Ársrit Torfhildar - 01.04.1991, Blaðsíða 31
Ársrit Torfhildar
inntaki, að vera sjálf uppspretta hans. (14)
Myndin af því þegar hún fór á ferjunni yfir fljótið til fyrsta fundarins
við elskhugann var ekki tekin, þetta gerðist aldrei og því er hún
"uppspretta óendanleikans", hún er uppspretta nýrra sagna sem varpa
ljósi á þær sem fyrir eru. Ljósmyndir eru fryst augnablik. Þær eru
óbreytanlegar og eilífar. Þær sýna okkur ekki hvernig einhver leit út á
einhverju ákveðnu æviskeiði, heldur einungis hvernig hann leit út á
nákvæmlega því augnabliki sem myndin var tekin og frystir það
augnablik að eilífu. Þó að það hafi ekki verið tekin mynd af stúlkunni
á ferjunni, þá er til mynd af syni hennar sem hún lýsir svo:
Þetta er sú mynd sem kemst næst þeirri sem ekki var tekin af
ungu stúlkunni á ferjunni. (18)
Ljósmyndir minna þannig á ímyndir. Hún sér sjálfa sig í brotum,
einhverja ímynd af sjálfri sér eða andlit sitt. ímyndir sem lýsa líðan og
tilfinningalífi eru hennar viðfangsefni, hvort sem þær eru 'sannar' eða
ekki; það er engin ljósmynd til af elskhuganum. Ein ákveðin ímynd
er viðfangsefni sögunnar, ferjuferðin:
Ég hugsa oft um myndina sem ég ein fæ ennþá séð og ég hef
aldrei talað um. Hún er alltaf þarna í sömu þögninni eins og hvert
annað undur. Hún er sú af sjálfri mér sem ég tek fram yfir allar
aðrar, þar sem ég þekki sjálfa mig, heillast af sjálfri mér. (7)
ímyndir eru líka óbreytanlegar, eilífar. Þessa ímynd hefur hún
alltaf haft fyrir hugskotssjónum, eins og ljósmynd í albúmi. Þessu
atriði er líka lýst ótal oft í sögunni frá öllum sjónarhornum. Þetta er
óendanlega mikilvægt fyrir hana; þar sem hún fer á ferjunni yfir
stórfljót, frá móður sinni til fyrsta elskhugans. í útgáfu fimmtán ára
stúlkunnar er því einfaldlega lýst svona:
Svo ég segi ykkur fleira, þá er ég fimmtán og hálfs. Þetta er á ferju
yfir Mekong-fljót. (8)
Móðir hennar vildi sífellt vera að láta taka af þeim
fjölskyldumyndir, hún kærði sig ekkert um landslagsmyndir eða því
um líkt, slíka hluti hafði hún enga þörf fyrir að varðveita. Systkinin
skoðuðu ljósmyndir af hvoru öðru en horfðu aldrei hvort á annað,
þau töluðu heldur aldrei saman, þau hleruðu og njósnuðu. Móðirin
vildi frysta augnablikið, halda börnunum hjá sér á einhvern hátt,
29