Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 93
Þá verður og að líta til þess hver umbúnaður er um sýninguna og hversu greiða
leið dýr, sem sleppur frá stjórnandanum, á til áhorfenda, sbr. sjónarmiðin í
framangreindum dómi. Stundum er sýningardýrum eingöngu stjórnað með
bendingum eða hljóðmerkjum. Í þeim tilvikum verður umbúnaður sýningar-
innar að vera með þeim hætti að dýrin komist ekki til áhorfenda eða annað,
hætti þau að hlýða og taki á rás. Við mat á sök eiganda eða vörslumanns myndu
dómstólar væntanlega líta til þessara atriða og má enn vísa í dóminn um apann
í Sædýrasafninu því til stuðnings.
3.4 Dýr haldin eða flutt inn án leyfis
Áður hefur þess verið getið að sveitarfélögum er heimilt að áskilja að til-
tekið dýrahald sé leyfum háð í viðkomandi sveitarfélagi. Í því sambandi vaknar
sú spurning hvort dýrahald án leyfis sé eitt út af fyrir sig saknæmt þannig að
eigandi eða vörslumaður dýrs beri ábyrgð á öllu tjóni er dýrið veldur. Ef um það
væri að ræða væri ábyrgðin nánast hlutlæg og mjög vafasamt að dómstólar
myndu fallast á það án beinnar lagaheimildar. Miklu líklegra er að varsla
dýrsins og þau sjónarmið önnur, sem rakin hafa verið hér að framan, yrðu látin
ráða úrslitum, en ekki það eitt að leyfi skorti. Ekki verður séð að Hæstiréttur
hafi fjallað um þessi álitamál og er því ekki við fordæmi að styðjast.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1994 um innflutning dýra er óheimilt að
flytja hvers konar dýr til landsins. Frá þessu má víkja með leyfi og þá að upp-
fylltum ströngum skilyrðum. Eiga önnur sjónarmið að gilda um ábyrgð á tjóni,
sem ólöglega innflutt dýr valda, heldur en þau dýr, sem haldin eru án leyfis og
um var rætt hér að framan? Dómstólar myndu væntanlega líta til þess við
úrlausn bótamála um hvers konar dýr væri að ræða. Það gæti t.d. skipt máli við
sakarmatið hvort smyglað hefði verið inn í landið hundi af tegund sem er til í
landinu og leyfi hefðu verið veitt til að flytja inn, eða hvort um er að ræða teg-
und, sem ekki væri heimilt að halda, sbr. t.d. 4. gr. samþykktar um hundahald í
Reykjavík, nr. 52/2002, en samkvæmt henni er bannað að halda hunda af til-
teknum tegundum í borginni. Í fyrrgreinda tilvikinu yrði væntanlega litið til
sömu sjónarmiða og varðandi leyfislaus dýr, en í hinu síðara gæti farið svo að
það eitt yrði metið eiganda eða vörslumanni til sakar að hafa í vörslu sinni ólög-
lega innflutt dýr af tegund sem sérstaklega væri bönnuð í landinu. Sérstaklega
myndi þetta eiga við um hættuleg dýr. Í báðum tilvikum er þó til þess að líta að
smygluð dýr geta borið með sér sjúkdóma og tjón af völdum þeirra getur orðið
verulegt. Kæmi slíkt fyrir myndi varsla ólöglega innflutts dýrs, ein og sér, nægja
til að sök yrði felld á eiganda eða vörslumann vegna tjóns af völdum sjúkdóms-
ins.
4. SAMEIGINLEG ATRIÐI
4.1 Hvaða tjón á að bæta?
Algengast mun líklega vera að dýr valdi tjóni á gróðri og girðingum, þótt
93