Skírnir - 01.09.2008, Blaðsíða 120
394
INGUNN ÁSDÍSARDÓTTIR
SKÍRNIR
skipsgröf þar sem mjög háttsett kona, líklega drottning, var greftr-
uð í 22 metra löngu skipi ásamt annarri konu sem gæti hafa verið
þjónusta hennar. Gröf þessi og allur umbúnaður í henni er svo
mikilfengleg að jafnvel þekktar konungagrafir sem fundist hafa á
Norðurlöndum standast ekki samjöfnuð við hana. í gröfinni var
fjöldi gripa sem taldir eru hafa haft trúarlega merkingu; má þar
nefna vagn með 9 útskornum kattamyndum, ýmis verkfæri tengd
spuna og hörrækt, vefstóla, stafi/veli, lampa, handofna refla auk
beina af 15 hrossum, og 4 hundum. Nokkurt samræmi virðist vera
á milli gripanna í gröfinni og myndanna á reflunum sem þar fund-
ust og virðist þar vera um að ræða einhverskonar trúarlegar skrúð-
göngur. Ingstad telur óyggjandi að „Ásubergsdrottningin ... hafi
verið jarðneskur fulltrúi og holdgervingur Freyju" og að „tilgang-
urinn hafi verið að sýna hinar ýmsu hliðar og áhrifasvið þessarar
miklu gyðju á myndvefnum (Ingstad 1992:254 og 248). Undir
þetta tekur breski fornfræðingurinn Hilda Ellis Davidson og segir
að í gröfinni megi sjá fjöldann allan af táknum „sem hæfa Freyju
sem frjósemisgyðju" (Davidson 1998:167).
Því ræði ég hér svo mjög um Ásubergsgröfina að ég tel hana
geta gefið okkur nokkrar vísbendingar um átrúnað á Freyju meðal
landnámsmanna hér á landi.
Allstór hluti þeirra karlmanna sem hér námu land munu hafa
verið upprunnir frá vestur- og suðurhluta Noregs. Flestir þeirra
munu einnig hafa verið heldur vel megandi, þokkalega gildir bænd-
ur, höfðingjar og/eða höfðingjasynir sem höfðu yfir að ráða
skipum og bústofni (Jakob Benediktsson 1974:160-162, Jón Jó-
hannesson 1956:38-43, Vésteinn Ólason 1998:22). Þeir fluttust
hingað með konur sínar, börn og oft þræla, í sumum tilfellum
jafnvel hálfu eða heilu ættbogarnir, bræður, frændur eða langfeðg-
ar með allt sitt lið. Þó að kristnar hugmyndir hafi verið farnar að
skjóta nokkrum rótum í Skandinavíu virðist obbinn af landnáms-
mönnum hafa verið heiðnir eins og fyrr sagði.
Eitt þeirra atriða sem ber þessu vitni eru örnefni. Örnefni sem
vísa til Þórs hér á landi eru a.m.k. 25, Freysörnefni þrjú, Njörður
og Baldur eiga tvö hvor, Óðinn ekkert. Örnefni með viðskeytinu
-hof eru á fimmta tuginn (46-48). En síðan höfum við heil 19 ör-