Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Page 76
Elín Garðarsdóttir:
Ég valdi bara bækur úr bókaskápnum mínum. Þær sem ég þekki
vel og vildi síst missa, en valið var ekki auðvelt. Ekki vegna
þess að það væru of fáar sem ég gæti nefnt sem uppáhalds
bækurnar mínar. Heldur vegna þess hvað það voru margar í 2.
sæti.
Smásögur hafa alltaf heillað mig. Þau hljóta að skipta tugum
smásagnasöfnin sem ég hef gleypt í mig um dagana. En smásagna-
safn Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns
nefni ég hér. Sögur Ástu er mjög gaman að lesa og greina út
frá feminiskri bókmenntarýni.
Það er ekki mikið sem ég hef lesið eftir Halldór Laxness. Salka
Valka höfðaði meira til mín á sínum tíma en t.d. Gerpla. Salka
Valka er líka enn sem komið er eina bókin eftir hann sem ég
hef lesið oftar en einu sinni og því nefni ég hana hér.
Ástkona franska lautinantsins er skemmtileg bók vegna þess
hve hún er mikið viðfangsefni, höfundur gerir í því að láta
lesandann vita að hann sé staddur í tilbúinni sögu. En notar svo
venjulega viktoríanska ástarsögu sem auðvitað verður ekkert
venjuleg í meðförum hans.
Jólaóratórían er fyrsta bókin sem ég man eftir að hafa lesið
þar sem tónlist og texti fléttast saman. Tónlist í bókum, eða
réttara sagt tónlist í byggingu bóka var ný hugmynd fyrir mig.
En auðvitað var hún ekkert „ný"; þessi tónlistarbygging kemur
jafnvel enn betur fram í bók Milans Kundera, Óbærilegur léttleiki
tilverunnar. Heillandi hugmynd jafnvel fyrir þá sem ekkert vita
um tónlist.
Vísindaskáldsögur hafa ekki höfðað mjög til mín. Þó ætla ég
að nefna eina bók eftir höfund sem hefur skrifar þannig bækur,
Minningar einnar sem eftir lifði eftir Doris Lessing. Innileg en
sterk saga um samband tveggja kvenna í umhverfi sem gæti verið
eftir að sprengjan hefur fallið.
Ég verð að nefna Sérherbergi eftir Virginiu Woolf, þótt hún
teljist ekki, strangt til tekið, í hópi skáldsagna. Hún er svo
merkileg sem hugmyndabrunnur og hefur haft varanleg áhrif á
lífsskoðun mína og ekki síst á það hvernig ég túlka bókmennta-
söguna.
74