Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.07.2024, Page 17

Læknablaðið - 01.07.2024, Page 17
L ÆKNABL AÐIÐ 2024/110 361 Y F I R L I T S G R E I N NOTCH3-próteinið myndar skaðlegt fínkorna efni (GOM, granular osmiophilic material) sem hleðst upp á grunnhimnu sléttra vöðvafrumna. Breytingarnar koma fram bæði í slétt- vöðvalaginu og æðagrannfrumum (pericytes). Þetta veldur smám saman tapi á sléttvöðvalaginu og örvefsmyndun, æða- veggir í slagæðum verða stífari og þykkari,11 sem leiðir til súr- efnisskorts, vefjaskaða og smáæðadreps (lacunar infarction) í hvíta og djúpa gráa efni (basal ganglia) heilans. Heilabörkurinn verður sjaldnar fyrir áhrifum í CADASIL.4 Erfðir CADASIL erfist á ríkjandi hátt.12 Þetta þýðir að ef annað for- eldrið er með sjúkdóminn, eru 50% líkur á því að afkvæmi fái hann. Þau börn sem ekki hafa fengið sjúkdómsvaldandi afbrigði gensins fá ekki sjúkdóminn og bera hann heldur ekki áfram. CADASIL getur einnig komið upp í kjölfar nýrrar stökk- breytingar. Breytingin hefur þá yfirleitt orðið í einhverri kyn- frumu foreldra. Líkur á að foreldrar eignist aftur barn með sjúkdóminn eru innan við 1%. Hins vegar verður nýja afbrigð- ið í barninu arfgengt og getur þannig borist til næstu kynslóð- ar í samræmi við ríkjandi erfðamynstur. Töluverður breytileiki er á því hvenær fólk veikist, ein- kennamynd og magni hvítaefnisbreytinga. Fer það meðal annars eftir því hvar stökkbreytingin er staðsett í geninu. Einnig er töluverður munur á einkennum og alvarleika innan sömu fjölskyldu þó stökkbreytingin sé sú sama. Ástæðurnar fyrir þessu eru ekki fyllilega þekktar.8 Einkenni Börn með sjúkdóminn eru yfirleitt einkennalaus, en sum geta verið með mígreni með áru frá unglingsaldri. Meðalaldur við upphaf einkenna er 30 ár og algengustu einkenni hjá fullorðn- um eru mígreni með áru, TIA/heilaslag, hægt versnandi vit- ræn geta og geðræn einkenni.13 Mígreni með áru Mígreni kemur fram hjá 30–75% fólks með CADASIL og byrjar oftast fyrir 30 ára aldur.14 Flestir eru með mígreni með áruein- kennum (fyrirboði fyrir höfuðverkinn). Áran er yfirleitt á formi sjóntruflana, dofa, máttminnkunar eða máltruflunar.15 Stundum getur verið erfitt að meta hvort um sé að ræða mígreniáru, TIA eða vægt heilaslag. Það sem einkennir áruna er í fyrsta lagi svokölluð jákvæð einkenni (bylgjur og glamp- ar) sem hreyfast yfir sjónsviðið. Í öðru lagi að fyrirboðaein- kennin koma ekki öll samtímis. Yfirleitt kemur sjóntruflunin fyrst, svo dofinn, máttminnkunin og loks taltruflunin hvert á fætur öðru. Ástæðan er sú að áran er afskautun (spreading depolarization) taugafrumna sem færist frá sjónberki fram á við yfir heilabörkinn. Í árunni dreifist dofinn ennfremur frá ein- um líkamshluta til annars. Hann byrjar til dæmis í hendi og dreifist á nokkrum mínútum upp í andlit sömu megin. Við heilaslag koma einkennin oftast öll í einu eins og nafnið gefur til kynna. TIA og heilaslag Stór hluti fólks með CADASIL (60-85 prósent) fær annað hvort TIA eða heilaslag á aldrinum 18 til 67 ára (meðalaldur 51 til 53 ára).13,16,17 TIA felur í sér tímabundna blóðflæðistruflun sem veldur svipuðum einkennum og heilaslag. Einkenni hverfa innan sólarhrings og ekki sjást ummerki um skemmd með myndgreiningu. Heilaslag er hugtak yfir blóðþurrðarslag og heilablæðingu. Í CADASIL er það venjulega blóðþurrðarslag sem á sér stað. Flest blóðþurrðarslög í CADASIL eru svokölluð smáæðardrep (lokanir á litlum slagæðum heilans). Einkenni geta falið í sér annað hvort hreinar skyntruflanir, hreinar hreyfitruflanir eða samsettar skyn- og hreyfitruflanir. Heilablæðingar koma fyrir í CADASIL en eru sjaldgæfar. Hins vegar finnast örblæðingar (microbleeds), sem sjást á segulómun (MRI), hjá 30–70 prósent fólks með sjúkdóminn.18 Þessar litlu heilablæðingar valda ekki dæmigerðum einkennum heilaslags en geta leitt til versnandi vitrænnar getu auk flogaveiki.19 Snemmkomin heilabilun Skert vitræn geta er algeng í CADASIL. Í einni rannsókn með 176 sjúklinga (meðalaldur 51 ár) var helmingur með skerta vitræna getu.20 Um 75 prósent þróa með sér heilabilun að lok- um.4 Versnandi vitsmunageta er yfirleitt nokkuð hæggeng þó að hraðari versnanir eigi sér stað, ekki síst í tengslum við heilaslag.21 Fyrstu einkennin eru gjarnan að viðkomandi verður hægari í hugsun, frumkvæði- og framtaksleysi eykst auk skertrar getu til einbeitingar og skipulagshæfni. Það hægist á flæði tals, bæði vegna erfiðleika við að finna orð og þvoglumælgi. Allt af ofannefndu leiðir til þess að félagsleg færni fer versnandi og viðkomandi missir starfshæfni.22 Geðræn einkenni Geðræn einkenni eru nokkuð algeng og hefur verið greint frá þeim hjá rúmlega þriðjungi fólks með CADASIL, en líklega eru geðræn einkenni vangreind í sjúkdóminum.23 Þunglyndi kemur fram hjá um það bil 20 prósent. Önnur geðræn einkenni eru svefntruflanir, pirringur, kvíði, áfengisfíkn og jafnvel geð- rofseinkenni. 24 Sinnuleysi, minnkaður áhugi eða skert mark- miðsbundin hegðun eru algeng, ekki síst í tengslum við skerta vitræna getu. Úttaugakvilli Útlægur fjöltaugakvilli (polyneuropathy) getur verið síðkomið einkenni í CADASIL.4 Fjöltaugakvilli hefur áhrif á úttaugar líkamans í höndum og fótum. Algengustu einkennin eru dofi, tilfinningaleysi, óþægindi og verkir og stundum máttleysi. Verkirnir eru gjarnan verstir þegar farið er að sofa, sem getur haft áhrif á svefninn. Orsök úttaugakvilla í CADASIL er ekki fyllilega þekkt.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.