Morgunblaðið - 29.07.2021, Qupperneq 50
50 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. JÚLÍ 2021
VIÐTAL
Hólmfríður Ragnhildardóttir
hmr@mbl.is
„Það eru þrjár leiðir til þess að skrifa
sögu. Það er að skrifa í gegnum eigin
reynslu, skrifa í gegnum reynslu
annarra og að lokum er það hreinn
skáldskapur. Þessi bók er blanda af
öllu þrennu,“ segir Kristján Hreins-
son, skáld og rithöfundur, um bókina
sína Lökin í golunni sem kom út fyrr
í sumar. Bókin er ellefta skáldsagan
sem hefur verið gefin út eftir Krist-
ján en hún segir örlagasögu tveggja
systra sem verða viðskila við föður
sinn þegar móðir þeirra deyr. Að-
spurður segist höfundur meðal ann-
ars vilja vekja athygli á umsjá fóstur-
barna á sínum tíma en þegar kemur
að þeim efnum sem lúta að meðferð
barna segir hann pottinn enn víða
brotinn.
„Ég hef í gegnum tíðina margoft
lesið um slæma meðferð á börnum
sem hafa verið tekin í fóstur og þekki
marga sem hafa komið illa út úr
þessu. Í seinni tíð hef ég einnig frétt
af slæmri meðferð barna sem voru
send í svona vist þannig að ég vildi
vekja athygli á þessu núna og ýta við
því að þessi bók yrði gefin út.“
Boðskapur í brennidepli
Ytri tími sögunnar eru stríðsárin á
Íslandi og byggir rithöfundur bókina
að hluta til á frásögnum sem hann
hefur sankað að sér, þar með talið frá
nánustu fjölskyldu. Engu að síður
vill Kristján ekki að litið sé á bókina
sem sannsögulega frásögn heldur sé
þetta fyrst og fremst skáldskapur
sem á sér stoðir í raunveruleikanum.
Vekur hann þá athygli á að oft sé
hægt að nota skáldskap til að sýna
sannleikann.
„Ég vildi hafa þetta skáldskap, ég
vildi ekki hafa þetta of nærri mér
þannig að ég myndi sjá þetta sem
fjölskyldusögu. Engu að síður þá eru
nokkrar sterkar stoðir sem eru sótt-
ar í veruleikann og fjölskyldu mína.
Það eru ákveðin kennileiti sem hægt
er að koma auga á en þetta er fyrst
og fremst skáldskapur reistur á örfá-
um punktum sem að ég hef úr minn-
ingunni.“
Kristján segir skáldskapinn
blöndu af einhvers konar raunsæi og
því að vilja koma ákveðnum boðskap
á framfæri, notar höfundur verk sín
bæði til að benda á réttlæti og rang-
læti. Er það svo í höndum hvers og
eins lesanda að túlka efnið sem hefur
verið lagt fram. „Það lesa engir ein-
staklingar sögu með sama hætti en
maður vonar að sem flestir nái þeim
kjarna sem maður leggur upp með
og þá er gott að hafa í brennidepli
einhvers konar boðskap, þema eða
kjarna sem maður reiknar með að
allir geti komið auga á.“
Kyngervi ekki hindrun við skrif
Að sögn Kristjáns fer bókin með
lesendur í gegnum ferli þar sem þeir
fá að kynnast tveimur systrum sem
opinbera sig í gegnum áföll. Spurður
hvort það hafi nokkurn tímann verið
upp á teningnum að skrifa út frá
sjónarhóli karla segir Kristján það
alveg hafa getað orðið. Kveður rit-
höfundurinn þó mikilvægt að bókin
sé skrifuð út frá sjónarhóli kvenna
frekar en karla. Segir hann ákveðna
dýpt felast í því en í hans huga eru
tengsl systra sterkari en tengsl
bræðra. Auk þess telur hann margt
fólgið í reynslu stúlkna sem eru
sendar í sveit sem ekki er hluti af
reynsluheimi karla. Réðst þessi
ákvörðun einnig út frá persónu-
legum forsendum og tekur hann
fram að hugmyndin hafi aldrei verið
sú að skapa samhúðarhjúp meðal
kvennanna.
Spurður hvort hann hafi upplifað
það sem áskorun að skrifa út frá
sjónarhóli tveggja systra segir Krist-
ján höfundum allir vegir færir svo
lengi sem þeir séu tilbúnir að setja
sig í stellingar og vanda sig. „Ég er
alveg í stakk búinn að skrifa út frá
sjónarhóli kvenmanna eða hvers sem
er. Ég hef skrifað út frá sjónarhóli
kattar. Maður þarf bara að lesa sig
til, umskrifa og jafnvel fá leiðbein-
ingar frá vinum og vandamönnum.
Ég sé þetta aldrei sem einhvers kon-
ar hindrun að ég skrifi út frá konu
eða karli.“
Bætir Kristján þá við að hug-
myndir um kyn og kyngervi séu
margslungnar og ekki verði hent
reiður á þeim í fljótu bragði.
„Ég get alveg þess vegna haldið
því fram að á jörðinni séu núna sjö
milljarðar kynja vegna þess að þetta
er miklu meira róf heldur en bara
kona og karl. Hitt er aftur á móti
annað mál að í dag virðist fólk gera
tungumálið ábyrgt fyrir ansi mörgu
sem ekki er hægt að gera tungumálið
ábyrgt fyrir. Kyn í tungumáli er í
raun eitthvað allt annað en kyn í kyn-
hegðun eða kynjamynstri eða hvað
við viljum kalla þetta.“
Telur Kristján jafnframt mikil-
vægt að hafa í huga að dæma ekki
söguna út frá stöðlum samtímans.
Samskipti kynjanna í fortíðinni og
mótun tungumálsins hafi þróast út
frá ákveðnum forsendum sem ekki
séu til staðar í dag. Telur hann ólík-
legt að feðraveldinu hafi verið komið
á fót viljandi til þess að undiroka
konur. Þykir honum trúlegri skýring
að völd karla í sögunni hafi verið
neyðarbrauð sem gripið hefði verið
til þegar forfeður okkar voru að berj-
ast fyrir lífsviðurværi á erfiðum tím-
um.
Skipulag við skriftir lykilatriði
Líkt og fyrr segir varð Lökin í gol-
unni ellefta útgefna skáldsaga Krist-
jáns í sumar en hún er þó ekki ný af
nálinni. Að sögn Kristjáns var bókin
næstum fullklár til útgáfu fyrir tæp-
um tíu árum. Hafði hann velt því fyr-
ir sér að gefa hana út áður, en aldrei
látið af því verða fyrr en nú. Að-
spurður segir hann tímasetninguna
að hluta til hanga saman við umræðu
sem hann hefur orðið var við í seinni
tíð um slæma meðferð barna sem
voru send í vist. Vildi hann leggja
hönd á plóg við að vekja athygli á
þessu málefni sem varð til þess að
hann ýtti fyrst nú á eftir útgáfu bók-
arinnar. Ekki leið á löngu eftir að
Kristján sendi verkið á útgáfufélagið
Nýhöfn þar til símtal barst honum.
„Hann var varla kominn á síðustu
blaðsíðu þegar hann hringdi og sagð-
ist vilja gefa hana út,“ segir Kristján.
Þrátt fyrir að hafa beðið með að
gefa út verkið í tæpan áratug hefur
bókin þó ekki legið rykfallin inni á
skrifstofu rithöfundar heldur hefur
hún gegnt því mikilvæga hlutverki
síðustu ár að vera skólabókardæmi í
ritlistaráfanga um hvernig megi
skrifa og byggja upp skáldsögu.
Beitir Kristján sjálfur miklu skipu-
lagi við skrif sín og þótti honum þessi
bók einstaklega vel upplögð til að
kenna í áfanganum sínum. „Ég var
með klárt skipulag, setti hana upp í
stikkorðaformi og bjó síðan til kafla-
heiti, setti alls konar orðalista inn í
kaflana og gerði það með gríðarlega
miklu skipulagi. Þetta varð til þess
að ég fór að kenna hana. Í átta ár hef-
ur hún verið kennsluefni án þess að
hún hafi verið lesin af nemendum.“
Orti tvær barnabækur í vikunni
Spurður hvort hann beiti svipaðri
formfestu við gerð allra verka sinna
segir Kristján svo vera. Kveðst hann
setja niður orðalista með hverjum
kafla. Er vinnan við bækurnar bæði
markviss og ómarkviss og er þetta
oft og tíðum einungis spurning um að
koma skipulag á óreiðuna.
„Stundum er maður með hundrað
síðna sögu í höfðinu og maður veit
svona innst inni nokkurn veginn allt
sem gerist, maður er bara ekki búinn
að komast að því nákvæmlega í
hvaða röð. Maður veit plottið, kjarna
málsins og hver niðurstaðan er en
maður er ekki búinn að sjá hvert
þráðurinn liggur og þá byrjar maður
á að koma skipulagi á orðræðuna.“
Líkir hann bókarskrifum við golf-
leik þar sem markmiðið snýst fyrst
og fremst um að byrja og taka í fram-
haldinu næstu skref út frá því. „Þú
ákveður að kúlan eigi að fara frá ein-
um stað yfir í annan og síðan er bara
að slá fyrsta höggið og reyna að
vanda sig.“
Kveðst Kristján jafnframt standa í
þeirri trú um að ritstífla sé blekking
sem eigi sér ekki stoð í raunveruleik-
anum, heldur sé hún eingöngu til í
heimi kvikmyndanna og birtist okkur
þegar A4-blað er sett saman í kúlu og
kastað ofan í ruslakörfu. Segir hann
ritstífluna einungis verða að veru-
leika þegar við teljum okkur trú um
að hún sé til staðar. Segir hann form-
festuna og skipulagið við skriftir
koma honum hjá þessu vandamáli.
Hefur þetta kerfi reynst Kristjáni
vel en hann hefur nú verið einkar
duglegur að yrkja og koma hug-
myndum sínum niður á blað. Kveðst
hann vera með lager af efni á tölv-
unni sinni. Á hann hátt í 20 ljóðabæk-
ur óútgefnar og sex skáldsögur
ásamt fjöldanum öllum af smásögum.
Tekur hann fram að einungis í þess-
ari viku hafi hann ort tvær barna-
bækur. Meðfram skrifum vinnur
hann nú meðal annars við að ritstýra
bók og segist hann alltaf vera með
verkefni milli handanna. Ekki er því
mikið um auðar stundir en líkt og
Kristján bendir á er skáld og rithöf-
undur alltaf í vinnunni.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Skáldsaga Kristján Hreinsson, skáld og rithöfundur, segir ritstíflu tilbúning kvikmyndanna og telur hann rithöf-
undum alla vegi færa svo lengi sem þeir vandi vel til verka og skipuleggi sig laglega frá upphafi til enda.
Skáldskapur sem sýnir sannleikann
- Rithöfundurinn og skáldið Kristján Hreinsson gefur út sína elleftu skáldsögu Lökin í golunni
- Fléttar saman skáldskap og persónulegum frásögnum til að vekja athygli á slæmri meðferð barna
vfs.is
SÍÐUMÚLA 9, REYKJAVÍK • DALSHRAUNI 13, HAFNARFIRÐI • TRYGGVABRAUT 24, AKUREYRI • S: 560 8888 • vfs.is
EIN RAFHLAÐA
+ öll verkfæri fyrir garðinn, heimilið og bílskúrinn