Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 90
Þ ók bifreið sinni austur Suðurlandsveg nálægt Gljúfurárholti í Ölfusi. Skuggsýnt
var og loft skýjað. Í sama mund rak bóndinn D hóp 10-11 kinda meðfram veginum
til vesturs. Fór hann á undan en vinnumaður hans á eftir. D átti fjárhús beggja vegna
vegarins og voru hlið á girðingu báðum megin vegar. Að sögn D voru bæði hliðin
skilin eftir opin til að féð rynni þangað sem það sjálft vildi, er að þeim væri komið.
Nokkrar kindur tóku sig út úr hópnum og hlupu yfir veginn. D komst síðan fyrir þær
og hugðist reka þær til baka, en þá hlupu þær upp á veginn og í veg fyrir bifreið Þ.
Tvær drápust og bifreiðin skemmdist. Þ stefndi D til greiðslu bóta og þótti D eiga
nokkra sök á óhappinu vegna vanrækslu á að gera ráðstafanir til varna því að féð
tæki á rás inn á veginn. Þ var hins vegar ekki talinn hafa sýnt næga aðgát þar sem
hann mátti vænta þess að fé væri við veginn á þessum stað og árstíma. D var
dæmdur til að greiða Þ 1/3 hluta tjóns hans.
H 2001 3203
Ó ók að kvöldlagi upp blindhæð á þjóðvegi. Handan hæðarbrúnarinnar blöstu við
henni hross og varð folald í eigu E fyrir bifreiðinni, en S og E höfðu rekið hrossin
eftir þjóðveginum þetta kvöld. Í máli sem var höfðað á hendur H, S og E til greiðslu
á tjóni, sem varð á bifreiðinni, héldu þeir því fram að hrossin hefðu verið í lausa-
göngu, en þau hefðu sjálf farið af stað úr haga þar sem þau hefðu verið skilin eftir
meðan hlé var gert á rekstrinum. Hæstiréttur taldi að H, S og E bæru sönnunarbyrð-
ina fyrir þessari staðhæfingu sinni og að þeim hefði ekki tekist sú sönnunarfærsla.
Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. umferðarlaga hefði heimild til að reka hrossin eftir þjóð-
veginum verið háð því að nægilega margir gæslumenn fylgdu rekstrinum og að einn
gæslumaður færi fyrir, enda hefði mátt vænta umferðar ökutækja um veginn. Að
hvorugu þessu hefði verið gætt við rekstur hrossanna. Ó var ekki talin hafa sýnt af
sér gáleysi og voru H, S og E dæmdir óskipt til að greiða tjónið á bifreiðinni.
Dómarnir í H 1985 1240 og H 2001 3203 eru mjög skýrir varðandi túlkun
á framangreindu ákvæði umferðarlaga um rekstur búfjár. Af þeim verður t.d.
dregin sú ályktun að rekstrarmönnum beri alltaf að láta mann fara fyrir rekstr-
inum ef minnsti möguleiki er á umferð ökutækja um veginn. Þá má og vera ljóst
að sönnunarbyrðin varðandi það hvort um sé að ræða rekstur eða lausagöngu
hvílir rekstrarmönnunum, sbr. síðari dóminn. Af honum má draga þá ályktun að
áning breyti ekki rekstri í lausagöngu. Í áningarstað gilda fyrirmæli umferðar-
laga um rekstur og verður t.d. að sjá um að búfé sé vikið af vegi vegna umferðar
ökutækja. Það væri þó hægt að hugsa sér að rekstri lyki áður en komið væri í
áfangastað og við tæki lausaganga, eins og þar sem hlé væri gert yfir nótt á
svæði þar sem lausaganga búfjár væri leyfð og það sett á beit. Því væri síðan
smalað saman að morgni og reksturinn héldi áfram. Þá eiga rekstrarmenn að
vera nægilega margir miðað við fjöldann sem rekinn er, hvaða búfé er rekið og
á hvaða árstíma. Það verður þannig að gera ráð fyrir fleiri rekstrarmönnum
90