Skógræktarritið - 15.10.2010, Page 65
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201064
Í síðasta Skógræktarriti var fjallað um þær belg-
jurtir sem hægt er að nota sem hjálparplöntur í
skógrækt. Hér verður fjallað um plöntunæringarefni
og hvernig líklegt er að auka megi vöxt trjáplantna
með áburðargjöf og/eða með því að auka almennt
á frjósemi svæðis með belgjurtaútplöntun. Leiðbein-
ingarnar eru miðaðar við ræktun á lítt grónu landi,
enda er reynsla höfundar að mestu takmörkuð við
skógrækt á slíku landi. Með áburðargjöf er verið
að koma plöntunæringarefnum í jörð þar sem þau
verða aðgengileg trjáplöntum. Flest ræktunarfólk er
vant að rækta í eigin nytjagarði og bændur eru vanir
heyskap. Í báðum tilfellum er hluti uppskerunnar
fjarlægður og þar með hluti plöntunæringarefnanna.
Fyrir það tap þarf að bæta. Í skógrækt gegnir öðru
máli. Þar er mjög langt í að plöntunæringarefnin
verði fjarlægð.
Í skógrækt er sjálfsagt að taka land til ræktunar
sem ekki er þegar nýtt í aðra ræktun. Nóg er af
slíku landi. Oftast er um að ræða land þar sem lítill
sem enginn gróður er fyrir. Slíkt land er hins vegar
mjög snautt af plöntunæringarefnum. Þessum efnum
þarf að koma til plantnanna. Í skógræktarstarfi er
hagkvæmt að gefa áburðarefnin í sem fæstum að-
gerðum, helst með einni aðgerð í upphafi ræktunar.
Í þeim tilfellum þarf að gefa eins stóra skammta og
ræktunin þolir. Þá væri líka gott að stuðla að fram-
vindu sem leiðir til aukinnar frjósemi. Þar skiptir
ræktun níturbindandi tegunda miklu máli.
Hráefni til plöntuvaxtar
Plöntur er frumbjarga lífverur. Það þýðir að þær
mynda öll lífrænu efnin sín sjálfar með ljóstillífun.
Nokkur hráefni til vaxtar verða þær að ná í úr jörð.
Þau mikilvægustu í skógrækt eru nítur, fosfór og
brennisteinn því að alltaf er skortur á þessum efnum
í íslenskri jörð. Öll þessi efni eru notuð í myndun
byggingarefna og hvata. Önnur efni skipta minna
máli og því verður eftirfarandi umfjöllun nærri ein-
skorðuð við þau fyrst upptöldu.
Nítur (N). Af þeim efnum sem plöntur taka úr jörð
er upptaka níturs einna mest. Þegar nítur er gefið
fæst alltaf einhver uppskeruauki. Nóg er af nítri í
andrúmsloftinu en í þannig formi að plöntur geta
ekki nýtt sér það. Með því að stuðla að dreifingu og
vexti níturbindandi plantna má auðveldlega bæta úr
níturskorti. Með níturbindingu er nítur úr andrúms-
lofti í fyrstu bundið í lífrænu efni og skilar sér síðan
í jarðveg að hluta og með tíð og tíma vex níturforði
jarðvegs. Um það er fjallað síðar í greininni.
Áður en lengra er haldið er gott að líta á hringrás
umræddra efna í náttúrunni. Hringrás níturs í líf-
ríkinu er svona í grófum dráttum.
Plöntunæringarefni, belgjurtir
og vöxtur trjáplantna
Nokkrar leiðbeiningar um ræktunaraðgerðir
Höfundur Jón Guðmundsson
Plöntur taka upp nítur á tvenns konar formi: sem amm-
óníum eða nítrat.Út frá því sjónarmiði eru þessi efni jafn-
góð plöntunæringarefni. Samt sem áður er mikill munur á
ammóníum og nítrati. Ammóníum er fæða fyrir örverur
en nítrat ekki. Ammóníum helst kyrrt í jarðvegi en nítrat
skolast niður í grunnvatnið ef plöntur ná ekki að taka það
upp. Þaðan tapast það endanlega úr jarðveginum þegar
örverur melta það og breyta því í nítur andrúmsloftsins.
Ammóníum er þannig betri áburður en nítrat því að það
helst í jarðveginum en nítrat berst niður í dýpri lög. Þegar
lífræn efni brotna niður losnar nítur sem ammóníum en
ekki sem nítrat.