Skógræktarritið - 15.05.2011, Side 32
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201130
með til reynslu. Á öðru ári gróðursetningar þarna
voru einnig gróðursettar 2500 plöntur af birki,
víði, bergfuru og lerki. Landið sem gróðursett var
í er hluta til snjóflóðasvæði en þar sem hættan var
mest syðst á svæðinu voru leiðigarðar til að bægja
hættunni framhjá syðsta hluta byggðar. Síðar þóttu
þessir garðar ekki nægir og voru settar upp varnir
ofarlega í hlíðinni vegna skaflamyndunar. Nokkru
síðar var ákveðið að girða alla hlíðina ofan bæjar
með þvergörðum. Þar með var séð að mestu fyrir
örlögum þeirra plantna sem þarna höfðu verið settar
niður. Nokkrum plöntum var bjargað og komið
inn á Skarðdalssvæðið og víðar, en stærsti hlutinn
varð eyðileggingunni að bráð og var rutt burtu. Við
þessu var ekki mikið að segja, öryggið var auðvitað
í fyrirrúmi. Samt sem áður þótti okkur erfitt að taka
þessu bótalaust. Á Ísafirði höfðu fengist bætur fyrir
trjágróður sem félagið þar hafði sett niður vegna
byggingu á snjóflóðagarði. Var því leitað til Ofan-
flóðasjóðs. Hægt gekk að fá nokkra úrlausn en um
síðir tókst þó að fá nokkrar bætur. Var það góður
stuðningur við þau verkefni sem voru í gangi.
Jóhann hætti sem formaður 1986. Þá var langt
komið gróðursetningu á svæði 3 og nokkuð byrjað
á svæði 4, sem er svæðið umhverfis Skarðdalsbæ-
inn. Meginhluti þess var túnið og næsta nágrenni
norðan bæjarstæðis. Allstór hluti þess var sléttað
land og mjög grasgefið, með háu grasi og þykkri
grasrót. Til gróðursetningar voru bakkaplöntur og
sýnt að þær yrðu ekki settar niður nema slá rúm-
lega metra hátt grasið og rista af torflagið. Annað
vandamál kom fljótlega í ljós– norðanvindur og
lítið skjól. Við tók barátta í fáein ár við að halda
lífi í þessum litlu plöntum og var ýmislegt
reynt. Torfið sem rist var ofan af slétta
túnsvæðinu var hlaðið í veggi norðan við
svæðið til að mynda skjól en var of lágt.
Plantað var víði í þeim tilgangi að mynda
skjólbelti sem tók sinn tíma. Á tímabili
notuðum við vörubretti sem gáfu meira
skjól en lágir garðar meðan skjólbeltin
voru að vaxa upp. Þetta hjálpaði svolítið
en var alls ekki nóg. Þá var reynt að setja
plasthólka utan um allmargar plöntur.
Þetta hjálpaði talsvert gegn storminum en
þá kom annað til. Þessa vetur var veðr-
áttan mjög breytileg með frosti og þýðu
til skiptis og þær umhleypingar þoldu
þessar litlu plöntur alls ekki, stærsti hlut-
inn lifði ekki af slíka vetur. Svona var vonlaust að
halda áfram. Var ákveðið að setja ekki niður yngri
plöntur en 3ja ára og gekk það ráð upp. Þær plöntur
lifðu flestallar og þurfti ekki svo mikið að hafa fyrir
þeim, gefa þeim smá áburð og hindra grasvöxt næst
þeim. Þarna höfðum við öðlast dýrmæta reynslu.
Það var miklu betra að setja niður 100 slíkar plöntur
á þessu svæði en 1000 bakkaplöntur. Nú er langt
komið plöntun á svæðinu. Ýmsir hópar hafa komið
að gróðursetningu hér sem og á Skarðdalskotssvæði,
meðal annars skólaárgangar, fermingarhópar eða
fólk á ættarmótum. Fyrsti hópurinn var árg. 1945
sem plantaði 82 plöntum á rýmra svæði þannig að
svæðið stækkaði um helming. Árg. 1948 kom svo
og plantaði 30– 40 sæmilegum birkiplöntum. Hafa
allir aðilar fylgt þeirri ábendingu að koma ekki með
yngri plöntur en 3ja ára og hafa gott bil á milli.
Einnig er hér svæði sem skólanum var úthlutað svo
ákveðnir bekkir gætu sett niður Yrkjuplöntur. Þar
er skjólbelti orðið allvel vaxið svo kannski dugar
það smáplöntum. Mat á plöntufjölda á svæði 3 og 4
getur ekki orðið mjög nákvæmt, þar sem töluvert af
plöntum drapst í upphafi, en vart er það þó minna
en 30.000 plöntur.
Viðbótarland fékkst í Leyningslandi sunnan
Leyningsár fyrir landgræðsluskógaplöntur og skyldi
það land girt jafnóðum. Fyrst var girt 50 m breitt
belti, um 200 m að lengd. Í það land var plantað
60 stæðilegum plöntum á skógardegi 13. ágúst
árið 2000, á 60 ára afmæli Skógræktarfélags Siglu-
fjarðar. Síðan hefur verið girt svæði lengra inn eftir
Hólsdal vegna framhalds á gróðursetningu land-
græðsluskógaplantna.
Börn Jóhanns ásamt fleirum við gróðursetningu árið 2002.