Borgfirðingabók - 01.12.2012, Síða 229
229Borgfirðingabók 2012
Fræði
Undanfarin ár hefur stofnunin haft frumkvæði að eða tekið þátt í
nokkrum alþjóðlegum og þverfaglegum rannsóknarverkefnum, oftast
í samvinnu við innlenda sem erlenda háskóla og rannsóknartengsl-
anet, enda íslensk miðaldafræði alþjóðleg í eðli sínu. Þessi alþjóð-
legu samskipti skipta Snorrastofu miklu, enda hafa á þriðja hundrað
innlendir og erlendir fræðimenn komið í Reykholt á umliðnum árum,
ýmist til að taka þátt í rannsóknarverkefnum, sitja ráðstefnur Snorra-
stofu eða dvelja á staðnum við rannsóknir, þýðingar og önnur skrif.
Þessar rannsóknir varða oft Snorra Sturluson sérstaklega, beint eða
óbeint. Fjölmargar greinar með niðurstöðum rannsókna hafa birst í
tímaritum og bókum. Umfangsmestu verkefnunum til þessa hefur
lokið með útgáfu fræðirita.
Rannsóknarstarf Snorrastofu er öflugt og eru 11 bækur með rann-
sóknarniðurstöðum í undirbúningi til ársins 2017 til viðbótar við þær
7 sem þegar hafa komið út. Þar af munu 3 til 4 koma út árið 2012.
Hvað einstakar rannsóknir varðar, þá lauk árið 2011 að mestu úr-
vinnslu Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings á fornleifa-
rannsókn bæjarhólsins í Reykholti og var ritun bókar um rannsóknina
komin á lokastig um áramótin. Guðrún, sem var verkefnistjóri forn-
leifarannsóknanna í Reykholti, naut aðstoðar ýmissa fræðimanna
við þessa vinnu og er hönnun og umbrotsvinna bókarinnar í höndum
Sigríðar Kristinsdóttur. Úrvinnslu Guðrúnar á uppgreftri á kirkjum
Reykholts miðaði einnig vel áfram.
Vinna úr umfangsmiklum niðurstöðum hins sk. Reykholtsverk-
efnis er einnig komin vel á veg. Þetta stóra þverfaglega verkefni
var þróað árið 1999 undir forystu Háskóla Íslands, Þjóðminjasafns
Íslands og Snorrastofu. Öxullinn sem allt snérist um var fornleifa-
rannsóknin í Reykholti, en þar fyrir utan var reynt var að gera sér
grein fyrir veðurfari, gróðurfari, búskap, menntun og mörgu fleira á
svæðinu á miðöldum.
Í undirbúningi er útgáfa síðustu bókar verkefnisins Reykholt og
evrópsk ritmenning, sem hófst árið 2001. Um er að ræða fjórðu bók
verkefnisins og fjallar hún um birtingarmyndir Reykholts miðaldanna
í texta og öðrum efnislegum heimildum. Þessi bók, sem varpar ljósi
á viðfangsefnið með fjölbreyttum hætti, var í árslok að mestu tilbúin
í handriti. Vonast er til að hún fari í prentun nú í sumar.