Bændablaðið - 04.04.2023, Page 29

Bændablaðið - 04.04.2023, Page 29
29Bændablaðið | Þriðjudagur 4. apríl 2023 Hvað er : Glúten? Glúten er prótein sem er að finna í kornvörum, eins og hveiti, byggi, rúgi og flestum höfrum. Glúten er límið sem heldur brauði saman og veldur meltingartruflunum hjá einstaklingum með glútenóþol. Þar sem áðurnefndar kornvörur eru notaðar í fjölmörg matvæli, leynist glúten í mjög mörgum vörum. Hveiti er algengasta kornvaran sem inniheldur glúten og er brauð ein helsta birtingarmynd þess. Hveiti er einnig að finna í pasta, núðlum, morgunkorni, súpum, sósum, snakki, kjötbollum, fiskibollum og fleira. Enn fremur er afar algengt að hveiti sé innihaldsefni í nammi, eins og hlaupi og lakkrís. Eitt aðalinnihaldsefni hefðbundinnar sojasósu er hveiti. Þar sem hveiti er gagnlegt og aðgengilegt efni við framleiðslu þarf fólk með glútenóþol að skoða innihaldslýsingar flestra unninna matvæla. Ofnæmis- og óþolsvaldar eiga að vera feitletraðir á merkingum sem gerir fljótlegra að sjá þá. Bygg eitt og sér er notað í grauta og matagerð. Það finnst einnig oft í morgunkorni eins og Corn Flakes og Rice Crispies. Enn fremur er byggmaltþykkni innihaldsefni sem gjarnan er notað í konfekt og nammi. Bygg er eitt aðalinnihaldsefni bjórs og malts og þurfa einstaklingar með glútenóþol að forðast þessa drykki. Því gruggugri sem bjórinn er því líklegra er að hann innihaldi meira glúten. Þar sem sum brugghús sækjast eftir að hafa sína bjóra tæra eru þær aðferðir sem þau nota oft að skila sér í glútenlausum bjór. Þar má annars vegar nefna notkun ensíma sem bætt er út í bjórinn þegar hann gerjast og er auðvelt að nota við heimabrugg. Stærri brugghús nota hins vegar skilvindu sem hreinsar burt gruggið – og þar með glútenið. Úrval glútenfrís bjórs hefur aukist undanfarin ár og hefur Bændablaðið heimildir fyrir því að ákveðin brugghús taki ekki fram á mörgum bjórum að þeir séu glútenlausir, þó þeir séu í raun búnir að fá sömu meðferð og bjórar sem markaðssettir eru sem slíkir. Viskí er bruggað úr möltuðu byggi, en við eiminguna hverfur allt glútenið. Í upphafi var nefnt að flestir hafrar innihéldu glúten, en þessi planta framleiðir ekki glúten af náttúrunnar hendi. Ræktun á höfrum á sér hins vegar stað í miklu návígi við ræktun á hveiti, byggi og rúgi, og er gjarnan notaður sami tækjabúnaður við þreskingu og vinnslu. Krosssmit er því mikið og má gera ráð fyrir að hafrar innihaldi glúten nema annað sé tekið fram. Hafra má helst finna í hafragraut, morgunkorni, brauði, kexi, ásamt lifrar- og blóðpylsum. Rúgur er líklegast óalgengasta korn- tegundin af þeim sem nefndar eru hér að ofan. Þó er hægt að finna hann í matvörum eins og rúgbrauði, brauði, lifrarpylsum og fleira. Þegar viskí er bruggað úr rúgi, verður glútenið eftir við eiminguna, rétt eins og með bygg. Algengt er að fólk rugli saman glúteni og sterkju, en þetta er sitt hvor hluturinn. Glúten er ekki að finna í matvælum eins og kartöflum, hrísgrjónum og maís. Maíssterkja kemur sér vel í staðinn fyrir hveiti þegar þykkja á sósu. Úrval glútenlausra matvæla eykst með hverju ári, en í flestum matvöruverslunum finnst glúten- laust brauð, pasta, kex o.fl. Ekki verður farið út í skilgreiningu á glútenóþoli, en engin lækning er til við þessum sjúkdómi og verður því ákveðinn hópur fólks að sneiða hjá glúteni allt sitt líf til að forðast veikindi. Rétt er að benda á að glútenóþol er ekki það sama og laktósaóþol eða vegan. /ÁL Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að nýtt íþróttahús verði byggt í sveitarfélaginu. Núverandi íþróttamiðstöð, Heiðarborg, var byggt árið 1968 og er tæpir 530 fm auk 257 fm sundlaugarhúss. Nýja húsnæðið verður fjölnota íþróttahús ásamt stoðrýmum, s.s. búningsklefum og annarri aðstöðu, við Heiðarborg. Húsið verður með keppnissal, löglegum körfuboltavelli, blak- og badmintonvöllum auk þess sem unnt verður að spila hand- og fótbolta þar ásamt fjölda annarra íþrótta. Í húsinu verða áhorfendabekkir, skiptitjald, kaðlabrautir og keppnisklukka. Umgjörð hússins og salurinn er jafnframt hannaður til viðburða og veisluhalda. „Með ört stækkandi samfélagi er kominn tími á byggingu stærra íþróttahúss sem tekið getur á móti fjölbreyttara íþrótta- og tómstundastarfi, auk þess að standast kröfur samtímans hvað varðar alla aðstöðu og aðbúnað. Nýja húsið verður 1.834 fm að stærð og byggt við núverandi íþróttamiðstöð sem er staðsett við grunnskólann Heiðarskóla við Leirá,“ segir Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar. Linda segir að útboð vegna hússins verði fljótlega auglýst. Framkvæmdir muni hefjast fljótlega eftir undirritun verksamnings og verklok eru áætluð 1. ágúst 2024. „Nýja húsið verður eins og gefur að skilja bylting, ekki bara fyrir íþróttakennslu skólans heldur einnig alla möguleika til aukins íþrótta- og tómstundastarfs í sveitarfélaginu enda um að ræða 1.050 fermetra stækkun frá núverandi íþróttahúsi og sundlaug. Stækkun íþróttasalarins eru 737 fermetrar frá núverandi sal þannig að aðstöðumunurinn verður mikill. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að fá nýtt og vel útfært mannvirki sem mun nýtast vel og uppfylla þarfir sveitarfélagsins og íbúa þess til næstu áratuga, hvort sem er fyrir skóla-, íþrótta-, tómstunda-, félags- eða samkomustarf. Vonandi munu sem flestir nýta sér aðstöðuna þegar til kemur, hvort sem það eru íbúar, gestir, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir sem á þurfa að halda,“ bætir Linda við. Heildarkostnaður við nýja húsið er áætlaður 1,2 milljarðar króna og er þá innifalin jarðvinna, ytri og innri frágangur, lóðagerð og búnaður. /mhh Byggja nýtt íþróttahús í Hvalfjarðarsveit

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.