Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 10
2.2 Almennar og sérgreindar skýrleikakröfur stjórnarskrárinnar í saka-
málum
Stjórnarskráin gerir ákveðnar form- og efniskröfur til refsiheimilda við
mótun verknaðarlýsinga og við ákvörðun löggjafans um refsitegundir og mörk
þeirra. Af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar leiða tilteknar almennar form- og
efniskröfur til löggjafans við setningu refsiákvæða og til dómstóla við beitingu
þeirra í framkvæmd. Það stjórnarskrárákvæði á þannig við um allar refsiheim-
ildir óháð eðli þeirra eða tegund og felur því í sér almenna lagaáskilnaðarreglu.
Þegar refsiheimildir mæla hins vegar fyrir um skerðingu mannréttinda, t.d. tján-
ingarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, eða atvinnufrelsis, sbr. 75. gr., kunna
þau mannréttindaákvæði hins vegar að gera aðrar og eftir atvikum meiri kröfur
til skýrleika slíkra refsiheimilda en leiðir af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.
Hinar sérgreindu lagaáskilnaðarreglur 64.-66. gr. og 71.-75. gr. stjórnarskrár-
innar fela þannig í sér lex specialis að þessu leyti í sakamálum gagnvart hinu
almenna ákvæði 1. mgr. 69. gr.13
Ákvæði 1. mgr. 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu hefur að geyma almenna
lagaáskilnaðarreglu í ofangreindum skilningi, þ.e. almenna reglu er tekur til
allra mála þar sem refsiábyrgð kemur til greina. Eðli og tegund refsinæmrar
háttsemi skiptir því ekki máli þegar inntak og gildissvið ákvæðisins er nánar
afmarkað, sbr. hins vegar ákvæði 8., 9., 10. og 11. gr. sáttmálans sem eiga við
þegar refsiverð háttsemi felur í sér skerðingu eða takmörkun á friðhelgi einka-
lífs, trúfrelsis, tjáningarfrelsis eða félaga- og fundafrelsis. Fyrirmæli 7. gr. sátt-
málans eru því að jafnaði til fyllingar við túlkun og beitingu undanþágureglna
2. mgr. 8. gr., 2. mgr. 9. gr., 2. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 11. gr. Á það einkum við
um það skilyrði fyrir skerðingu á þeim réttindum sem þessi ákvæði vernda að
hún eigi sér næga stoð í lögum bæði hvað varðar form og efni. Mat á því hvort
refsiregla teldist t.d. nægjanlega skýr og fyrirsjáanleg til skerðingar á tjáningar-
frelsi færi því að jafnaði fram á grundvelli undanþágureglu 2. mgr. 10. gr.
mannréttindasáttmálans en ekki 1. mgr. 7. gr., sbr. t.d. dóm Mannréttindadóm-
stóls Evrópu í máli Sunday Times gegn Englandi.14 Samkvæmt þessu hefur 7.
gr. Mannréttindasáttmála Evrópu einkum sjálfstæða þýðingu í þeim tilvikum
þegar refsiábyrgð tekur til háttsemi sem ekki nýtur sem slík verndar samkvæmt
öðrum ákvæðum sáttmálans.
Í þessari grein verður umfjöllunin miðuð við greiningu á meginreglunni um
skýrleika refsiheimilda samkvæmt hinum almennu lagaáskilnaðarreglum 1.
mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálans. Þar
kann þó að þurfa að hafa til hliðsjónar þau sjónarmið sem eiga við um skýrleika
refsiheimilda þegar reynir á hinar sérgreindu lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrár-
10
13 Sjá nánar um hugtökin almenn og sérgreind lagaáskilnaðarregla Róbert R. Spanó: „Stjórnar-
skráin og refsiábyrgð“ (fyrri hluti), bls. 35-38.
14 Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sunday Times gegn Englandi frá 29. mars 1979.
Series A, No. 30. Nánar verður vikið að þessum dómi í kafla 3.1.6.