Skírnir - 01.09.2008, Blaðsíða 232
506
GUNNÞÓRUNN GUÐMUNDSDÓTTIR
SKÍRNIR
sífellt verði til ný hugtök sem eiga að ná betur utan um þessa tegund eða
undirtegundir hennar: ,autography‘, ,autofiction‘, ,skáldævisaga‘, ,auto-
biografictions' og svo mætti lengi telja. James Olney, einn af þeim sem
ruddi brautina í þessum fræðum með bók sinni Metaphors of Self (1972),
segir í annarri bók sem hann skrifaði 25 árum síðar, Memory and Narra-
tive (1998), að orðið ,periautobiography‘ höfði nú einna mest til sín, og
mætti skilgreina sem „skrif um og í kringum sjálfið“ (bls. xv), einmitt
vegna þess hve vítt það sé og laust við stíf mörk og mæri. Kannski hæfir
sá titill vel bók Hrafns ef við finnum okkur knúin til nánari flokkunar.
Ég spurði hér í upphafi hvort hægt væri að sjá tengsl þessara verka við
höfundarverkin í heild. Ég held að það sé augljóslega hægt að sjá sterka
samsvörun við persónusköpun og stíl í Bíbí og öðrum verkum Vigdísar.
Þá er margt í tíðarandalýsingum Péturs í mjög kunnuglegum tóni, naívi
áhorfandinn er þarna mættur sem lesendur þekkja til dæmis úr bóka-
röðinni Skáldsaga íslands. Þessi tengsl verða hins vegar flóknari þegar við
lítum til sjálfsævisögulegu verkanna, bæði er það að hér eru á ferð ljóð-
skáld, sem hafa vissulega fengist að einhverju leyti við prósa, Ingibjörg
t.d. í þýðingunum sínum og Sigurður í leikritunum, en eru hér á mjög
ólíkum bókmenntaslóðum ef svo má segja. Auðvitað má finna efnislegar
tengingar við sjálfsævisöguleg ljóð og þess háttar þætti — en tengslunum
er engu að síður öðruvísi háttað en hjá skáldsagnahöfundunum fyrr-
nefndu.
Þá er það erfiðari spurningin: Eru gerðar hér einhverjar tilraunir til að
tengja skáldskap og æviskrif? Ég held ég verði að svara því neitandi, eða
öllu heldur á þann veg, ekki umfram það sem venjulega er — æviskrif eru
nefnilega ekki jafn langt frá skáldskap og sumir vilja vera láta. Það eru
ekki neinar róttækar tilraunir í þá átt í verkunum, en auðvitað er augljóst
að hér eru æfðir pennar á ferð, það er enginn viðvaningsbragur á verkun-
um, þótt þetta séu fyrstu verk þeirra af þessu tagi — flest hafa þau náð að
tileinka sér formið án nokkurra vandræða.
En hér er enn ekki allt upp talið af æviskrifum sem komu út fyrir
síðustu jól. Skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Rimlar hugans, var til
dæmis tilraun til að setja sjálf höfundarins á svið inni í skáldsögu. Hann
speglar sjálfan sig og reynslu sína í sögu aðalpersónanna, sýnir okkur
hvernig hann heldur utan um alla þræði sögunnar og vill ýta undir þá til-
finningu að saga þeirra sé saga hans sjálfs. Friðrik G. Olgeirsson skrifaði
ævisögu Davíðs Stefánssonar,2 og Elísabet Jökulsdóttir skrifaði sjálfs-
2 Sjá ritdóm minn um það verk í Sögu 2008 (46:1).