Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 20

Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12.2022 TÍMAMÓT HVER ER STAÐA ÍSLENSKUNNAR? Á íslensku má alltaf finna svar. nýta innviðina til að þjónusta almenning betur, hvort sem það erum við sem erum ófötluð að tala við heimabankann okkar, af því að það er þægilegt, eða fólk sem þarf á þessum lausnum að halda vegna sinna mannréttinda. Flóran er stór og hóparnir breiðir og skipta allir máli. Það er ánægjulegt að segja frá því að fjöldi fyrirtækja er kominn af stað í þessa vegferð og eru að gera flotta hluti.“ Búin að ná settu marki – Sjálf ert þú að láta af störfum í byrjun nýs árs. Hvers vegna? „Ég er búin að leiða þetta verkefni í fjögur ár, búin að ná þeim árangri sem ég stefndi að og þessum fyrsta fasa verkefnisins er því lokið. Á þessum tíma hef ég komið mér upp víðtækri þekkingu á þessu sviði, bæði hvað varðar máltækni og gervigreind, og það mun ábyggilega nýtast mér í komandi verkefnum,“ svarar Jóhanna Vigdís. Áður en hún tók við sem framkvæmdastjóri Almannaróms var Jóhanna Vigdís fram- kvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík, þar sem hún stýrði meðal annars viðskiptaþróun og samstarfi rannsókna og atvinnulífs. Jóhanna Vigdís hefur meðal annars lokið MBA-námi og er með aðra stjórnendagráðu frá IESE Business School í Barselóna. „MBA-námið nýtist mér mest í þessum stjórnunarstöðum en þegar upp er staðið erum við öll samsafn fjölbreytilegrar reynslu, menntunar, persónuleika og lífsreynslu, það vinnur allt saman. Það hefur gagnast mér vel að vera með fjölbreytilegan bakgrunn. Ég hef flakkað svolítið á milli opinbera geirans og einkageirans í gegnum tíðina; var til dæmis hjá Straumi-Burðarási í þrjú ár fyrir hrun, þar sem ég stýrði fjárfestatengslum og markaðs- málum. Fyrirtækið fór úr 40 manns í 400 á þeim tíma og svo aftur niður í 10. Eftir það var ég framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík. Þannig að þetta hefur verið fjölbreytt og sama hvað maður tekur sér fyrir hendur þá byggir maður alltaf á fenginni reynslu með einhverj- um hætti.“ Vill ekki endurtaka sig – Hefurðu haft gaman af þessu Almanna- rómsverkefni? „Já, mjög svo. Það er að mínu mati skemmti- legast að fara af fullum krafti inn í öll þau verkefni semmaður tekur að sér og það er auðvitað skemmtilegast að læra eitthvað nýtt í leiðinni. Það er svo gleðilegt að sjá hvernig hugmyndir um aðgengi að tungumálinu og þá sérstaklega íslenskukennslu hafa sprungið út, ekki síst á árinu sem er að líða. Oft er talað um að tungumálið sé lykill að samfélaginu, sem er alveg rétt, en við erum alltaf að átta okkur betur á því að samfélagið er líka lykillinn að tungumálinu. Það er svo margt sem hefur unnið saman og mér finnst áhugi fólks á tungumálinu almennt vera að aukast.“ Tungumál sem fáir tala eiga alltaf á hættu að deyja út, þannig að þessi aukni áhugi á íslensk- unni hlýtur að vera gleðiefni. „Svo sannarlega. Íslenskan getur auðveldlega alveg dáið út ef ekki er unnið markvisst að því að hún verði nothæf í nýjum tækniveruleika. Það skiptir miklu máli að smíða nýyrði yfir nýja hluti og hugtök og þar höfum við staðið okkur mjög vel. Okkur þykir til að mynda sjálfsagt að nota hugtakið gervigreind en ekki AI eða artificial intelligence, sem ansi margar aðrar þjóðir nota yfir þessa nýju tækni. Um leið er afskaplega mikilvægt að við höfum umburðarlyndi að leiðarljósi í ást okkar á tungumálinu. Eitt af því sem Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus og einn upphafsmanna máltækni- áætlunar, hefur lagt áherslu á, er að vera ekki með dómhörku, enda þótt við séum að passa upp á tungumálið okkar, gagnvart fólki sem er að læra íslensku eða er ekki alið upp við það málsnið sem hefur flokkast undir góða íslensku. Mestu skiptir að fólk noti tungumálið og það er líklegra til að gerast ef við nálgumst það verkefni af jákvæðni, enda eigum við það saman.“ Að tala við bílinn En snúum okkur aftur að tækninni. Vel hefur gengið að tæknivæða íslenskuna og að sögn Jóhönnu Vigdísar er raunhæft að við verðum innan fárra ára farin að tala við bílinn okkar, sjónvarpið og aðra hluti á íslensku. „Það er markmiðið en það veltur þó á því hvernig stjórnvöld styðja við næstu máltækniáætlun. Það er áríðandi að hamra járnið á meðan það er heitt. Þetta snýst um að fá sérfræðinga í máltækni til að vinna að þeim lausnum áfram enda eru það ekki vélar sem búa til máltækni- lausnir. Umhverfið er í stöðugri þróun og við þurfum að halda í við það, uppfæra gagnasöfn- in okkar og tæknilausnirnar þannig að þær virki í nýrri tækni. Næsta máltækniáætlun þarf því að vera þrískipt. Halda þarf áfram með ákveðna grunninnviði og smíða nýja; það er alls ekki allt búið þar. Þá þarf að viðhalda því sem þegar hefur verið búið til. Og í þriðja lagi þarf að búa til hvata fyrir fyrirtæki og stofnanir til að innleiða þessa tækni og þessar lausnir.“ Hún er bjartsýn á aðkomu fyrirtækjanna í landinu enda búi hún að því að hafa unnið með öflugri stjórn auk þess sem Samtök atvinnulífsins, með Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóra í broddi fylkingar, hafi staðið þétt við bak máltækni- áætlunar frá upphafi. „Það skiptir öllu máli að vera með öfluga bakhjarla. Það er ekki nóg að verið sé að vinna góða vinnu ef Gullaldaríslenskan deyr út Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, situr í makindum yfir kaffibolla heima hjá sér þegar ég slæ á þráðinn til hans enda í jólafríi eins og stéttin almennt. Hann tekur erindinu þó strax vel enda rennur honum blóðið til skyldunnar. Hver er staða íslenskrar tungu áramótin 2022- 23, frá sjónarhóli menntaskólakennarans? „Orðaforði íslenskra ungmenna er að breytast; sumir segja að hann sé minni en áður en sennilega er réttara að segja að hann sé orðinn annar, það er meira enskuskotinn,“ segir Stefán Þór. „Nýyrði, slangur, styttingar og annað slíkt kemur í auknum mæli þaðan. En á meðan málið sem er talað er að meginhluta íslenska er engin ástæða til að örvænta. Hlaut líka ekki að koma að því að íslenskan færi að þróast hraðar en hún hefur gert undanfarnar aldir? Hún er eitt af þeim tungumálum í heim- inum sem breyst hafa hvað minnst gegnum tíðina. Við höfum ríghaldið í beygingakerfi og hverskyns sérvisku sem mörg skyld germönsk mál hafa löngu kastað eða einfaldað.“ Meira töff að tala ensku Hann kveðst alveg skilja menn sem spá dauða íslenskunnar enda verði alltaf algengara að heyra íslensk börn og unglinga tala ensku sín á milli í sundi eða á öðrum opinberum stöð- um. „Maður varð svolítið hissa þegar maður heyrði guttana fyrst tala saman á ensku í sundi og hélt að kannski væri einhver innflytjandi í hópnum. En nei, svo var ekki. Þeim fannst bara meira töff að tala ensku, sérstaklega þegar um- ræðuefnið er tölvuleikir en allur sá málheimur liggur henni nær,“ segir hann. Þegar ungmenni tala ekki, lesa ekki og hlusta ekki á íslensku er ekkert undarlegt að málið útvatnist býsna hratt og málskilningur dofni. Stefán Þór segir marga nemendur sína hafa tilhneigingu til að stytta sér leið þegar þeim er gert að lesa bók; þeir reyni að finna glósur, útdrætti, hljóðbækur og allt sem sparar þeim ómakið. „Hvaða áhrif hefur það þegar menn hlusta meira en þeir lesa? Það er ekki komin nægilega mikil reynsla á það. Auðvitað finnst sumum nemendum þægilegra að hlusta á bækur enda geta þeir þá gert eitthvað annað á meðan en viðheldur það máltilfinningunni og ná þeir þræðinum? Þessir nemendur vilja líka heldur einfaldar bækur enda eiga þeir vont með að skilja tímaflakk, mismunandi sjónarhorn og annað slíkt þegar þeir hlusta bara á þær. Mér finnst margt vera að glatast með minni lestri, minni notkun og minni leik,“ segir Stefán Þór sem hefur góðan samanburð eftir 28 ár sem íslenskukennari í framhaldsskóla. Hann vonast þó til að íslenskan verði áfram nothæf á öllum sviðum og líst vel á þróun máltækninnar. Æ færri þekkja Laxness – Er þá mikill munur á stöðunni núna og þegar þú byrjaðir að kenna? „Já, auðvitað er munur. Forðum voru sumir gamalreyndir kennarar að þusa um að nemendur gætu ekki komið inn í framhalds- skóla án þess að vera búnir að lesa Laxness og Íslendingasögurnar og þegar ég var að byrja í kennslunni var hægt að minnast á ýmsar bók- menntir og nemendur könnuðust við margar hverjar og voru sjálfir að lesa. Á þessum tíma höfðu nemendur upp til hópa annan og meiri orðaforða í íslensku. Það hefur breyst mikið og sérlega hratt síðustu 15-20 árin með blessuðum snjalltækjunum og æ minni bóklestri.“ – Færðu varla inn nemendur lengur sem lesið hafa bókmenntir? „Þeim fer ört fækkandi og í núverandi námskrá er erfitt að ná utan um nemendur sem eiga vont með að lesa sér til skilnings og gagns og gera það ekki. Þeir skilja ekki heldur verklýsingar eða fyrirmæli á prófum eða nenna ekki að lesa þau vegna þess að þetta er kannski hálf blaðsíða. Allt sem heitir þol, seigla eða pælingar hefur minnkað til muna.“ Meiri áhersla á málnotkun Íslenskukennarar í Menntaskólanum á Akureyri hafa verið að draga úr áherslu á bókmenntasögu í sinni kennslu, upptalningu á nöfnum, titlum og skáldum sem nemendur tengja ekkert við. Þess í stað og meðfram hefur verið lagt meira upp úr málnotkun og það að leika sér með málið. Sum sé vinna með nútímamál. Stefán Þór bjó til sérstakt kennslu- hefti af þessu tilefni, Málæði, sem nemendur á öðru ári glíma við. „Niðurstaða mín úr svona málpólitískum umræðum við nemendur mína er í 90% tilfella sú að nemendur vilja viðhalda og varðveita íslenskuna og að þeir sem hingað flytja tileinki sér tungumálið okkar. Þeim finnst hins vegar allt í lagi að það taki breytingum og ekkert „möst“ eins og þeir segja að beygja seinna skírnarnafn fólks. Óþarfi sé að fara til Tönju Ýrar, alveg nóg sé að fara til Tönju Ýr.“ Stefán Þór hefur líka átt samtal við nem- endur sína um það hvort rökrétt sé að taka upp tvö opinber tungumál á Íslandi, íslensku og ensku. Halda þeim svo bara aðskildum Það að lesa Arnald Indriðason eftir 50 ár verður eins og fyrir nemendur núna að lesa Laxness eða jafnvel Íslendingasögurnar. ORRI PÁLL ORMARSSON Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við MA, segir íslenskuna þróast hraðar í dag en undanfarnar aldir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.