Bændablaðið - 02.12.2021, Síða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. desember 2021
LANDSJÁ
Ríkisstjórnar- og ráðherraskipti
boða alltaf nýtt upphaf þótt
margt fari öðruvísi en ætlað
er áður en varir. Ný pólitísk
forysta tekur við málaflokki
landbúnaðarins í öðru ráðuneyti
Katrínar Jakobsdóttur.
Lyklaskipti voru í ráðuneytinu
við Skúlagötu á mánudaginn,
þar sem Svandís Svavarsdóttir
tók við lyklavöldum af Kristjáni
Þór Júlíussyni. Hún er þekkt
fyrir að vera atkvæðamikil sem
ráðherra.
Ítarleg aðgerðaáætlun
Það er fagnaðarefni hversu
ítarleg aðgerðaráætlun fylgir
stjórnarsáttmálanum og því
höfum við allnokkurn leiðarvísi
um hvert þessi stjórn hyggst stefna
í matvæla- og landbúnaðarmálum.
Landbúnaðarstefna fyrir Ísland
verður lögð fram á fyrri hluta
kjörtímabilsins og byggð á grunni
umræðuskjals sem varð til undir
lok síðasta þings. Einnig er það
vel að ráðast eigi í heildstæða
endurskoðun á fyrirkomulagi
matvæla- og heilbrigðiseftirlits.
Allir sem hafa komið að
landbúnaði og matvælum þekkja
hversu mótsagnakennt það getur
reynst að eiga við opinberar
eftirlitsstofnanir sem í grunninn
túlka sömu löggjöfina án þess að
henni sé beitt á sama hátt í öllum
sveitarfélögum. Þetta þarf að
samræma. Þá er ljóst að til þess
að tryggja fæðuöryggi þarf að
stórauka og efla grænmetis- og
kornrækt í landinu. Samkvæmt
skýrslu um fæðuöryggi sem kom
út fyrr á þessu ári er fæðuöryggi
Íslands lakast þegar kemur að
kornmeti, hvort sem er fyrir menn
eða skepnur.
Afkomutrygging í kornrækt
Þó að hnattlega Íslands setji
kornframleiðslu ákveðnar skorður
eru aðstæður til landbúnaðar á
Íslandi mun hagfelldari en ætla má
af opinberri umræðu, vaxtartími er
langur og framleiðni mikil vegna
langrar ljóslotu. Íslenskur jarðvegur
er afar frjósamur þótt hann sé
einnig viðkvæmur og rofgjarn.
Auk þess eru mikil tækifæri til
að bæta ræktunarmöguleika með
nútímalegum plöntukynbótum,
með landbótum, t.d. skjólbeltarækt,
og með bættum ræktunaraðferðum.
Því er mikilvægt að setja strax
af stað vinnu sem hefur það
að markmiði að setja fram
tillögur um hvernig best megi
efla kornrækt. Um það er talað
í stjórnarsáttmála, að heildstæð
og tímasett aðgerðaráætlun verði
mótuð um eflingu akuryrkju.
Þar hlýtur að verða kannað
hvernig það stuðningskerfi sem
er til staðar fyrir landbúnað sé
aðlagað að þeim markmiðum að
efla kornrækt. Þar er margt sem
hægt er að gera, en fyrst og fremst
tel ég að huga þurfi að einhvers
konar afkomutryggingu fyrir þá
sem stunda ræktun á korni. Slíkar
fyrirmyndir eru til erlendis frá og
þarf að greina hvernig hægt sé að
koma þeim á fót hér á landi. Öðrum
kosti er ólíklegt að bændur taki þá
áhættu að fara í stórfellda kornrækt
ef ekki er tryggt með einhverjum
hætti að þeir séu ekki launalausir
ef svo illa fer að uppskera spillist.
Loftslagsvænn landbúnaður
Rannsóknum fleygir fram á
mörgum vígstöðvum í baráttunni
við að draga úr losun landbúnaðar
á gróðurhúsalofttegundum. Til
þess að unnt verði að taka nýjustu
tækni og nýjustu þekkingu í notkun
á íslenskum búum þarf að vera til
markviss þekkingarmiðlun. Þar
gefur verkefnið loftslagsvænn
landbúnaður gott fordæmi.
Sams konar metnaðarfull
verkefni þyrftu að fara af stað
til þess að gera gróffóðuröflun
eins skilvirka og hugsast getur
þannig að draga megi úr notkun
á áburði og þannig minnka losun
gróðurhúsalofttegunda.
Landnýtingarmál í sama
ráðuneyti
Þá eru mikil tækifæri í því fólgin
að landnýtingarmál séu nú öll í
sama ráðuneytinu. Með nýjum
áherslum á bindingu kolefnis í
gróðri má ætla að mikil tækifæri
séu fyrir nýja búgrein í landinu,
kolefnisbændur. Útfæra á
ramma um framleiðslu vottaðra
kolefniseininga í landbúnaði.
Slíkt er forsenda fyrir því að
hægt sé að selja þá vöru þeim
aðilum sem vilja jafna út þeirri
losun sem þeir ekki geta jafnað
sjálfir. Hægt er að hugsa sér marga
möguleika í þeim efnum. Nokkurs
konar samlagsfélag bænda gæti
séð um utanumhald, útvegun
vottunaraðila og samtengingu
kaupenda og seljenda. Þannig
gætu kolefnisbændurnir sjálfir lagt
fram land og vinnu við að setja
niður plöntur. Gríðarlegur vöxtur
er í svokölluðum valfrjálsum
kolefnismörkuðum um heim
allan og því er mikilvægt að hafa
hraðar hendur til að grípa þau
tækifæri. Annars munu fyrirtæki
leita á alþjóðlega markaði og þar
með glatast störf sem annars hefðu
getað orðið til í íslenskum sveitum.
Kári Gautason
Höfundur er sérfræðingur
í úrvinnslu hagtalna hjá
Bændasamtökum Íslands.
Nýr ráðherra með
leiðarvísi
Kári Gautason.
FRÉTTIR
HROSS&HESTAMENNSKA
Fjölmennur fundur var haldinn í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri þann 18. nóvember
síðastliðinn. Myndir / LbhÍ.
Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst:
Nýsköpunar- og þróunarsetur
verði byggt upp á Vesturlandi
– Byggi á sjálfbærni og umhverfisvænum landbúnaði og matvælaframleiðslu
Landbúnaðarháskóli Íslands og
Háskólinn á Bifröst hafa tekið
höndum saman um að á Vesturlandi
byggist upp nýsköpunar- og
þróunarsetur á sviði landbúnaðar,
matvælaframleiðslu, sjálfbærni,
ferðamála og nýtingu náttúrugæða
að leiðarljósi.
Þetta er í samræmi við sýn
ráðherra ferðamála, iðnaðar og
nýsköpunar, Þórdísar Kolbrúnar
Reykfjörð Gylfadóttur. Hún telur að
þörf sé á því að hér á landi verði til
öflug stofnun sem styrkir samvinnu
og nýsköpun á sviðið landbúnaðar og
matvælaframleiðslu með umhverfis-
og loftslagsmál að leiðarljósi.
Mikilvægt að fá alla að borðinu
þegar horft er til framtíðar
Fjölmennur fundur var haldinn í
húsakynnum Landbúnaðarháskóla
Íslands á Hvanneyri þann 18.
nóvember síðastliðinn með aðilum
frá fyrirtækjum og stofnunum sem
lýst hafa yfir áhuga á að styðja
við uppbyggingu nýsköpunar- og
þróunarseturs háskólasamfélagsins
á Vesturlandi. Um 30 manns mættu
til að ræða um framtíð íslensks
landbúnaðar og matvælaframleiðslu
með sjálfbærni og umhverfismál að
leiðarljósi.
Mikill hugur var í þátttakendum
sem allir lýstu yfir áhuga á að vera í
öflugu samstarfi við háskólana tvo á
Vesturlandi í að móta aðgerðaáætlun
og framtíðarsýn fyrir matvælalandið
Ísland með áherslu á landbúnað.
Forsvarsmenn frá umhverfis- og
auðlindaráðuneytinu, Orkustofnun,
Landsvirkjun, Bændasamtökum
Íslands, Rannsóknarmiðstöð
landbúnaðarins, Háskóla Íslands,
Samtökum sveitarfélaga á
Vesturlandi, Borgarbyggð, Breið
þróunarfélag, Símenntunarmiðstöð
Vesturlands, Hugheima, Orkídeu,
Auðnu tæknitorgi og Íslandsstofu
tóku þátt í fundinum auk fulltrúa
Landbúnaðarháskólans og Bifrastar.
Ísland hefur alla burði til að
vera leiðandi á sviði sjálfbærrar
matvælaframleiðslu
Að sögn Áshildar Bragadóttur,
nýsköp unar- og þróunarstjóra
Land búnaðarháskóla Íslands,
sem meðal annarra hefur unnið
að undirbúningi stofnunar
nýsköpunar- og þróunarsetursins
er framtíð íslensks landbúnaðar
og matvælaframleiðslu björt.
Tækifærin liggja meðal annars í því
að horft sé til þeirra sóknarfæra sem
felast í hreinni orku og auðlindum
íslenskrar náttúru. Hagnýting nýrrar
tækni, sjálfvirknivæðing, vöruþróun
og nýsköpun í öllu starfsumhverfi
landbúnaðar getur skipt greinina
miklu máli og haft gríðarleg áhrif á
tækifæri Íslands á sviði sjálfbærrar
matvælaframleiðslu. Þannig velja
neytendur um allan heim matvæli
út frá þáttum eins og gæðum
og umhverfisvitund og uppruni
matvæla skiptir neytendur sífellt
meira máli.
Áshildur bendir einnig á að
íslensk matvæli séu þekkt á
erlendum mörkuðum fyrir að
vera fyrsta flokks og áherslan á
lúxusferðamennsku hefur gert það
að verkum að fjöldi ferðamanna
sækir Ísland heim með það fyrir
augum að njóta þess besta sem
landið hefur upp á að bjóða.
„Það var virkilega ánægjulegt
að finna að fjölmargir deila þeirri
sýn sem við höfum til þessara
greina atvinnulífsins, en á sama
tíma er mikilvægt að til staðar sé
stuðningur við nýsköpun og þróun
á þessu sviði. Með stuðningi tveggja
öflugra háskóla á Vesturlandi teljum
við nýsköpunar- og þróunarsetrinu
vel komið fyrir á þessu landsvæði
þó setrið muni þjóna landinu öllu,“
segir Áshildur að lokum. /ÁB/HKr
Frá vinnufundum á Hvanneyri.
Kemur næst út 16. desember