Goðasteinn - 01.06.1977, Blaðsíða 52
í vinahópinn, en þá hittum við Ingibjörgu Scheving, sem komin var
alla leið frá Seattle til að baka kleinur og vínartertur til að færa
gestum og gangandi og kynna þann veg einn þáttinn í íslenskum
matarvenjum. Foreldrar Ingibjargar eða Emmu eins og samborgarar
hennar nefna hana, voru Valdimar Gíslason frá Akri í Húnavatns-
sýlu og Ernstina Nicoline Skog- Hún var 8 ára,- þegar faðir hennar
dó, og ólst síðan upp hjá Sigurlaugu Rögnvaldsdóttur frá Marbæli
í Skagafirði. Ignibjörg er víst jafngömul öldinni, en ber það engan
veginn með sér í útliti eða athöfn. Hún giftist Árna Scheving ættuð-
um af Austurlandi. Er hann fyrir nokkru dáinn.
Þriðjudaginn 22. júní unnum við Kristinn hörðum höndum að
því að setja upp baðstofulíkanið að heiman undir tjaldhimninum,
sem okkur var fenginn til umráða. Varð þar ýmsu við að auka, en
alit komst þó í sómasamlegt lag undir lokin. Glaðasólskin var allan
daginn og hafði ég ekki í annan tíma unnið í svo heitu veðri. Næsta
dag kl. 11 hófst svo þjóðháttasýning okkar þremenninganna, og
stóð til kl. 5. Bjuggum við vinnusvið okkar svo vel úr garði sem
efni stóðu til, klæddum rúmstæði salúnsofnu ábreiðunum hennar
Onnu frá Moldnúpi og settum upp fullunna hluti úr ull og hross-
hári. Fyrir opnu tjaldi var svo unnið líkt og gerðist í gömlu sveita-
baðstofunni, þar sem bóndinn kembdi ull í hendur konu sinni, svo
hægt væri að þeyta rokkinn hvíldarlítið, og vinnumaðurinn - eða
einhver annar - vann hrosshárið í hnappheldur, tögl og gjarðir.
Þarna var vinnuskipting nokkur, því annað veifið greip Kristinn
snælduna til að tvinna bandið eða kembdi og og lyppaði tog fram úr
togkömbum og hrosshárið krafðist sinnar fjölbreytni í vinnu. Aldrei
hef ég séð fínni þráð renna frá rokk en hjá Margréti Líndal og hélt
hún vel uppi sæmd íslensku ullarinnar og formóður okkar, íslensku
spunakonunnar.
Mikill fjöldi manna gekk um hátíðarsvæðið daglangt og slitnaði
sjaldan straumurinn framan við baðstofuna okkar. Þurftu ýmsir
margs að spyrja um þetta framandi fólk og háttsemi þess, en við
leystum úr eftir föngum. Öll menning er í rótum sínum alþjóðleg.
Maður frá Perú, sem kom við hjá okkur og leit eftir hrosshársvinnu
minni þekkti áþekk áhöld og háttsemi hjá Indíánum í Andesfjöll-
um, og kom mér það raunar ekki á óvart. Annar gestur, sem sá mig
50
Goðasteinn