Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Page 179
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS178
skuggar. Sumir telja að með þessum aðferðum sé verið að líta framhjá
fornleifafræðinni sjálfri í leit að einhverju hlutleysi sem erfitt er að henda
reiður á.2 Flestir eru þó sennilega sammála um að vel hreinsuð rúst lítur
betur út á ljósmynd heldur en óhreinsuð rúst. Lengi vel hafa aðferðir í
fornleifafræði tekið mið af raunvísindalegum vinnubrögðum sem byggja
meðal annars á hárnákvæmum útreikningum og má þar ekki mikið út af
bera til að upp komi villa í niðurstöðum. Það má því segja að hreinsun á
svæði fyrir myndatöku tengist skoðunum á því hvernig nákvæm og góð
vinnubrögð eiga að vera og ljósmyndin endurspegli því í raun hversu góðir
fornleifafræðingarnir séu. Slíkar hugmyndir voru a.m.k. uppi hjá Noël
Hume sem aðhylltist þessa aðferð: „Lélegar ljósmyndir af illa hreinsuðu
svæði eru að öllu jöfnu vísbending um óvandvirkni og ekki er hægt að
treysta niðurstöðum þeirra sem eru óvandvirkir. Svo einfalt er það.“3
Aðrir hafa bent á að með þessum aðferðum sé verið að dulbúa óþrifalegt
eðli uppgraftarins (e. the messy nature of excavation) og vanrækja mannlegu
hliðina, þ.e.a.s. þann hluta sem snýr að vinnunni sjálfri.4 Það getur tekið
vel á að grafa upp rúst og aðstæður til þess eru oft á tíðum erfiðar. Allt þetta
mótar rannsóknina að hluta og framvindu hennar og getur einnig haft
áhrif á fornleifafræðinginn sem lagar vinnulag sitt að því margbreytilega
umhverfi sem skapast hverju sinni.
Í þessum myndaþætti er áherslan lögð á seinni ljósmyndaf lokkinn,
svokallaðar vinnumyndir sem geta verið alger andstæða við hinar hreinsuðu
myndir, a.m.k. samkvæmt skilgreiningunni hér fyrir ofan. Vinnumyndir
geta verið af ýmsu sem tengist fornleifarannsókninni, t.d. starfsfólki,
umhverfi, tækjum og tólum sem notuð eru við uppgröftinn. Einnig
gestum og gangandi sem koma í heimsókn meðan á vettvangsrannsókn
stendur. Þessar ljósmyndir ættu að gefa ágætt sjónarhorn á hinn mannlega
þátt rannsóknarinnar, þar sem allt sem viðkemur henni er sýnilegt og er
jafnframt ávallt hluti af henni. Markmiðið með þessum ljósmyndaþætti er
því að sýna aðlögunarhæfni fornleifafræðinga á vettvangi í þeim fjölbreyttu
vinnuaðstæðum sem skapast á hverjum stað fyrir sig í tíma og rúmi.
2 Parno 2010, bls. 123.
3 Þýðing höfundar. Á frummálinu er klausan svona: „Poor photographs of an untidy site are generally
a sign of a sloppy worker, and a sloppy worker’s conclusions are rarely to be trusted. It is a simple as
that.“ Hume 1969, bls. 197.
4 Parno 2010, bls. 123-124.