Borgfirðingabók - 01.12.2012, Qupperneq 180
180 Borgfirðingabók 2012
á kjölinn og fleira. Það var gaman að sjá hann vinna. Og sjá stóran
bókastafla af nýbundnum bókum, gylluðum. Óneitanlega féllu oft
bréfræmur af hnífnum á gólfið, en þær voru gullsígildi að leika sér
með, búa til úr þeim stjörnur. Ég held ég kunni það ennþá.
Bjarni hafði hægt um sig, en glotti út í annað af og til. Hann var
ungur maður, pjattaður. Neitaði að gefast upp, þó hann væri sjúk-
lingur alla tíð.
Það er mikils virði að eiga þessar minningar. er ekki meira virði að
hafa gaman af að leika sér með hefilspæni og bréfræmur, sem enginn
hefur ágirnd á, heldur en dýrindis leikföng, sem valda öfund þeirra,
sem ekki eiga?
Gunna skaust stund og stund, þegar tími vannst til, inn í herbergið
sitt til að prjóna á vélina, en hún prjónaði fyrir hina og þessa. Var
þessi prjóna vél ein sú fyrsta í héraðinu, ef ekki – jú, sú fyrsta.
Niðri í eldhúsi man ég best eftir moðsuðunni – og skeggbolla Árna
og þvottavél, sem Árni smíðaði.
Þóra flutti til Reykjavíkur 1928. Man ég þegar hún kom að kveðja.
Þeir feðgar, Árni og Bjarni, gerðu ekki endasleppt við mig. Árni
smíðaði handa mér forláta kommóðu, sem Bjarni málaði. er hún
óbreytt ennþá. Gáfu þeir mér hana í fermingargjöf 1932. Það var lítið
um að krakkar fengju fermingargjafir frá vandalausum í þá daga.
V.
ekki má gleyma henni Gunnu á Brenni. Hún var fædd 11. ágúst 1862,
dáin 30. mars 1962. Hún var kjölfestan, þó hún væri bara vinnukona
með skýluklút. Bráðgreind, lét engan eiga neitt hjá sér, svaraði af
einurð og komst vel að orði. Heyrt hef ég haft eftir Jóni Helgasyni frá
Rauðsgili, að þegar hann hafi átt í sálarkreppu í sínum hugarheimi,
„þá leitaði ég til Gunnu frænku minnar, hún átti svarið“. en hún var
ljúf og góð við alla sem minna máttu sín. engan mátti hafa útundan.
Nú skulum við horfa á stuttmynd. Ég sit í stúku, virðulegasta stól
á Brenni. Sný mér snöggt í hring, þá skrúfast stóllinn upp og ég
hækka upp yfir aðra. en þegar ég sný mér sólarsinnis, verð ég aftur
sami litli aulinn. Nú hefst myndin: Gunna í aðalhlutverki. Hún er að
snúast í eldhúsinu, er í pilsi, sem nær niður á ökla, ullarsokkum, lítið
eitt skældum skinnskóm, með svuntu, hyrnu og skýluklút. Hún snýr
sér að eldavélinni; „Fer ekki suðan að koma upp?“ – hún opnar litla
hurð framan á eldavélinni, til að hagræða glóðinni með skörungi. Þá