Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 38
38
Dómurinn telur að skip ákærða hafi ekki verið fullmannað þegar ákærði lagði úr höfn
og hélt því til veiða í umrætt skipti. Broti ákærða er lýst þannig í ákærunni að hann
hafi með þessu brotið gegn skipstjóraskyldum sínum og í málflutningi skírskotaði
sækjandinn í málinu eindregið til 6. gr. siglingalaga í því sambandi. Í ákærunni er þó
ekki vikið að siglingalögunum en dómurinn telur ákærða ekki hafa uppfyllt þá starfs-
skyldu sína sem lögð er á hann með 1. mgr. 6. gr. siglingalaga að sjá til þess að skipið
væri nægilega mannað. Aftur á móti er ekki almennt refsiákvæði í XV. kafla siglinga-
laga, heldur eru þar „casuistiskt“ talin upp þau brot á lögunum sem refsingu varða og
er þessi vanræksla ákærða ekki þar á meðal. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir
brot gegn siglingalögum.
Samkvæmt 4. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum
„skal“ lágmarksfjöldi stýrimanna á skipum sem eru 301 rúmlest og stærri, sem fyrr
segir, vera tveir. Þá „skal“ lágmarksfjöldi vélstjóra á skipum með 1801 kw vél og
stærri vera þrír, eins og fyrr segir, sbr. 2. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vél-
stjóra og vélavarða, þ.e. yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri og annar vélstjóri. Enda þótt það
segi í hvorugum lögunum berum orðum að það sé skylda skipstjóra að gæta þess að
þessar fortakslausu kröfur laganna séu uppfylltar að því er varðar stýrimenn og vél-
stjóra, verður að telja að það leiði bæði af 1. mgr. 6. gr. siglingalaga og eðli máls að
sú skylda hvíli á herðum hans. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar samkvæmt 1.
mgr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og 1.
mgr. 14. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum
skipum.
Í dómi Hæstaréttar var héraðsdómur staðfestur með eftirfarandi forsendum:
Óumdeilt er að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri Vigra höfðu ekki gild atvinnuréttindi
þegar landhelgisgæslan kom að skipinu að veiðum á Reykjaneshrygg 10. maí 2002.
Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi ber skipstjóri eftir 1. mgr. 6. gr. sigl-
ingalaga nr. 34/1985 meðal annars ábyrgð á því að skip hans sé „nægilega mannað.“
Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1995, ber skipstjóri
á íslensku skipi „fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi
hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.“ Nær ábyrgð skipstjóra samkvæmt
þessu ákvæði bæði til framkvæmdar laganna sjálfra og annarra laga, sem fjalla um
starfsskyldur hans, svo sem laga nr. 113/1984, laga nr. 43/1987 og siglingalaga. Ber
skipstjóri þannig eftir b. lið I. 4. gr., 6. gr. og 13. gr. laga nr. 112/1984 með áorðnum
breytingum og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 113/1984 ábyrgð á því að tilskilinn lögmæltur
fjöldi lögskráðra stýrimanna og vélstjóra með gild atvinnuréttindi séu í hverri veiði-
ferð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða
dóms er á það fallist að refsiheimildir samkvæmt 22. gr. laga nr. 112/1984 og 1.
mgr. 14. gr. laga nr. 113/1984 séu nægilega skýrar og að ákærði hafi unnið sér til
refsingar fyrir þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og eftir þeim lagaákvæðum,
sem í ákæru greinir. Verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða og sakar-
kostnað staðfest.
Í dómi Hæstaréttar 11. mars 2004, nr. 380/2003, (skotveiðar við Hvalfjörð)
voru B og S ákærðir fyrir brot á lögum nr. 64/1994 um vernd friðun og veiðar