Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 81
bótareglunnar.
3.1 Varsla
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. er sveitarstjórnum
heimilt að setja samþykktir um búfjárhald og í þeim má ákveða að búfjárhald
sé með öllu bannað í sveitarfélaginu eða takmarkað á tilteknum svæðum innan
þess. Í 6. gr. laganna er sveitarstjórnum heimilað að ákveða að skylt sé að hafa
búfé í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta þess. Vörsluskyldan getur náð yfir allt
sveitarfélagið eða afmörkuð svæði innan þess. Sem dæmi um samþykkt af
þessu tagi má nefna samþykkt nr. 426/2003 um takmörkun búfjárhalds og bann
við lausagöngu búfjár í Reykjavík. Samkvæmt 4. gr. hennar er vörsluskylda á
búfé allt árið. Aðrar samþykktir um sama efni eru t.d. nr. 700/2003 um búfjár-
hald í Dalvíkurbyggð, en samkvæmt henni er búfjárhald utan lögbýla óheimilt
án leyfis sveitarstjórnar. Í samþykktinni er ákvæði um að hross og nautgripi
skuli hafa í vörslu allt árið, en sauðfé frá fyrstu göngum til 15. júní. Ekki eru
ákvæði um vörslu annars búfjár. Í samþykkt nr. 760/1999 um búfjárhald á Akra-
nesi er hins vegar ákvæði sem bannar lausagöngu alls búfjár í landi kaupstað-
arins. Ekki er ástæða til að nefna fleiri samþykktir, enda ákvæði þeirra allra
keimlík. Þó er rétt að geta samþykktar nr. 182/2000, sem bannar lausagöngu
hrossa í Rangárvallahreppi, og samþykktar nr. 426/2003, er bannar lausagöngu
stórgripa, hrossa og nautgripa á Austur–Héraði. Þessar samþykktir fjalla ekki
um búfjárhald að öðru leyti.
Þá eru í 7. gr. laganna um búfjárhald o.fl. ákvæði um vörslu graðpenings, en
samkvæmt henni skal halda nautum, 6 mánaða og eldri, og graðhestum, 10
mánaða og eldri, í vörslu allt árið. Hrútar og hafrar skulu vera í vörslu á tíma-
bilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert og graðpeningur af öðrum búfjárteg-
undum skal vera í vörslu allt árið.
Í samþykktum um hundahald, sem settar eru samkvæmt heimild í 25. gr.
laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, eru ákvæði um vörslu
hunda og má sem dæmi nefna samþykkt nr. 52/2002 um hundahald í Reykja-
vík. Í henni eru ákvæði um hvernig með hunda skuli farið, hvar þeir mega vera
og hvar ekki, hvar þeir mega ganga lausir og annað er lýtur að hundahaldi. Sam-
kvæmt 8. gr. samþykktar nr. 360/2001 um hundahald á Akureyri má hundur
aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í fylgd með manni sem hefur fullt
vald yfir honum. Þá hafa sum sveitarfélög einnig sett sér samþykktir um katta-
hald með heimild í þessari lagagrein.
Enn fremur má nefna ákvæði í lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra og
lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í lögum þessum og
reglugerðum, settum með heimild í þeim, eru ákvæði um hvernig vörslu skuli
háttað á dýrum sem leyft er að flytja til landsins og hvernig við skuli brugðist
ef koma upp sjúkdómar í dýrum, þ.á m. hvernig vörslu skuli háttað.
Loks skal nefnt ákvæði í 56. gr. vegalaga, nr. 45/1994, sem bannar lausa-
göngu búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum
megin.
81