Morgunblaðið - 03.11.1981, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 03.11.1981, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 3. NÓVEMBER 1981 29 Stjórnmálayfirlýsing 24. landsfundar Sjálfstæðisflokksins I: Sjálfstæðismenn sameinist í einarðri baráttu — fyrir öryggi landsins, frelsi einstaklings, frjálsu atvinnulífi, samhjálp og velferð IIÉR fer á eftir stjórnmálayfirlýsing 24. landsfundar Sjálfstæðisflokksins I. Um þessa yfirlýsingu varð fuil ein- ing og samstarf á landsfundinum: Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður fyrir fimmtíu og tveimur árum hefur hann verið merkisberi frelsis og framfara í landinu. Stefna hans er víðsýn, frjálslynd og þjóðleg umbótastefna á grundvelli athafna- og einstaklingsfrelsis með hags- muni allra stétta og byggðarlaga fyrir augum. Flokkur- inn telur það forsendu heilbrigðs samfélags að einstakl- ingar, félög þeirra og samtök hafi frelsi til athafna og fái að njóta afraksturs iðju sinnar. Jafnframt leggur hann áherslu á það hlutverk opinberra aðila að sjá um að leikreglur frjálsrar starfsemi séu haldnar og sam- hjálp tryggð, sem veiti öryggi gegn áföllum. Flokkurinn hefur haft forustu í sókn Islendinga til landsréttinda og vill gæta þess öryggis, sem nauðsynlegt er til þess að þjóðin geti lifað í friði og frelsi í landinu sínu. Reynslan sýnir að íslendingum hefur vegnað best, framfarir orðið örastar og velferð aukist mest, þegar sjónarmið Sjálfstæðisflokksins hafa verið ráðandi. Þeg- ar skoðanir annarra flokka hafa orðið ofan á og höft, skattar og hvers konar opinber afskipti verið aukin, hefur hins vegar skjótt brugðið til stöðnunar í atvinnu- lífi og dregið úr umbótum. Jafnframt hefur öryggi landsins verið stefnt í hættu vegna tvíræðrar afstöðu þessara flokka. Alvarlegar horfur í þjóðmálum Alvarleg viðhorf blasa nú við í þjóðmálum hér á landi sem víðast hvar annars staðar. Á undanförnum áratug- um hafa orðið stórstígar framfarir og velferð hefur aukist hröðum skrefum. Nú hefur hins vegar dregið úr hagvexti, verðbólga magnast og atvinnuleysi orðið mik- ið víða um heim. Jafnframt hefur opinber starfsemi stóraukist án þess að árangur hafi skilað sér að sama skapi. Við íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessum breytingum, enda þótt aflaaukning vegna stækkunar fiskveiðilögsögu og hagstæð markaðsskilyrði hafi orðið okkur til hagsbóta. Það er skylda stjórnmálaflokka að skoða stefnu sína í Ijósi þessara nýju viðhorfa. Sjálf- stæðisflokkurinn hefur að undanförnu unnið að þessu. Fyrir tveimur árum birti flokkurinn stefnuskrá í efna- hagsmálum, „Endurreisn í anda frjálshyggju". í fram- haldi af henni er nú lögð fram ítarleg stefnuskrá í atvinnumálum auk álitsgerða í öðrum málaflokkum. Brýnasta verkefnið að efla atvinnulífið Sjálfstæðisflokkurinn telur það brýnasta verkefnið að styrkja og efla atvinnulíf landsins. Takist þetta ekki, brestur grundvöllur framfara og umbóta og vaxandi straumur fólks mun leita sér lífsviðurværis í öðrum löndum. Bæta þarf starfsskilyrði atvinnuveganna og leysa úr læðingi atorku og framtak einstaklinga og félaga þeirra. Fella verður niður hömlur á atvinnurekstri og viðskiptum og leyfa heilbrigðri samkeppni að njóta sín. Verðlag þarf að vera frjálst og sömuleiðis gjaldeyris- viðskipti. Endurskoða ætti opinber útgjöld og flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, fyrirtækja og ein- staklinga. Jafnframt verður að draga úr sköttum á ein- staklinga og atvinnurekstur og leggja áherslu á, að allar atvinnugreinar og fyrirtæki sitji við sama borð. Geng- isskráning þarf að taka mið af þörfum atvinnuveganna, jafnframt því sem aðhalds er gætt vegna verðlagsáhrifa hennar. Beita ber verðjöfnunarsjóðum í samræmi við upphaflegan tilgang þeirra. Kjarasamningar verða að vera á ábyrgð þeirra, sem að þeim standa og stefna að öruggri afkomu launþega jafnt sem atvinnuvega. Sam- ræmdri stefnu verður að fylgja í peninga- og fjármál- um. Kjör innlána og útlána þurfa að ákveðast svo að hvatning til sparnaðar sé nægjanleg og fjármagn bein- ist þangað, sem það kemur að bestum notum. Nýta verður vatnsorku og jarðvarma, sem verði grundvöllur öflugs iðnaðar. Ákvarðanir ber að taka sem fyrst um nýjar virkjanir og nýta samvinnu við erlend fyrirtæki eftir því sem hagkvæmast virðist og markaðsskilyrði gefa vísbendingu um. Dagvinnutekjur nægi til framfærslu Aukinn hagvöxtur og framleiðni eru forsendur þess, að Islendingar nái því markmiði að sérhver vinnufær maður hafi starf, er veiti lífvænlega afkomu með hóf- legum vinnutima. Áhersla sé lögð á, að dagvinnutekjur nægi til framfærslu. Stuðlað sé að alhliða þróun at- vinnuvega og lífsskilyrða í öllum héruðum landsins. Við sérstaka og tímabundna örðugleika er réttlætanlegt, að opinberir aðilar komi í veg fyrir að fyrirtæki kollvarpist og starfsmenn séu sviptir lífsafkomu. Það er grundvöllur sjálfstæðisstefnunnar, að stétt starfi með stétt. í atvinnurekstri þarf að auðvelda sam- vinnu og samstarf stjórnenda og starfsmanna í því skyni að auka ábyrgð allra þeirra, er í atvinnulífinu starfa. Greiða þarf götu hagræðingar og starfshvatn- ingar og mæta nýjum kröfum tækni og tölvuvæðingar. Öryggi um atvinnu sé ennfremur treyst og starfsgleði örvuð með aukinni verkmenntun og endurþjálfun, sveigjanlegum vinnutíma og bættum aðbúnaði á vinnu- stað. Stuðlað sé að því að heilbrigðar lífsvenjur fái þróast og að fjölskyldulíf eflist á grundvelli kristinnar lífs- skoðunar. Allir njóti öryggis ef heilsubrestur sækir að og þegar aldur færist yfir og hafi sama rétt til orlofs og verðtryggðs lífeyris. Takist á grundvelli framangreindrar stefnu í at- vinnu- og kjaramálum að auka framleiðslu og örva nýja starfsemi, geta kjör að nýju farið batnandi. Um leið verður unnt að treysta atvinnu, efla menningu og bæta umhverfi. Jafnframt geta frelsi og lýðræði dafnað og eining þjóðarinnar styrkst á grundvelli dýrmætrar arf- leifðar hennar. Öryggi landsins Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið þeirrar skoð- unar að öryggi landsins verði að tryggja miðað við aðstæður hverju sinni. Á alþjóðavettvangi ekki síður en innanlands takast þeir á, nú sem fyrr, sem eru fylgjandi frelsi einstaklingsins, og þeir sem vilja hefta þetta frelsi. Atburðirnir í Póllandi sýna vilja fólks til að brjótast undan oki sósíalismans, en innrásin í Afganist- an staðfestir enn á ný að Sovétmenn hika ekki við að beita valdi sínu, þegar svo býður við að horfa. Áróð- ursherferð Sovétmanna í Evrópu um þessar mundir, ekki síst á Norðurlöndum, vekur ugg og gefur sérstakt tilefni til þess að vara við undanlátssemi. Það er því miður staðreynd að hernaðarlegt mikil- vægi íslands hefur aukist. Útþensla sovéska flotans heldur áfram og umsvif hans og sovéskra herflugvéla í nágrenni Islands fara vaxandi. Það er augljóst, að enn sem fyrr verður öryggi þjóðarinnar ekki tryggt með öðru en áframhaldandi þátttöku í því friðarkerfi, sem íslendingar hafa átt þátt í að móta á Norður- Atlantshafi. Yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar kýs eins og áður virka þátttöku í varnarsamstarfi lýðræðisþjóð- anna og vill gera þær ráðstafanir til varnar, sem nauð- synlegar eru til þess að Islendingar fái að lifa í friði í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna að því að sem víðtækust eining náist um varnir landsins, en telur ekki að við núverandi aðstæður komi til greina að draga úr þeirri öryggisgæslu, sem fram fer í landinu og umhverf- is það. Þjóðarstefna Framundan eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavett- vangi og miklir erfiðleikar í atvinnumálum lands- manna. Sjálfstæðisflokkurinn, einn stjórnmálaflokka, getur veitt þjóðinni þá forustu, sem hún þarfnast. Brýna nauðsyn ber því til að sjálfstæðismenn sameinist í einarðri baráttu fyrir öryggi landsins, frelsi og rétti einstaklingsins og frjálsu og heilbrigðu atvinnulífi, er -sé grunnur velferðar hvers og eins og samhjálpar allra á komandi árum. Sjálfstæðismenn vilja gera þessa stefnu sína að þjóðarstefnu mannréttinda, frelsis og lýðræðis. Stjórnmálayfirlýsing landsfundar Sjálfstæðiflokksins II: Eindregin andstaða við ríkisstjórnina - skorað á ráðherra að ganga úr henni IIKK fer á eftir stjórnmálayfirlýsing 24. landsfundar Sjálfstæðisflokksins II. Hún fjallar um afstöðuna til ríkisstjórnarinnar. Fram fór leynileg atkvæðagreiðsla um ályktunina á fundinum og voru 700 lands- fundarfulltrúar henni fylgjandi 237 á móti en 32 scðlar voru auðir og einn ógildur. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur, að stefna og störf núverandi ríkisstjórnar séu í ósamræmi við sjónarmið Sjálfstæðisflokksins og efli áhrif þeirra, sem andvígastir eru þeim sjónarmiðum. Þetta hefur leitt til þess, að æ meir hefur þrengt að atvinnuvegum landsins og að atvinnurekstur einstakl- inga og félaga þeirra á hvarvetna í vök að verjast. Jafnframt hefur verið látið undir höfuð leggjast að marka og fram- fylgja stefnu í orku- og iðnaðarmálum, sem orðið gæti grundvöllur að atvinnu og framförum á komandi árum. Ekkert það hefur verið aðhafst gegn verðbólgunni, sem áhrif hefur nema skamma hríð, enda fer hún nú vaxandi á ný. Verðlags- höft hafa grafið undan fjárhag fyrir- tækja og stofnana, rýrt sjálfstæði þeirra og í reynd haft öfug áhrif við tilganginn. Stefnt hefur verið áratugi aftur í tímann með fjölgengi og millifærslum milli at- vinnugreina. Háum sköttum hefur verið við haldið, erlendar lántökur hafa farið sívaxandi og meðal annars komið í stað innlendrar skuldasöfnunar ríkissjóðs og ríkisstofnana. Dregið hefur verið úr að- stöðu einstaklinga til að eignast eigið húsnæði og umráð þeirra yfir eignum sínum takmörkuð. Umsvif ríkisins og af- skipti hafa enn verið aukin. Tvíbent af- staða ríkisstjórnarinnar í varnarmálum og frestun mikilvægra framkvæmda á þeim vettvangi stefnir öryggi landsins í hættu. Fundurinn lýsir því yfir eindreginni- andstöðu ^við ríkisstjórnina. Stefna stjórnarinnar og framkvæmd hennar er bersýnilega ekki í samræmi við grund- vallarhugsjónir ráðherra úr röðum sjálfstæðismanna. Fundurinn skorar á þessa ráðherra að ganga úr ríkisstjórn- inni og þá þingmenn flokksins, sem stutt hafa hana, að láta af þeim stuðningi. Sjálfstæðisflokkurinn getur þá einhuga og sameinaður staðið að nýrri stjórn- armyndun á grundvelli stefnu sinnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.