Ársrit Torfhildar - 01.04.1991, Blaðsíða 21
Ársrit Torfhildar
samskipti af einhverju tagi í flestum sögunum. Þau eru oftar en ekki
kynleg og fyndin, hvort sem um er að ræða hjónaband Arons og Ellu,
þar sem eiginmaðurinn þarf að þola stanslaust rifrildi eiginkonunnar;
kærustupar sem slítur samvistum þegar konan missir ís ofan í
hálsmálið á manninum í faðmlögum, eða ungling sem skrifast á við
stúlku, en bréfin hans falla ekki í betri jarðveg en svo að stúlkan
heimsækir hann í lok sögunnar og húðskammar hann. Aron og Ella
eru reyndar nokkurs konar Hamm og Clov (aðalpersónurnar í
Endgame eftir Samuel Beckett); andstæður sökum líkamlegs ástands.
Þannig var Aron "kyrrlátur í sæti" en "þegar hann reis á fætur greip
hann kynlegt eirðarleysi, sem ekki var óáþekkt niðurbældu æði og
friðleysið jókst með aldrinum og eftir því sem Ella fitnaði og varð
meira ósjálfbjarga" (29). Og síðar: "Ella var líka smávaxin, en hún var
eirðarlaus í sæti og orðin fótalaus fyrir löngu" (29). Og eins og Hamm
og Clov, þurfa þau hvort á öðru að halda, þrátt fyrir ófriðinn, sem
sést meðal annars á því að Aron verður algjörlega eirðarlaus eftir
dauða Ellu (að sjálfsögðu skiptir hér einnig máli hvernig dauðann
ber að). í sögunni Maður sem varð fyrir óláni segir frá manni sem
bítur það í sig að konan hans sé honum ótrú (ekkert kemur reyndar
fram í sögunni sem bendir til að þessi grunur hans sé á rökum
reistur); hann lemur systur sína og lendir á bak við lás og slá, þaðan
sem hann vill mjög ógjarnan komast. Engu líkara er en hann sé að
reyna að flýja hjónabandið, en hjónabandið sem slíkt fær reyndar
ekki mjög blíðlega umfjöllun hjá Guðbergi. Persónurnar virðast ekki
finna hamingjuna til lengdar í þeirri stofnun; skemmst er að minnast
Hjartans, en jafnframt má benda á smásöguna Nöldur sem birtist í
Leikföngum leiðans (1963) og hefur að geyma eitt langt rifrildi hjóna,
um hund og vírnet fyrir hænsnakofa: "stagl hversdagslífsins" í
hnotskum. Systir mannsins sem varð fyrir óláni segir á einum stað
við bónda sinn:
Suðið í honum [bróðurnum, innsk. EG] vekur upp í mér
andrúmsloftið heima, en eilíft þjark í þér minnir mig á þreytu
hjónabandsins, og það fer með mig. (44)
Hjónabandið myndar því gjarnan ramma utan um hverskyns
stagl og nöldur. En þrátt fyrir hremmingar hjónabandsins, þá er
einlífið sennilega verra, ef marka má konuna í sögunni Karl Jón og
konan sem tekur upp á því í einsemd sinni að búa til ímyndaðan
19