Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 41

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 41
3. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 39 „Til að byrja með koma konur á námskeið til okkar og þá sjáum við hverjar þurfa enn frekari aðstoð,“ segir Sólrún. Það verður ekki hægt að panta beint í einstaklingsviðtal en konur geta bókað sig á námskeið og bætir Erla Gerður við að það sé mikilvægt fyrir konur að vita hvaða meðferðir eru í boði þannig að þær geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaða meðferð hentar þeim. „Til þess að geta sinnt sem flestum og ná til flestra hentar best að nota fræðslu á netinu, sem er aðgengileg og fyrir suma er það nóg.“ Betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu Samkvæmt Sólrúnu hefur skort ýmislegt í tengslum við þjónustu kvenna á breytingaskeiðinu: „Bæði í mínum rannsóknum og Steinunnar kemur í ljós að það sem vantar er dýpt og nánd.“ Hóptímarnir geta mögulega svalað þeirri þörf; þar hitta konur aðrar konur sem eru á sama stað og þær og fá fræðslu um sín einkenni. Til að byrja með verða staðnámskeið en þær sjá fyrir sér að í framtíðinni verði hægt að nálgast fræðsluna á netinu. Þannig sé hægt að ná til sem flestra. „Við viljum efla fólk til að hjálpa sér sjálft,“ segir Erla Gerður. Þannig verður þjónustan opnari og aðgengilegri. Treysta sér skyndilega ekki í vinnuna Kulnun og þunglyndiseinkenni geta verið einkenni hormónabreytinga en þessi einkenni eru ekki alltaf tengd breytingaskeiðinu. Nefnir Erla Gerður í því samhengi dæmi um konu sem skyndilega treystir sér Viðtal ekki í vinnuna sem hún hefur verið í í 20 ár. Það getur verið hluti af breytingaskeiðinu og hormónameðferð gæti mögulega dregið úr þessum einkennum. Þá geti líka verið mikilvægt að fjölskylda konunnar sé meðvituð um einkenni og líðan og sýni skilning. Aðspurðar hvort það vanti almenna umræðu og meðvitund í samfélaginu um þessi mál svarar Erla Gerður: „Fyrir ári síðan hefði svarið alveg verið já, hiklaust. Hins vegar hefur svo margt gerst á þessu ári. Umræðan er farin að verða svo miklu meiri og opnari.“ Getnaðarvarnarráðgjöf Hluti af þjónustu kvenheilsuteymisins verður í formi getnaðarvarnarráðgjafar. Samkvæmt Erlu Gerði er mjög gott aðgengi að getnaðarvörnum og fræðslu fyrir þá sem eru heilbrigðir og verður sú grunnþjónusta enn til staðar. Ef hins vegar koma upp vandamál, t.d. þegar kona þolir illa pilluna eða er í aukinni áhættu á að fá blóðtappa og þörf er á ítarlegri ráðgjöf þá væri sú ráðgjöf mögulega í höndum teymisins. „Þjónustan er sértæk að því leyti að áhersla er lögð á þá sjúkdóma sem eingöngu konur geta fengið.“

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.