Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Side 40
40
við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. ákvæði reglugerðar ráðs-
ins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála
er varðar flutninga á vegum, sbr. 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðar-
laga nr. 50/1987. Um niðurstöðu Hæstaréttar og umfjöllun um dóm þennan vís-
ast að öðru leyti til kafla 2.3 hér að framan.
Í dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004, nr. 236/2004, (vinnuvélar) var X
ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. tölulið A-liðar 3. gr. og 1. mgr. 11.
gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, sbr. 1. gr. reglna
nr. 24/1999 og 1. gr. reglna nr. 816/2000, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980
um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa stjórnað
lyftara án tilskilinna réttinda. Héraðsdómur sakfelldi samkvæmt ákæru en í
dómi Hæstaréttar sagði m.a. svo:
Í ákæru er vísað til refsiákvæðis 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980. Sú grein hefur að
geyma refsireglu sem vísar til verknaðarlýsingar í öðrum ákvæðum laganna eða
reglugerðum samkvæmt þeim. Í lögunum er hvergi að finna efnisreglur sem fjalla um
verknaðarlýsingu á því broti, sem ákærði er sakaður um í málinu. Hafa þau því ekki
að geyma sérstaka heimild til að refsa ákærða fyrir brotið. Reglur nr. 198/1983 með
breytingum samkvæmt reglum nr. 24/1999, voru sem fyrr segir settar með heimild í
3. mgr. 49. gr. laganna eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með lögum nr.
68/2003. Í reglum þessum var heldur ekki að finna lýsingu á slíkri refsiverðri hátt-
semi. Gátu þær því ekki heldur orðið viðhlítandi refsiheimild fyrir ætluðu broti
ákærða. Það var fyrst með 1. gr. reglna nr. 816/2000, sem kveðið var á um að þeir
einir mættu stjórna vinnuvélum sem til þess hefðu réttindi. Líta verður svo á að þær
reglur hafi, svo sem lagaheimildin stóð til, verið settar af stjórn vinnueftirlitsins og
staðfestar af félagsmálaráðherra. Brot gegn því ákvæði gat þá orðið refsivert sam-
kvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna.
Hæstiréttur sýknaði hins vegar ákærða X á þeim grundvelli að reglur nr.
816/2000 hefðu verið settar af stjórn Vinnueftirlits ríkisins en löggjafinn hefði
ekki getað framselt stofnuninni það vald að ákveða hvaða háttsemi skyldi varða
refsingu. Þá varð staðfestingu ráðherra á reglum vinnueftirlitsins ekki heldur
jafnað til þess að hann setti þær sjálfur. Samkvæmt þessu skorti viðhlítandi
lagastoð fyrir því að ákærði hefði unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem
honum var gefin að sök í ákæru, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.
3.3 Ályktanir af dómaframkvæmd og viðhorfum fræðimanna
3.3.1 Inngangur
Eins og ráðið verður af lýsingu á dómaframkvæmd í kafla 3.2.2 hér að
framan hafa dómstólar til þessa ekki sett fram almenn sjónarmið um þann mæli-
kvarða eða þau viðmið sem þeir byggja á við mat á hvort refsiheimild
samrýmist meginreglunni um skýrleika refsiheimilda. Inntak og gildissvið meg-
inreglunnar í íslenskum rétti er því enn sem komið er nokkuð óljóst. Í köflum