Skírnir - 01.09.2008, Blaðsíða 165
SKÍRNIR
HVIKULL ER DRAUMURINN ...
439
1
Forsöguna að þessum skáldmælta systkinahópi má sjá í
frásögnum Halldóru um forfeður hennar og formæður í bókinni
Jörð íálögum. Eitt af því sem einkennir þessi systkini er sterk tengsl
þeirra við forna hætti, einkanlega átti þetta við um Sveinbjörn af
því hann rækti það meðvitað. Þessa forneskju má að einhverju
leyti rekja til afa þeirra, Einars Ólafssonar, en hann fæddist árið
1800, eða snemma árs 1801, og var því 73 ára þegar hann og seinni
kona hans, Sigríður, eignuðust yngsta barn sitt, Beintein, föður
þeirra systkina. Ekki er ólíklegt að þessi mikli aldursmunur hafi
tengt systkinin meira við eldri tíma en almennt gerðist með jafn-
aldra þeirra.
Halldóra segir um ömmu sína, Sigríði Helgadóttur, sem var
þrjátíu og þrem árum yngri en Einar maður hennar, að hún hafi
skorið sig úr á sinni tíð því hún hafði jafnan börn sín á brjósti og
stundum fleiri börn en sín eigin. Þetta var á þeim tíma þegar brjósta-
gjöf heyrði til undantekninga og má velta því fyrir sér hvort hér
hafi verið um forneskju að ræða eða hvort hún hafi verið langt á
undan sínum tíma. En eins og vitað er leiddi það til stóraukins
ungbarnadauða hér á landi að gefa ekki börnum brjóstamjólk.3
Einar Ólafsson frá Litla-Botni í Hvalfirði, sem áður er nefnd-
ur, var talinn merkismaður á sinni tíð. Um hann segir hún:
Einar var skyggn og sá bæði í jörðu og á margt, sem aðrir sáu ekki... Ekki
þurfti hann neinn að spyrja, hvort huldufólk væri til. Svo margt talaði
hann við þá þjóð, að sagt er, að fyrri konu hans hafi oft þótt nóg um og
fundizt hann hafa nokkuð mikla hylli þeirra kvenna, sem öðrum voru
ósýnilegar.
Það var allt morandi í huldufólki í Litla-Botni á dögum Einars... Ef
Einar brá óskyggnu fólki undir hönd sér, sá það og heyrði það, sem hann
sá, og fékk þannig vitneskju um það, en ekki að hann hefði þetta mikið á
orði. En þetta var honum eins eðlilegt og raunverulegt og það mennska
fólk, sem hann umgekkst daglega.4
3 Halldóra B. Björnsson 1969:97-98.
4 Sama rit:72.