Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 65

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 65
3. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 63 Vinnuhópar Ari Brynjólfsson, kynningarstjóri Fíh, fór yfir það hvernig hægt er að snúa umræðu í fjölmiðlum okkur í hag. Kynnti hann nýja þjónustu sem Fíh býður upp á, fjölmiðlaþjálfun fyrir hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á að koma fram í fjölmiðlum sem og aðstoð við greinaskrif. Þeir sem óska eftir einstaklingsmiðaðri fjölmiðlaþjálfun eða aðstoð er bent á að hafa samband við Ara. Eftir vel heppnaða samveru yfir kvöldmat og skemmtun, hófst seinni dagur ráðstefnunnar með erindi Önnu Steinsen frá KVAN sem fór yfir það með hvaða hætti hægt er að tileinka sér jákvæð samskipti. Það var sannkölluð gleðistund og gott að hefja daginn með virkar hláturtaugar. Fyrir hádegi var unnið að fjórum viðfangsefnum og trúnaðarmenn röðuðu sér í vinnuhópana. Viðfangsefni morgunsins voru tvær bókanir í gildandi miðlunartillögu, annars vegar um veikindarétt og hins vegar um faglegan stuðning í starfi, mönnunarviðmið í hjúkrun og sí- og endurmenntun. Þar stóð upp úr hversu brýnt trúnaðarmönnum hjúkrunarfræðinga finnst skorta faglegan stuðning í starfi og að sett séu mönnunarviðmið. Það var samhljómur um að faglegur stuðningur ætti að vera partur af störfum hjúkrunarfræðinga og að það eigi að hvíla skylda á vinnuveitanda að veita slíkan stuðning, mönnunarviðmið muni jafnframt tryggja öryggi skjólstæðinga og hafa jákvæð áhrif í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Eftir góðan hádegisverð var aftur hafist handa við ný viðfangsefni. Viðfangsefnin voru starfsumhverfi hjúkrunarfræðinema, samsetning launa, starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og vinna við að skoða, ef til þess kemur, verkfall og verkfallsaðgerðir. Mikill áhugi var fyrir starfsumhverfi hjúkrunarfræðinema sem og nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga og þar eru fjölmörg tækifæri til úrbóta til að styðja betur við þann hóp sem og að auka starfánægju hans. Kröfugerð Deginum lauk svo með því að vinnuhópar unnu saman brýnustu kröfur til kjarasamninga og var þar um algeran samhljóm að ræða. Í fyrsta lagi er skýr og klár krafa um hækkun grunnlauna hjúkrunarfræðinga sem allir settu í forgrunn, þar á eftir var það að stytting vinnuviku bæði í dag- og vaktavinnu verði fest í sessi og vinnuskylda minnkuð í 36 klst. í dagvinnu og 32 klst. í vaktavinnu. Þar á eftir álitu allir hóparnir það brýnt og mikilvægt að sett séu og innleidd mönnunarviðmið í störfum hjúkrunarfræðinga. Kjararáðstefna Ekki er hægt að segja annað en að þetta hafi verið virkilega vel heppnuð kjararáðstefna, trúnaðarmenn voru þarna sem talsmenn síns hóps hjúkrunarfræðinga, þeir voru fullir af eldmóði, áhuga, lausnum og með sterka samhljóma rödd. Það gefur góðan tón inn í komandi samninga og var góð byrjun á samningaferlinu. Afraksturinn mun nýtast vel við undirbúning og í kröfugerð Fíh vegna komandi kjarasamninga.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.