Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 80

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 80
78 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 98. árg. 2022 Um er að ræða framskyggna ferilrannsókn (e.prospective cohort study) sem var ætlað að varpa nánara ljósi á líðan foreldra sem átt hafa barn á gjörgæsludeildum Landspítala. Um megindlega rannsókn var að ræða með framskyggnu rannsóknarsniði. Framkvæmd rannsóknar fólst í því að þeir foreldrar sem lögðust með barnið sitt inn á gjörgæsludeildir Landspítalans á framkvæmdartímabili rannsóknar urðu að þátttakendum með samþykki sínu. Gagnasöfnun fór fram á árunum 2017-2019. Unnið var úr gögnum í gegnum tölfræðiforritið Statistical Package for Social Sciences (SPSS®) útgáfu 24,0 (IBM, Armonk, NY, USA). Notast var við ályktunartölfræði. Tengsl voru skoðuð með Kí- kvaðratprófi og fylgnistuðull Pearsons sagði til um marktækni niðurstaðna og hvort um tengsl væri að ræða. Ógild svör töldust ekki til útreikninga. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru skrifaðar út á formi lýsandi tölfræði (Polit og Beck, 2017). Rannsóknin var samþykkt af siðanefnd Landspítala (nr.40/2016), framkvæmdarstjóra lækninga á Landspítalanum, stjórnendum og yfirlæknum gjörgæsludeildanna í Fossvogi (E6) og Hringbraut (12B). Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar. Þátttakendur Þýði rannsóknar eru foreldrar barna sem höfðu legið í tvo sólarhringa á gjörgæsludeildum Landspítala. Í úrtak voru valdir allir foreldrar sem uppfylltu þau skilyrði að barnið þeirra hefði legið á gjörgæsludeildum Landspítala í að minnsta kosti 48 klukkustundir á tímabilinu 2017-2019 og gátu svarað spurningalistum á íslensku. Einnig máttu foreldrar ekki hafa tekið þátt í forrannsókn til dæmis ef um endurinnlögn barns var að ræða. Framkvæmd Þegar barn lagðist inn á gjörgæsludeildir Landspítalans og barnið ásamt foreldrum þess uppfylltu þátttökuskilyrði fyrir rannsókn hitti rannsakandi þátttakendur á meðan á gjörgæslulegu stóð og kynnti þeim rannsóknina. Rúmum sex vikum eftir útskrift barns af gjörgæsludeild hringdi rannsakandi í foreldra og kynnti þeim rannsóknina betur, leyfi var fengið til að senda þeim hefti með þremur spurningalistum í bréfpósti. Fullsvöruðum spurningalistum sendu foreldrar til baka með bréfpósti með forfrímerktum umslögum. Foreldrum sem tóku þátt í verkefninu var boðin stuðningur hjá Bryndísi Lóu Jóhannsdóttur, sálfræðingi. Greint var frá þjónustu hennar í bréfi til foreldra sem fylgdi spurningalistunum. Mælitæki Bakgrunnur foreldra og mat á alvarleika veikinda barna (PRISM): Foreldrar voru spurðir um kyn, aldur, hjúskaparstöðu, fjölda barna á heimili, hæstu loknu prófgráðu, atvinnuþátttöku og áætlaðar heildartekjur heimilis. Einnig voru skráðar upplýsingar um börn þeirra úr sjúkraskrám, aldur, lengd legu og alvarleiki veikindanna metinn með PRISM-gildi innlagnar (Pediatric Risk of Death). PRISM-gildið metur hversu alvarlega veik börnin eru og þannig hættu á andláti. Notast var við þriðju útgáfu, PRISM- III, sem metur alvarleika veikinda barns út frá lífsmörkum: AÐFERÐ Áhrif gjörgæslulegu barns á líðan foreldra blóðþrýsting, púls, hita, meðvitundarstigi og eftirfarandi blóðgildum: sýrustigi í blóði (pH), koldíoxíði (PCO2), súrefni (PO2), blóðsykursgildi, kalíum, úrea, kreatíni, hvítum blóðkornum og blóðflögum ásamt blæðingar- og lifrarprófum (Pollack o.fl., 2016; Pollack, Patel og Ruttimann, 1996). Stig eru gefin þegar gildin eru utan viðmiða og því lengra sem gildi eru frá viðmiðum því hærri stig fást. Eftir því sem stigin eru fleiri því alvarlegri eru veikindin og auknar líkur eru á andláti (Pollack o.fl., 2016; Pollack o.fl., 1996). Á Landspítalanum eru ekki skráð heildarkoldíoxíð sem er eitt atriði innan PRISM-III. Ákveðið var að gefa núll stig fyrir það í stigagjöf barnanna, því getur skráð gildi verið nokkuð vanreiknað. Mat á álagsupplifun foreldra barna af gjörgæsludeild (PSS:PICU): PSS:PICU (Parental stressor scale: Pediatric intensive care unit) er algengasti spurningalistinn sem notaður er í alþjóðlegum rannsóknum á álagi foreldra sem nýlega hafa átt barn á gjörgæsludeild og hefur verið þýddur á fjölda tungumála (Rodríguez-Rey og Alonso-Tapia, 2016). Hann er hér notaður í íslenskri þýðingu og hefur verið áreiðanleikaprófaður á gjörgæsludeildum hér á landi (Aðalbjörg Ellertsdóttir o.fl, 2018; Aðalbjörg Ellertsdóttir og Þorbjörg Anna Steinarsdóttir, 2017). Spurningalistinn inniheldur 37 spurningar undir sjö álagsflokkum innan gjörgæsludeildarinnar. Flokkarnir sjö (með undirþáttum) eru: hljóð og sýn (sjá hjartslátt á sírita, hljóð frá tækjum, skyndileg hljóð frá sírita), útlit barns (þrútið, virðist vera kalt, litabreytingar), hegðun og líðan barns (uppnám, mótþróafullt, grætur, verkjahegðun, krefjandi, eirðarleysi, geta ekki tjáð sig, ótti, reiði, dapurleiki), aðgerðir (sprautugjöf, slöngur tengdar, sogun (í vit og túbur), uppsetning íhluta, banka barn, sjáanleg meiðsli), samskipti við starfsfólk (orðaforði, tala of hratt, misvísandi upplýsingar, upplýsingaskortur), hegðun starfsfólks (grínast, mismunandi fólk, tjá ekki nafn og starfsstétt, upplýsingaskortur) og breytt foreldrahlutverk (geta ekki sinnt barni sjálfur, huggað og haldið á því eða séð barnið þegar ég vil, heimsóknartími takmarkaður, almenn álagsupplifun af gjörgæslu). Svarmöguleikarnir eru frá því að upplifa ekki atburðinn upp í að atburðurinn sé mjög álagsvaldandi (Carter o.fl., 1985). Mat á vanlíðan foreldra barna sem legið hafa á gjörgæsludeild (SCL-90): Til að meta vanlíðan foreldra var notaður SCL-90 (Symptoms checklist) eftir Derogatis, Lipman og Covi (1973) sem meðal annars metur líkamlega og geðræna líðan einstaklings. Listinn fer yfir ýmis einkenni sem einstaklingar geta upplifað sem viðbrögð við álagsvaldandi reynslu. Listinn í fullri lengd inniheldur 90 spurningar þar sem þátttakandi velur stig eftir því hvort og þá hversu mikið tiltekið atriði truflaði hann, frá 1 (hefur ekki orðið var við einkenni) upp í 5 (hefur orðið mjög mikið var við einkennið), vikuna á undan þeim degi sem spurningalistanum var svarað. Atriðum listans er skipt í níu flokka og hver þeirra á sitt safn spurninga er snúa að einkennum (Board og Ryan-Wenger, 2002). Í þessari rannsókn voru notuð fjögur söfn sem styðjast við 42 spurningar um líkamlega vanlíðan, kvíða, þunglyndi og reiði/ árásargirni. Mest var hægt að fá 210 stig úr þessum flokkum samanlagt þar sem í líkamlegri vanlíðan var mest hægt að fá 60 stig, 45 stig í kvíða, 80 stig í þunglyndi og 25 stig í flokknum reiði. Með því að notast við þessa 42. spurninga útgáfu af listanum var hægt að bera saman niðurstöður þessarar rannsóknar við landskönnun Rúnars Vilhjálmssonar (2015) á landsúrtaki íslenskra foreldra.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.