Strandapósturinn - 01.06.1970, Side 69
honum líða svo vel sem föng voru til. En öll él birtir um síðir
og svo var það í þetta sinn, en fönnin hjaðnaði lítið þó veðrið
batnaði, og því fór óyndi að grípa um sig hjá Ágústi Flygenring.
Hann fór þess á leit, hvort ekki væri gerlegt að komast í veg
fyrir Goðafoss, sem átti viðkomu á Isafirði á næstu dögum.
Skemmstu leið fann hann eftir kortinu að lá að Isafjarðardjúpi
og þaðan sjóleið til ísafjarðar. Þess skal getið, að síminn var
ekki kominn nema til Hólmavíkur.
Eg fór nú að hugsa til ferðar og sendi mann til Ámess og
bað sér Svein Guðmundsson að lána mér sinn mikla hest Blesa,
en Blesi bar af öllum hestum hér í byggð. En ég fékk þau boð,
að engum myndi detta í hug að fara yfir Ofeigsfjarðarheiði
á hestum í þessari færð, nema mér, þegar lítt væri gerlegt að
komast á milli bæja í byggð.
Sjálfur átti ég sterkan hest, en ekki var hann til reiðar talinn.
Ég afréð þó að gera tilraun til að komast vestur yfir heiðina
hinn næsta dag.
Um kl. 6 að morgni lögðum við af stað upp frá Ingólfs-
firði, og varð ég að teyma minn hest alloftast til að brjóta fönn-
ina. Næstur fór hestur með töskur Flygenrings, en síðastur var
Jarpur, sem bar Ágúst Flygenring, en það var þung byrði í
þessari færð. Jarpur var átta vetra gamall, Iraustur hestur,
enda veitti honum ekki af að hafa krafta í kögglum til að
bera hinn þunga mann Ágúst, sem ekki fór af baki hvað
sem tautaði. Jarpur óð fannbleytuna án þess að brjótast um og
gerði það reiðmanninum léttara ferðalagið. Þegar við vorum komn-
ir einn fjórða vegalengdar á milli bæja á kennileiti, sem Víðsýn
heitir, hvíldum við um stund og drukkum kaffi. Síðan var hald-
ið áfram sem leið lá yfir svokallaðar Vatnalautir, en sú leið var
á alllöngu svæði bleytukrapi upp á síður hestanna, en þetta
smá þokaðist áfram, og að lokum komumst við upp á háheiðina
þar sem Borg heitir og er þá talið að hálfnað sé á milli bæja. Nú
fór að halla undan fæti og fönnin mun minni niður svokölluð
Þrengsli, niður í Rjóður, en þar var óskráður áningarstaður allra
ferðalanga, hvort heldur farið var vestur eða norður yfir þessa
löngu heiði. Við áttum því sannarlega skilið að hvíla okkur og ekki
67