Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 8

Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 8
8 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022 Dall-E Verk úr smiðju Dall-E gervigreindarforritsins. Skrifuð er lýsing sem forritið myndgerir. Lýsingin var: Drengur að leik með hund sinn og hljóðfæri, sól skín á stjörnubjörtum himni, snæviþakin fjöll í fjarska. Beðið var um málverk, eitt natúralískt, eitt kúbískt og eitt impressjónískt. Dall-E Lýsing: Gamall maður hættir í vinnu á dagblaði, samstarfsmenn hans fagna. Beðið var um ljósmynd og tvö málverk, annað í stíl Leonardos da Vincis, hitt Hieronymus Bosch. Samþætting, ekki sundurgreining Fyrir stuttu birtust á netinu myndir af fólki við eins hversdagslega iðju og að sitja á klósettinu, laga kaffi eða fá sér lúr í stofunni. Það sem gerði myndirnar óvenjulegar var sjónarhornið; greinilegt var að þær höfðu verið teknar úr gólfhæð, eða þar um bil, enda kom fljótlega í ljós að myndirnar voru úr ryksuguróbot, eða „ryksugu- og skúringarvélmenni með gervigreind – hönnuð af NASA“ eins og slík apparöt voru kynnt í auglýsingum fyrir áratug eða svo. Myndirnar atarna voru víst teknar, með leyfi fyrirsætanna, til að kenna vélunum að rata um allar hindranir sem orðið geta á vegi svo lágvaxins vélmennis, enda voru þær sendar til starfsmanna ryksuguframleiðandans í Suðaustur-Asíu sem greindu myndirnar og skrifuðu leiðbeiningar fyrir. Það var sem sé gervigreindin. Fyrirbærið „gervigreind“ er fyrst nefnt í íslenskum prentmiðli í dagblaðinu Tíman- um í september 1982. Í blaðinu er rætt við sálfræðinginn Jörgen Pind (sem er í dag prófessor emeritus við Háskóla Íslands) um tölvugreind eða gervigreind, en Jörgen var þá nýkominn af ráðstefnu í Svíþjóð um hagnýt- ingu tölva fyrir sálarfræði og málfræði. „Með gervigreind eða tölvugreind (á ensku „artificial intelligence“)," segir í greininni, „er átt við til- raunir til að búa til tölvur sem eru svo „greind- ar“ að þær geta staðið mönnum jafnfætis eða verið þeim fremri að fást við ýmis verkefni sem mannlega vitsmuni þarf nú til að leysa.“ Í þessu samhengi má hnýta í það að orðinu greind hafi verið skeytt aftan við forliði til að lýsa fyrirbærinu, enda nokkuð ljóst að tölvur geta ekki talist greindar í eiginlegri merkingu þess orðs, þær eru verkfæri samþættingar en ekki sundurgreiningar. Að því sögðu þá kemur ekkert upp í hugann sem hentar betur – ekki getum við notað orð eins og gáfu, því það dregur með sér í samtalið gamlan hindurvitnahala. Og tölvu- greind er eiginlega ekki betra orð en gervigreind. Undir lok átjándu aldar smíðaði ungverski uppfinningamaðurinn Wolfgang von Kempelen vélmenni sem teflt gat skák til að heilla keis- araynju Austurríkis-Ungverjalands. Vélin sú vakti að vonum gríðarlega athygli, enda sat vélmenni við skákborð, tefldi við þá sem tefla vildu og vann flestar skákirnar. Þegar rýnt var í vélbúnaðinn, innvols vélmennisins, kom aftur á móti í ljós að inni í kassanum var smávaxinn skákmeistari. Skáktyrkinn var þetta apparat kallað í ís- lenskri þýðingu á skáldsögu Robert Löhr og kom út á íslensku fyrir fimmtán árum, en á þýsku kallaðist vélin einmitt Schachtürke. Ytra var vélin aftur á móti kölluð véltyrki á ensku, Mechanical Turk, og það heiti notar Amazon á þjónustu sem hægt er að kaupa aðgang að eftir þörfum, til að mynda ef flokka á myndir, lesa yfir skannaðar bækur, textagreina hlaðvörp, yfirfara nafna- eða vörulista og svo má áfram telja. Þarf varla að taka fram að þetta eru illa launuð störf og þeim fylgir ekkert öryggi, engir frídagar, veikindadagar né lífeyrisréttindi. Ryksuguróbótasmiðir, Meta (Facebook) og fleiri stórfyrirtæki nýta sér slíka þjónustu, reka hana sjálfir eða kaupa aðgang að henni annars staðar eftir þörfum. Vakti til að mynda athygli þegar „starfsmenn“ Meta í Afríku fóru í mál við fyrirtækið til að sækja sér meiri réttindi. Þeirra iðja var meðal annars að skoða myndir af Face- book-síðum og greina hvort þær væru húsum hæfar. Þeir þurftu oft að glíma við slíkt ógeð að það var þeim beinlínis skaðlegt andlega. Gervigreind sem byggist á því að fólk sitji við og flokki og raði og greini er augljóslega ósköp venjuleg mannleg greind, ekki einu sinni tölvu- greind. En hvað þá með gervigreindarmynd- list? Hvað með Jasper Art, Stable Diffusion, DALL-E 2 eða DeepAI, svo tekin séu dæmi af nokkrum vinsælum gervigreindarlistsmiðjum? Ekki hefur verið þverfótað fyrir myndum sem settar eru saman með slíkum forritum undan- farna mánuði, hvort sem fólk er að keppast um að skapa sem skemmtilegustu, fáránlegustu, ógeðfelldustu eða raunverulegustu stælinguna. Tölvugreindin á bak við slík forrit getur skipt út bakgrunni mynda eftir þörfum, breytt stemningu, eða sett fyrirmyndir í sérkenni- legar eða óviðeigandi aðstæður eftir því sem beðið er um. Hráefnið er svo myndlist í gegnum aldirnar, allt það sem til er stafrænt af listsköpun mannkynssögunnar, án tillits til eignarhalds eða uppruna. Í raun má segja að allt myndasafn mannkyns sé undir, sé það aðgengilegt á netinu á annað borð. Ljós- myndir líka. Að því leyti nærist gervigreind á hugviti og handverki mannfólks, ekki síður en sú gervigreind sem notuð er til að stýra ryksuguróbótum eða fjarlægja ógeð af Face- book. Myndirnar sem til verða eru stælingar, því gervigreind getur ekki skapað, hún getur bara nálgast, námundað en ekki náð listinni. Sama á við um tölvugreindartextasmiði, sem eru legíó: nefni ChatGPT, Jasper, Writesonic, Copy.ai og ContentBot sem dæmi. Þær græjur éta texta úr bókum, bloggum, tístum og sam- félags- og vefmiðlum og moða úr honum eftir því sem þeim er sett fyrir. Ef beiðnin er nógu vel mótuð, nógu ítarleg, getur niðurstaðan orðið býsna lík ritgerð miðskólagengins barns (en allt er þetta á ensku enn sem komið er). Í greinarnar vantar þó eðlilega alla skapandi hugsun, en eru hugsanlega nýtanlegar til að búa til markaðsþvaður fyrir vefsíður. Í ritgerðinni Hnignun lyginnar (The Decay of Lying), sem kom út 1891, bendir Oscar Wilde á að listin birti aldrei neitt nema sjálfa sig; hún skapi eitthvað einstakt og snúi sér svo að öðru. Gervigreind / tölvugreind á lítið skylt við listina; sköpun er tengd innsta kjarna mannkyns og hefur verið frá örófi, tengd því hvað við erum ófullkomin sem lífverur. Tölvur geta ekki búið til list, ekki skapað í eiginlegri merkingu þess orðs, þó þær geti námundað og nálgast. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði spáði svo um framtíðina eitt sinn að allt það sem ekki hefur þegar gerst muni gerast. Í því ljósi þykir mér líklegt að sá dagur renni upp að ég hafi rangt fyrir mér varðandi ofangreint, að það tölvuforrit verði skrifað, líklega af öðru tölvuforriti, sem sé svo ófullkomið að það skapi raunverulega list. En þá verð ég væntanlega löngu dauður. Gervigreind / tölvugreind á lítið skylt við listina; sköpun er tengd innsta kjarna mannkyns og hefur verið frá örófi, tengd því hvað við erum ófullkomin sem lífverur. Á hverju byggist gervigreindin sem við nýtum til að smíða texta, teikna myndir, sníða ljósmyndir? Er hún verkfæri misskiptingar og óréttlætis eða boðberi hins nýja, góða heims? ÁRNI MATTHÍASSON hefur starfað á Morgunblaðinu frá árinu 1981 og skrifað um tónlist, bókmenntir, tölvur og tækni. TÍMAMÓT GERVIGREIND HEFUR VERIÐ Á ALLRA VÖRUM UNDANFARNAR VIKUR ENDA ERU ÝMIS VERKFÆRI ÞEIRRAR GERÐAR OPIN FYRIR ALMENNA NOTKUN Á VEFNUM.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.