Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 106
fyrir að ákveðið sjónarmið eigi að hafa tiltekið vægi. Eitt skýrasta dæmið um
það er forgangsregla jafnréttislaganna. Sé slíkum ákvæðum fyrir að fara er
dæmt um hvort þeim hafi verið fylgt. Skýrt dæmi um þetta er H 1993 2230 en
dómarnir eru fleiri.
Loks meta dómstólar hvort mat hafi verið framkvæmt en í því felst tvennt:
Í fyrsta lagi er endurskoðað hvort stjórnvaldið, sem fer með ákvörðunarvaldið,
mat það sem átti að meta. Landmælingadómurinn, H 1999 4247, sem áður var
fjallað um er dæmi um þetta. Þar sagði héraðsdómari:
Enda þótt ákvörðunin hafi þannig byggst á niðurstöðu nefndarinnar, varð umhverf-
isráðherra að leggja sjálfstætt mat á niðurstöðurnar og taka ákvörðun á grundvelli
þess mats, enda kemur skýrt fram í áliti nefndarinnar að hún taldi ekki hlutverk sitt
að taka afstöðu til þess hvort rétt væri að víkja stefnanda að fullu úr embætti eða
ekki.22
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna að
þessu leyti. Í öðru lagi er endurskoðað hvort matið hafi verið neglt of mikið
niður með reglum. Í reglunni um skyldubundið mat felst að stjórnvöldum er
óheimilt að setja reglur sem afnema matið eða takmarka það óhæfilega.23 Þau
verða, sé þeim falið mat á annað borð, að meta hvert einstakt tilvik. Að sjálf-
sögðu má hafa viðmiðunarreglur til að gæta jafnræðis o.s.frv. en það eru tak-
mörk fyrir því hve langt má ganga í að takmarka matið, og þau ráðast m.a. af
því til hvers stjórnvaldinu er falið mat.
Þetta tvennt leiðir í raun af meginreglunni um lögbundna stjórnsýslu: Ef
lög kveða á um það að tiltekið stjórnvald eigi að byggja ákvörðun í tilteknum
málum á mati, þá verður það að gera það en hvorki láta það í raun í hendur
umsagnaraðila né annarra eða setja reglur sem leysa úr öllum slíkum málum í
eitt skipti fyrir öll. Dómstólar dæma um hvort þessa hafi verið gætt.
Áður en skilið er við matið má geta þess, í framhjáhlaupi, að til eru gamlir
dómar sem benda til þess að metið sé hvort mat stjórnvalda hafi verið forsvar-
anlegt.24 Í skýrslunni um Starfsskilyrði stjórnvalda er það sömuleiðis talið
vera meginregla að matið þurfi að vera forsvaranlegt.25 Ég er ekki viss um að
þetta sé praktískt úr því að dæmt er um hvort sjónarmið séu málefnaleg, hvort
tekið sé tillit til skyldubundinna sjónarmiða o.s.frv. Endurskoðun á því hvort
mat sé forsvaranlegt virðist ekki hafa miklu hlutverki að gegna undir núver-
andi kringumstæðum.26
22 H 1999 4247, bls. 4287.
23 Sjá um þetta efni t.d. Starfsskilyrði stjórnvalda, bls. 39-40.
24 Sjá Starfsskilyrði stjórnvalda, bls. 94-95.
25 Sama heimild, bls. 42.
26 Helst mætti hugsa sér að þetta skilyrði tryggi að í raun sé byggt á þeim sjónarmiðum sem
stjórnvald segist hafa byggt á – það hafi m.ö.o. hlutverki að gegna við að koma í veg fyrir að
ákvarðanir séu í raun byggðar á sjónarmiðum sem eru ómálefnaleg en sagðar byggðar á málefna-
legum sjónarmiðum sem engan veginn rökstyðja þá niðurstöðu sem stjórnvaldið hefur komist að.
106