Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Qupperneq 97
Dýr geta verið misverðmæt, bæði í huga eigandans eða almennt, eins og
þegar um viðurkennd kynbótadýr er að ræða. Velta má fyrir sér hvort varsla
slíkra dýra verði að vera í samræmi við verðmætið eða tilfinningar eigandans til
að bætur fengjust fyrir tjón á dýrinu af völdum annars dýrs eða hvort það sé
áhættutaka af manni sem á verðmætt dýr að hafa það ekki í vörslu sem sam-
ræmist hugmyndum hans um verðmætið. Sem dæmi má nefna mann sem á
verðlaunatík og gætir þess ekki að hafa hana í góðri vörslu meðan hún er á lóð-
aríi og hún fær fang við venjulegum hundi. Í dæminu er við það miðað að hund-
ana hafi borið að hafa í vörslu, tíkin hafi verið tjóðruð inni í garði, en hundur-
inn sloppið frá eiganda sínum. Tíkareigandinn tekur áhættu með því að hafa
ekki betri vörslu á tíkinni meðan hún er á lóðaríi og yrði líklega af bótum þótt
um saknæmt atferli væri að ræða af hálfu eiganda hundsins, sbr. H 1990 293.
4.3 Fleiri en einn bótaskyldir
Þegar fleiri en einn eru bótaskyldir vegna sama tjóns er aðalreglan sú að þeir
bera óskipta (öðru nafni sameiginlega eða solidariska) ábyrgð gagnvart tjón-
þola.16
Þegar dýr fleiri eigenda valda tjóni sameiginlega, t.d. fjárhópur gengur í tún
eða hross naga bifreið og bótaskylda er til staðar, yrði framangreindri megin-
reglu beitt svo fremi að ekki væri hægt að greina á milli hvaða dýr ullu tjóninu.
Vel væri hægt að hugsa sér að aðeins eitt hross hefði nagað bifreiðina þótt þau
væru fleiri saman. Tækist að sanna það væri eigandi þess einn ábyrgur. Þetta
væri hins vegar, eðli málsins samkvæmt, útilokað ef um tjón á gróðri væri að
ræða. Í þeim tilvikum yrði alltaf um óskipta ábyrgð að ræða þótt tjónvaldar
gætu síðan skipt bótagreiðslunni sín á milli, t.d. í hlutfalli við fjárfjölda hvers
og eins.
5. LOKAORÐ
Samkvæmt íslenskum rétti fer um ábyrgð á tjóni af völdum dýra nær alfarið
eftir almennu skaðabótareglunni. Þær hlutlægu bótareglur, sem í gildi eru, eru
þess eðlis að afar ólíklegt er að þeim yrði beitt nú á dögum. Hugsanlega má þó
undanskilja reglu 22. gr. Réttarbótarinnar frá 1294 um ábyrgð á hrútum og
höfrum. Hlutlægar bótareglur í samþykktum um búfjár- og gæludýrahald hafa
ekkert gildi enda skortir þær lagastoð. Í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eru
reglur um vörslu dýra og hvernig mönnum beri að haga meðferð þeirra. Við
sakarmat líta dómstólar mjög til þess hvort farið hafi verið eftir þessum fyrir-
mælum. Af dómum Hæstaréttar má draga þá ályktun að sakarmatið sé strangt í
garð eigenda og vörslumanna dýra. Það er þeirra að sanna að varsla dýranna,
eða meðferð að öðru leyti, hafi verið í samræmi við lög og reglur.®
97
16 Sbr. Arnljótur Björnsson: tilvitnað rit bls. 119.