Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 44
64/1994 væri „að þessu leyti of almennt og því ekki nægilega ótvírætt og
glöggt“.
Um þessa aðferðafræði Hæstaréttar má deila. Ljóst er að nokkur vafi var til
staðar um hvorn af ofangreindum tveimur lögskýringarkostum bar að leggja til
grundvallar við úrlausn á máli A að virtum atvikum málsins og þeim gögnum
um varp í Miðhúsaeyjum sem lágu fyrir dóminum.81 Hæstiréttur hefði átt að
fara þá leið í ofangreindu máli að skýra hugtakið lífsvæði dýra þröngri ákvarð-
andi skýringu82 í samræmi við viðurkennd lögskýringarsjónarmið í refsirétti.83
Ákvæðið ætti þannig aðeins við um þá staði þar sem örn verpir í raun. Síðan
hefði þurft að taka afstöðu til þess hvaða áhrif sú lögskýring hefði á málstað
ákæruvaldsins að virtum gögnum málsins, sbr. það sem greinir hér að framan.
Ef leggja átti mat á samræmi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 og meginreglunnar
um skýrleika refsiheimilda bar á hinn bóginn að meta hvort ákvæðið hafi veitt
venjulegum, sakhæfum einstaklingi nægjanlega og sanngjarna viðvörun um að
háttsemi hans bryti gegn ákvæðinu og eftir atvikum einnig hvort skort hafi á
hlutlægar viðmiðanir eða áþreifanlegar leiðbeiningar um inntak hinnar refsi-
næmu háttsemi þannig að leitt gæti til handahófskenndrar refsivörslu. Hugtakið
lífsvæði dýra í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 var eitt og sér tiltölulega hlutlægt
í eðli sínu og raunar ekkert sérstaklega matskennt. Þá fór löggjafinn þá leið í 1.
gr. laga nr. 64/1994 að orða sérstaka skilgreiningu um hvað teldist falla innan
hugtaksins, þ.e. „svæði sem dýr nota sér til framfærslu og viðkomu eða sem far-
leið“. Í ljósi þessa lék ekki vafi á því að viðvörunar og refsivörslusjónarmiða
meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda, eins og þeim hefur verið lýst hér að
framan, var hvors tveggja gætt með því að nota hugtakið lífsvæði dýra í 2. mgr.
6. gr., sbr. einnig 1. gr. laganna. Það er hins vegar annað mál hvort hinir almennt
orðuðu verknaðarþættir sömu málsgreinar geta valdið vandkvæðum í þessu
sambandi og þá í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í H 1997 1253 (skoteldar), sjá nú
fyrri málsl. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994, sbr. 4. gr. breytingarlaga nr.
94/2004.84
81 Nánar tiltekið má segja að enginn vafi hafi í raun verið á því að undir lífsvæði dýra félli a.m.k.
sá staður þar sem örn verpir í raun. Vafi var hins vegar á því hvort þeir staðir sem ernir kunna að
verpa á féllu þar einnig undir.
82 Um þrönga ákvarðandi skýringu við túlkun refsilaga, sjá Jónatan Þórmundsson: Afbrot og
refsiábyrgð I, bls. 237 og 240-241.
83 Segja má að þetta sé afbrigði af lögskýringarsjónarmiðinu in dubio mitius, þ.e. að vafa um heim-
færslu til refsiákvæða ber að skýra sakborningi í hag, sjá Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsi-
ábyrgð I, bls. 244 og Róbert R. Spanó: „Um tjáningarfrelsið og refsiábyrgð“. Árshátíðarrit Ora-
tors (2002), bls. 22-23. Sjá hér einnig dóm héraðsdóms í H 1995 3149 (Bjartsmál).
84 Með lögum nr. 94/2004 var gerð breyting á ákvæði fyrri málsl. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994
vegna dóms Hæstaréttar 3. apríl 2003, sbr. 4. gr. laga nr. 94/2004. Ákvæði fyrri málsl. 2. mgr. 6.
gr. laga nr. 64/1994 er nú svohljóðandi: „Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart
villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun“. Orðskýring 1. gr. á hinu nýja hug-
taki búsvæði er eftirfarandi: „svæði sem villt dýr nota sér til framfærslu og viðkomu, svo sem var-
plönd og fæðusvæði, eða sem farleið“.
44