á ljósmyndum aftan við uppskriftina.
Hallgrími J. Ámundasyni er þakkað fyrir ráðgjöf við uppskrift á handritinu.
Um mark, fángamark (búmerki) á Íslandi,
(Ritgerð Jóns Sigurðssonar JS 496 4to (1868), bl. 1r-2v)
Mark (plur. mörk) eða merki, eða einkunn (plur. einkunnir) hafa menn
þekkt og haft á Íslandi frá því land bygðist, og eru þess vottar bæði í fornum
frásögnum og í lögum landsins, og síðan í bréfum og skjölum.
Svo að eg fylgi þeirri röð, sem Hra Prof. Homeyer hefir sett í boðsbréf
sitt frá Marz 1868, þá skal eg fyrst tala um merki einstakra manna (nach
Personen).
Þess er þá að geta, að á elztu tímum er ekki í áreiðanlegum sögum talað um
bréf né innsigli, heldur um jarteignir, sem hafa verið tilteknir einkennilegir
hlutir, svo að sá maður, sem fékk þá hluti með boðum annars manns, vissi
það, þegar hann sá jarteignina eða hlutinn, að hann gat eigi verið frá öðrum
en þeim, sem boðið sendi. Um jarteignir er safnað stöðum í registri við
Fornmanna sögur XII. Bindi47, og við Fornaldar sögur Norðurlanda III. B
(v. jarteikn).48 Dæmi uppá hvernig jarteign var gjör, sjáum vér í Gísla sögu
Súrssonar (Nord. Oldskr. VIII,. p. 14. 96 – 97)49 að það var peníngur, sem
var tekinn sundur í miðju, og hnitaður saman með XX nöddum tók sinn
helming hver og geymdi hjá sér, en ef annarhvor sendi hinum, þá gat hann
vitað að boðin voru rétt á því, að bera saman báða helmínga peníngsins.
Hin fyrstu dæmi, þar sem talað er um bréf, koma fyrir á dögum Ólafs
konúngs hins helga (1018) og er þó mjög vafasamt (Snorri Ól.helg.c. 71
47 Hér vísar Jón í Fornmanna sögur, 12. bindi, 1837.
48 Hér vísar Jón í Fornaldarsögur Norðurlanda: Eptir gömlum handritum, 1829-1830.
49 Hér vísar Jón í Tvær sögur af Gísla Súrssyni: Nordiske Oldskrifter, 1849.