Goðasteinn - 01.06.1977, Page 74
íslenskra málefna. Rangæingurinn Halldór Jónsson frá Marteins-
tungu faðir vina minna Doris og Tana brýnd.i þetta fyrir börnum
sínum: „Gleymið aldrei íslenskunni þessu elskulega máli, þið þurfið
aldrei að skammast ykkar fyrir að vera íslendingar-“ Annað boðorð
hans var svo þetta: „Dugið sem best, gerið sem best og gerið ykkur
aldrei neinn mannamun, hvort sem maðurinn er hvítur eða svartur."
Ég varð næstum klökkur í huga, þegar heiðurskonan Rúna Nordal
dró upp úr pússi sínu í Seattle Center gamlan sauðarlegg og sýndi
mér. Hann var úr leikabúinu hennar frá bernskuárunum austur á
sléttunum miklu. Þar hafði hún unað við leikföng í leggjum, kjálk-
um og kögglum, líkt og börnin á gamla landinu, og þessi leggur
geymdur til minja. Eklci vissi ég, hvort hún átti eftir nokkrar af
fuglsfjöðrunum, sem mynduðu kirkjugestina í messu.haldi barna-
lcikjanna.
Heimili margra er skemmtileg blanda af Ameríku og íslandi.
í náttborðinu við rúmið mitt hjá Ray og Doris Olason var hlaði af
góðum íslenskum bókum, en rúmið var með háum, renndum stólp-
um, í raun og veru himinsæng, mýkri öilum heimarúmum. Á stofu-
veggjum héngu saman í sátt og samlyndi íslensk og amerísk lista-
verk, á píanói lá Kóralbók sr. Bjarna Þorsteinssonar. Á borðstofu-
vegg gat að líta gamlan hornspón, letraðan höfðaletri.
Hin ókrýnda dottning íslenskra mennta í Seattle, skáldkonan
Jakobína Johnson, lá nú á sjúkrahúsi í hárri elli. Lcngi var hún mikið
athvarf íslendinga, sem leið áttu um Seattle og flestum snjallari í
því að þýða íslensk ljóð á enska tungu. Menning okkar á þó góða
merkisbera enn í Seattle eins og glöggt kom fram á norrænu hátíð-
inni þar 1976, þar sem hún hafði í fullu tré við frændþjóðir okkar
á Norðurlöndum. Tani Bjornson túlkar afburða vel lög og ljóð
gamla heimalandsins og sama máli gegnir um lækninn dr. Edward
Pálmason, þótt íslensk tunga sé honum ótamari en vini okkar, Tana.
Miðstöð þjóðræknisstarfsins er The Icelandic Club. Konur eiga
mikinn og góðan þátt í starfi klúbbsins, eins og best kemur í ljós, er
kynna skal fjöldanum Island og íslenska menningu. Líklegt er að
þetta starf muni eiga í vök að verjast á komandi tímum, því óðum
fækkar þeim, sem eiga náðargáfu gamla móðurmálsins. Verður það
hlutverk oklcar hér heima að eiga ríkari þátt í því framvegis en
72
Goðasteinn