Læknablaðið - 01.07.2024, Blaðsíða 10
354 L ÆKNABL AÐIÐ 2024/110
Eva María Guðmundsdóttir1 líffræðingur
Elínborg Ólafsdóttir1 verkfræðingur
Nanna Margrét Kristinsdóttir1 lýðheilsufræðingur
Álfheiður Haraldsdóttir1 lýðheilsufræðingur
Kristjana Sigurðardóttir1 verkfræðingur
Laufey Tryggvadóttir1,3 faraldsfræðingur
Helgi Birgisson1,4 læknir
Sigríður Gunnarsdóttir1,2,3 hjúkrunarfræðingur
1Rannsóknasetur – Krabbameinsskrá, Krabbameinsfélag Íslands,
2Landspítali, 3Háskóli Íslands, 4Ristil- og endaþarmsskurðdeild,
Akademiska sjúkrahúsið Uppsölum, Svíþjóð
Fyrirspurnum svarar Sigríður Gunnarsdóttir, sigridurg@krabb.is
Greinin barst til blaðsins 21. mars 2024,
samþykkt til birtingar 10. júní 2024.
Á G R I P
INNGANGUR
Spáð er aukningu á nýgreiningum krabbameina á heimsvísu
vegna mannfjöldabreytinga, hækkandi meðalaldurs og hækkandi
krabbameinsáhættu. Aldursdreifing íslensku þjóðarinnar er ólík
nágrannaþjóðunum og því nauðsynlegt að spár fyrir Ísland byggi á
íslenskum gögnum og taki mið af íslenskum aðstæðum. Tilgangur
þessarar rannsóknar var að spá fyrir um fjölgun krabbameinstilfella á
Íslandi og bera saman við áætlaða fjölgun á hinum Norðurlöndunum.
Einnig að áætla fjölda þeirra sem eru á lífi eftir krabbameinsgreiningu
á Íslandi árið 2040.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Upplýsingar um krabbamein komu frá Krabbameinsskrá Íslands og
upplýsingar um mannfjölda og mannfjöldaspá frá Hagstofu Íslands.
Notaðar voru þekktar aðferðir við gerð spárinnar en þær aðlagaðar að
íslenskum aðstæðum auk þess sem hún byggir á nýrri gögnum en eru
aðgengileg annarsstaðar. Spá um algengi (fjölda lifenda) árið 2040 er
sett fram í fyrsta sinn á Íslandi og byggði á þremur ólíkum forsendum.
NIÐURSTÖÐUR
Spáð er að árið 2040 verði árlegur meðalfjöldi nýrra krabbameins-
tilfella á Íslandi allt að 2.903 [95% ÖB 2.841-2.956], eða 57% aukn-
ing frá árslokum 2022. Aukningin er meiri á Íslandi en á hinum
Norðurlöndunum (Noregur 41%, Svíþjóð 24%, Danmörk 23%, Finnland
21%). Árið 2022 voru tæplega 17.500 manns á lífi sem höfðu greinst
með krabbamein og er áætlað að fjöldi lifenda verði milli 24.500 og
31.000 manns árið 2040.
ÁLYKTUN
Spáð er mikilli aukningu á nýgreindum krabbameinum á Íslandi, sem
skýrist aðallega af mannfjöldabreytingum, sérstaklega af ört hækkandi
meðalaldri þjóðarinnar. Þessi fyrirséða fjölgun krabbameinssjúklinga
og bætt lifun munu auka álag á heilbrigðiskerfið sem brýnt er að
bregðast við.
Spá um nýgengi og algengi
krabbameina á Íslandi til ársins 2040
Inngangur
Um þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein á lífs-
leiðinni og er meðalaldur við greiningu 67 ár. Á tímabilinu
2018-2022 greindust árlega að meðaltali 1.853 einstaklingar
með krabbamein hér á landi, eða yfir 400 fleiri árlega en fyrir
10 árum og rúmlega fimmfalt fleiri en þegar skráning hófst
í Krabbameinsskrá Íslands fyrir 70 árum.1 Ýmsar skýringar
liggja þar að baki, meðal annars aukinn mannfjöldi, aukin
krabbameinsáhætta, hækkandi meðalaldur þjóðar, skimanir og
bætt greiningatækni.2–4
Lifendum (survivors), það er þeim sem lifa eftir greiningu
krabbameins, fer einnig fjölgandi. Í árslok 2022 voru 17.493
einstaklingar á lífi á Íslandi sem greinst höfðu með krabba-
mein og hafði lifendum fjölgað úr 12.555 árið 2012.1 Tengist