Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Síða 30
og eyru, þyngdi Gússa svo mjög að hann féll skyndilega óðfluga
og nam ekki staðar fyrr en í fimmtíu metra hæð yfir Lækjar-
torgi. Þar hringsólaði hann kaldur, skjálfandi og síhnerrandi.
Gangandi vegfarendur sem söfnuðust fyrir neðan hann tóku
samt ekkert eftir því að hann var lasinn. Þeir einblíndu aðeins á
risavaxið höfuðið, enda voru líkaminn og andlitið illgreinanleg
með berum augum.
Nú hvessti aftur og þá varð illt í efni. Vindhviður feyktu Gússa
nefnilega til og frá um borgina. Hann brákaði vitlausa beinið þegar
hann fauk á krossinn efst á Hallgrímskirkju; var hársbreidd frá
því að lenda í skrúfublöðum Fokker-vélar; flaug á og rotaði máf;
slengdist eins og kúla í kúluspili á milli húsa niður Laugaveginn
í einni snarpri roku og festi buxur og peysu tólf sinnum í
loftnetum sem hann rykkti með sér. Gússi bar þannig ábyrgð á
því að tólf fjölskyldur sátu í þögn heima hjá sér það kvöldið og
lögðu kabal þar til dagskrá sjónvarpsins lauk.
Svona gekk þetta hjá Gússa Almari næstu tímana.
Samheldinn hópur áhugamanna um Gússa - Gússagrúppan
alræmda - myndaðist fyrir neðan hann. Hún elti fýrinn fljúgandi
hvert á land sem var, hrópaði slagorð og skaut glerbrotum og
öðrum oddhvössum hlutum í hausbelginn hvenær sem færi gafst.
Grúppan var samtíningur biturra rithöfunda, drykkjukvenna,
afbrotaunglinga og hægri manna sem undir höfðu orðið í
lífsbaráttunni. Þessir karlar og þessar konur fylgdu Gússa vegna
þess að þau fundu undir niðri til samkenndar með honum. En
sjálfsvirðing þeirra var svo lítil að þau gátu ekki horfst í augu
við sannleikann og níddust því á Gússa.
Þegar hér er komið sögu var Gússi Almar orðinn all blóðugur
og rispaður um líkamann. Andlitið var samt ennþá slétt, mjúkt og
svipbrigðalaust og Gússi sýndi þess engin merki að ástandið væri
annað en eðlilegt. Hann brosti bara og sagði lágt, uHa, ég veit
það ekki," í hvert sinn sem reiður máfur plokkaði í eyrað eða
hann rak hausinn í byggingu.
Og pínan hélt áfram: Hann flaug á krana, flugvélar,
flaggstengur, fallhlífastökkvara, glugga á háhýsum og ýmislegt
fleira. Athæfi hans var farið að gera menn óttaslegna og talað
var um að lýsa Gússa réttdræpan. En áður en skottíminn hófst
gerðist kraftaverkið.
28