Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 65
Í fjórða lagi verður við mat á skýrleika refsiheimilda að afmarka með næg-
janlegum hætti mörk meginreglunnar og túlkunar refsilaga. Vafi um hvort tilvik
fellur undir verknaðarlýsingu refsiákvæðis er almennt hægt að leysa með hefð-
bundnum aðferðum lögskýringarfræðinnar, s.s. með sjónarmiðinu um in dubio
mitius, sbr. umfjöllun um dóm Hæstaréttar 3. apríl 2003, nr. 449/2002, (arn-
arvarp í Miðhúsaeyjum), sjá kafla 3.3.3. Í þessu sambandi er í greininni einnig
vikið að muninum á almennum og sérgreindum óskýrleika refsiheimildar. Nið-
urstaða dóms um að refsiheimild fullnægi ekki kröfum um skýrleika refsiheim-
ilda þarf ekki ávallt að leiða til þess að niðurstaðan eigi að vera sú að refsiheim-
ildinni sé að öllu leyti vikið til hliðar, sjá kafla 3.3.7.
Í fimmta lagi verður ráðið af H 2000 280 (hlutlæg refsiábyrgð skipstjóra) að
í meginreglunni um skýrleika refsiheimilda felst krafa um að refsiheimild sem
felur í sér afbrigðilega tilhögun refsiábyrgðar, t.d. undantekningu frá þeirri
meginreglu refsiréttar að mönnum sé aðeins refsað fyrir þær athafnir sem raktar
verða til ásetnings þeirra eða gáleysi, verði að vera orðuð með skýrum hætti, sjá
kafla 3.3.6.
Í sjötta lagi verður ráðið af dómaframkvæmd að Hæstiréttur telji rétt og eðli-
legt að horfa til lögskýringargagna, einkum frumvarpa og greinargerða með
þeim, við mat á því hvort refsiheimild fullnægi kröfunni um skýrleika refsi-
heimilda. Í greininni er rökstutt að gera verði í þessu sambandi greinarmun á
hvort refsiheimild sé það almenn og óljós að hún lýsi ekki hlutlægum við-
miðum eða á skortir að af henni verði leiddar áþreifanlegar leiðbeiningar um
inntak hennar annars vegar eða hvort vafi leiki hins vegar á um hvorn eða hverja
af tveimur eða fleiri haldbærum lögskýringarkostum ber að leggja til grund-
vallar við túlkun refsiheimildarinnar. Ef um fyrra tilvikið er að ræða er ljóst að
athugasemdir í lögskýringargögnum geta vart lagfært þann stjórnskipulega ann-
marka sem er á óhóflega almennum og óljósum texta refsiheimildar sem birtist
borgurunum og refsivörsluaðilum. Athugun á lögskýringargögnum kann hins
vegar að vera nauðsynleg og réttlætanleg aðferð við mat á lögskýringarsjónar-
miðum og vægi þeirra og við val á lögskýringarleið við skýringu refsiheimildar
sem fullnægir sem slík meginreglunni um skýrleika refsiheimilda, sjá kafla
3.3.6.
Í sjöunda lagi er rakið í greininni að af dómaframkvæmd hér á landi verður
ekki önnur ályktun dregin en að kröfur um skýrleika refsiheimilda hafi til þessa
ekki þótt girða fyrir að löggjafinn setji refsiákvæði sem fela í sér vísireglur er
veita dómstólum töluvert svigrúm til þess að skilgreina og ákvarða nánar hvað
sé refsiverð háttsemi. Slík ákvæði hafi af hálfu fræðimanna verið nefnd mats-
kennd svigrúmsákvæði. Er lagt til grundvallar í greininni að við nánari af-
mörkun á því hvort matskennd svigrúmsákvæði gangi of langt í þessu efni
kunni að skipta máli hvort tiltekin ákvæði hafa hlotið umfjöllun í dómafram-
kvæmd þar sem dómstólar hafi leitast við að móta nánar inntak slíkra ákvæða.
Þannig geti þeir sem eru í vafa um hvort háttsemi þeirra falli undir matskennt
svigrúmsákvæði m.a. leitað sér ráðgjafar lögfræðings. Sem dæmi um slíka
65