Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1944, Page 38
Norrœn jól
hinir erlendu fangavagnar fara skröltandi um göturnar í myrkri næturinnar. Eng-
inn þekkir þá þöglu sorg, sem tekur sér sæti, þar sem eiginmaður, sonur eða bróðir
hafa verið færðir á braut, út í óvissuna, oft undir óskráðan dauðadóm. En hitt
vitum við, að þetta hefur engin áhrif á baráttuhug eða þrek þjóðarinnar. Þar
stoða hvorki hótanir né hermdarverk, því að jafnan kemur maður í manns stað,
og oft tveir fyrir einn, því að norrænir menn kunna enn að berjast, ef enginn er
annar kostur, og þá spyrja þeir ekki um lífið, er hugsjónir og frelsi þjóðarinnar
er í veði. Vopnin mega að vísu virðast fátækleg, eldvopn engin eða biturt stál.
En þá vega menn með orðum og svipmóti, ef ekki fæst annað til, og gegn vopnum
vitsmuna og snilli hafa harðstjórar allra alda kunnað fæst ráðin. Mig hlægir að
hugsa til þess, hvernig sendlarnir í Höfn leika hina alvopnuðu útlendinga með
tannhvössu háðinu einu saman.
Allir sæmilegir menn hljóta að óska þess af heilum hug, að hörmungar
þessara tveggja þjóða séu senn á enda. Og hver er sá íslendingur, að honum hlaupi
ekki kapp í kinn, er hann hugleiðir, hve drengilega þær verja rétt sinn og hug-
sjónir og hverjum rennur þá ekki blóðið til skyldunnar. Þær eru þó af sama bergi
brotnar sem við. Augljóst virðist, að þær munu báðar koma út úr þessari eldraun
styrkari en fyrr og auðugri miklu að þeim verðmætum, sem hvorki mölur né ryð
fá grandað: frelsisást, samhug og fórnarlund. — En hver verður okkar hlutur,
íslendinga? — Vissulega höfum við auðgazt að hinum jarðnesku fjármunum,
sem vaxið hafa, líkt og gorkúlur, upp af svita, blóði og tárum hinnar stríðandi
veraldar. Er líklegt, að slíkur auður verði okkur til gæfu eða virðast horfur á því
enn sem komið er? Hefur skilningur okkar aukizt á hlutverki okkar og eðli,
höfum við styrkzt í föðurlandsást, samlyndi og fórnfýsi, eða trúum við engu
minna en áður á slembilukku og skjóttekinn gróða? — Hve miklu mundir þú,
íslendingur, vilja fórna fyrir frelsið, fyrir ísland? Létir þú atvinnu þína, heimili
þitt, aleiguna, lífið? Um allt þetta má vafalaust lengi deila, meðan ekki reynir á.
En hitt er víst, að við lifum nú okkar örlagastund.
Ýmsir mætir menn hafa haldið því fram undanfarið, að norræn samvinna
sé okkur íslendingum lítils virði. Þessi skoðun er að mínum dómi röng og raunar
háskaleg. Rætur þjóðlífs vors og menningar liggja djúpt í norrænni jörð, og ég
er sannfærður um það, að við njótum okkar bezt sem norræn þjóð 1 samstarfi
við aðrar norrænar þjóðir. Þöllin á þorpinu hrörnar, og þjóðir þurfa skjóls, þurfa
velvildar og skilnings annarra þjóða, og þá ekki sízt vér, hinir smæstu. Norður-
36