Morgunblaðið - 05.07.1979, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 5. JÚLÍ 1979
39
ekki vilja haía þeirra eigið trúar-
legt asklok fyrir sinn himin.
Annars tel ég minningu míns
góða læriföður og vinar misboðið
með því að deila frekar um hann
við G.G. En segja vil ég að lokum
um Asmund biskup hið sama og
sagt var um ísleif biskup Gissur-
arson, að „æ kemur mér hann í
hug, er ég heyri góðs manns
getið“.
Hundalógík
Anselmusar
Þá þykir mér týra á skarinu
þegar G.G. þykist hafa búið til
sína eigin friðþægingarkenningu!
En af því að svo vill til, að hún
kemur alveg heim við hina hlut-
lægu friðþægingarkenningu, sem
kennd er við miðalda-skólaspek-
inginn Anselmus frá Kantaraborg
(1033—1109), þá ætla ég að gefa
svolítið yfirlit yfir kenningu hins
síðarnefnda.
Jón biskup Helgason segir í
Kristnisögu sinni, að í höfuðriti
Anselmusar: „Hvers vegna Guð
gjörðist maður", sé oss gefinn í
megindráttum friðþægingarlær-
dómurinn, eins og hann hefir verið
drottnandi innan kirkjunnar allt
til vorra daga.
í Sögu kristinnar kirkju segir
Magnús Jónsson röksemdafærslu
Anselmusar vera á þessa leið:
„Guð hefir skapað manninn til
þess að fylla upp í skarðið eftir
föllnu englana. En syndin hefir
gert þessa fyrirætlun að engu. Nú
raskast engar fyrirætlanir Guðs,
og því þurfti hér úr að bæta. En
syndin hefir komið manninum í
óendanlega skuld við Guð, því að
brot gegn óendanlegri veru er
óendanlega mikið. Þessa skuld
getur maðurinn aldrei borgað,
bæði af því að hún er óendanleg,
en öll manna verk endanleg, og af
því, að maður sem breytti alveg
rétt, gerði ekkert annað en það
sem hann er skyldugur til. Guð
getur á hinn bóginn ekki gefið upp
skuldina vegna eilífs réttlætis
síns. Þar verður að koma refsing
eða fullnægjugjörð. Refsing
myndi gjöreyða mannkyninu, og
þá næðist ekki tilgangurinn með
sköpun mannsins. Hér verður því
að koma fullnægjugjöj-ð. Hún
verður að vera óendanleg, þ.e. á
einskis færi nema Guðs sjálfs. En
hún verður á hinn bóginn að koma
frá manninum, sem skuldaði. Þess
vegna er ályktunin: Enginn á að
borga nema maðurinn. Enginn
getur borgað nema Guð. Þess
vegna varð Guð að gjörast maður.
Og guðmaðurinn varð að deyja,
því að með fullkomnu líferni sínu
gjörði hann ekkert annað en það,
sem hann var skyldugur til. En
þar sem dauðinn er laun syndar-
innar, átti hann ekki að deyja.
Dauði hans er því borgun og hún
óendanleg, og hún tilreiknast svo
mönnunum".
Það má segja, að Guð sé latinn
fara þarna í gegnum sjálfan sig,
eins og æfður fimleikamaður á slá.
Ef nokkuð er til, sem kalla mætti
„hundalógík", þá er það þessi
röksemdaleiðsla Anselmusar. Og
verði þeim að góðu, sem við henni
vilja taka athugasemdalaust.
En Jón biskup hefir þetta að
segja: „Ekki þarf annað en lesa
dæmisögur Jesú um glataða son-
inn og skulduga þjóninn til þess að
sannfærast um, hve langt er hér
komið frá fagnaðarerindi Jesú,
þegar kennt er, að hátign Guðs og
hegnandi réttlæti setji föðurkær-
leika hans takmörk, svo að Guð
geti ekki fyrirgefið nema móðgun-
arbætur hafi áður verið greiddar.
I kenningu Anselmusar gætir
miklu minna kærleikshugsjónar
Jesú, eins og vér eigum hana í
samstofna’-guðspjöllunum, en
germanskra réttarhugmynda mið-
aldanna. bar ber meira á réttlát-
um Jahve gyðingdómsins en á
gæzkurfkum föður drottins vors
Jesú Krists“. (Kristnisaga II, bls.
215)
Hreinskilni í
trúarefnum
„Ég legg ekkert upp úr því,
hvernig mér eða sr. Bjartmari
geðjast að þessari kenningu eða
öðrum", segir Guðvin Gunnlaugs-
son. Eru það harla einkennileg
orð. Hvernig getur maður fylgt
eða haldið fram einhverju því, sem
maður er ekki sáttur við í hjarta
sínu? Ég get það að minnsta kosti
ekki, þó að G.G. finnist ekkert
annað en sjálfsagt að gjöra slíkt
þegar honum býður svo við að
horfa. En ég er samþykkur siðbót-
arhöfundinum, sem taldi „hvorki
rétt né ráðlegt að breyta á móti
samvizku sinni". Ekki man ég
heldur betur en Jesús kallaði þá
menn hræsnara, sem létust vera
annað en þeir voru í raun og veru.
Og orðið hræsnari var ekkert
gæluorð í hans munni.
Viðmælanda mínum væri að
sönnu nokkur vorkunn með þessa
afstöðu sína til samvizkunnar, ef
hann hefði upp á vasann öruggt
vottorð frá Guði sjálfum um það,
að viðkomandi kenning væri frá
sér komin og alveg eftir sínu
höfði. En nú dreg ég það algjör-
lega í efa, að hann hafi slíkt
vottorð. G.G. kýs því þann kostinn
að játa hugsunarlaust einhverja
samsuðu misviturra manna á fyrri
tíð, af því að hann heldur það
sáluhjálparatriði að gera svo, en
forsmáir þá greind, sem Guð hefir
gefið honum til þess að hugsa
málið sjálfur. Og þó talar hann
um, að Guð hafi gefið mönnunum
skynsemi til þess að meta rétt þá
hluti, sem munur er á!
Hreinskilni við sjálfan sig og
aðra er gulis ígildi ekki síður í
trúarefnum en á öðrum sviðum.
Svo verður sannleikanum bezt
þjónað og honum, sem er konung-
ur í rfki sannleikans.
Séra Sigurður
Séra Sigurður Einarsson er einn
þeirra, sem G.G. teflir fram
málstað sínum til trausts og
halds.
Séra Sigurður var kennari minn
í guðfræðideild, og ber ég alltaf
hlýjan hug til hans, eins og allra
kennara minna í deildinni. Ekki
get ég þó neitað því, að trúfræðin
sem hann bar á borð fyrir okkur,
væri „eins og bögglað roð fyrir
brjósti mínu“. Séra Sigurður var
gáfumaður og tilfinninganæmur.
Hann gat verið skemmtilegur með
afbrigðum og orðsins list lék
honum á tungu. En þrátt fyrir
þetta má segja, að röksemdaleiðsl-
an í trúfræðinni væri ekki að
sama skapi sannfærandi á stund-
um. Og svo óheppilega vill til, að í
orðum þeim sem G.G. tekur upp úr
bók hans um Kristna trú og
höfund hennar, er sr. Sigurður allt
í einu kominn inn í heim tvíveld-
■shyggju (Dualisma), sem meir
hefir verið kennd við Zoroaster en
Krist. En það skiptir G.G. auðvit-
að engu máli. Hann er hvort sem
er með annan fótinn í Gyðing-
dómi, og þó að hinn fóturinn
sleppi þá annað slagið yfir í
forn-persneskan átrúnað, breytir
það ekki svo miklu.
Helvítistal
Jesú Krists
En þetta er að skapi Guðvins
Gunnlaugssonar, að Satan sé
gerður að eins konar jafningja
Guðs almáttugs. Og segir hann, að
„enginn tali meira um helvíti en
Jesús Kristur sjálfur".
Einhvern veginn kannast ég
ekki við, að þetta geti verið rétt
hjá manninum. Ég neita því ekki,
að Jesús hafi minnzt á helvíti og
forstjórann þar. En að honum hafi
verið þetta eins kært umtalsefni
og G.G. vill vera láta, það er hinn
mesti misskilningur, eins og hver
og einn getur sannfært sig um.
Markúsarguðspjall, sem talin er
traustasta heimildin, nefnir að-
eins eitt tilfelli um þetta, þar sem
Jesús talar um hneykslanir (Mark.
9.43—47). Sama er að segja um
Lúkas, en fáeinir staðir í Matth. I
Jóhannesarguðspjalli er helvíti
ekki nefnt á nafn. Svipaða sögu er
að segja um tal Jesú um „hinn
vonda“.
Mér sýnist því, að Jesús tali eins
lítið um þessa hluti og hann kemst
af með. En þarna er enn eitt
dæmið um það, að menn sjá það
eitt sem þeir vilja sjá. Greinilega
væri G.G. það kærast, að Jesús
hefði verið sítalandi um helvíti og
eilífa fordæmingu. En þannig var
það nú ekki, því að hann hafði um
svo margt fegurra og betra að
tala.
Dómur
Mannssonarins
Viðmælandi minn telur mér
hafa „orðið á í messunni", er ég
vitnaði í orð Mannssonarins á
efsta degi. (Matth. 25). En ég vissi
vel, hvað ég sagði. Og aldrei hefi
ég reynt að láta svo, að það sem
skrifað stendur í hinni helgu bók,
væri þar ekki skrifað. Hins vegar
hefi ég minn skilning á Orðinu. Að
hætta á glötun sé fyrir hendi, hefi
ég aldrei dregið í efa. En saga
Glataða sonarins endaði þó þann-
ig, að hann kom aftur heim til
föðurhúsanna.
En við vorum að tala um „eilífa
glötun", í merkingunni, endalausa
og óafturkallanlega glötun, sem er
annað mál. Og þeirri kenningu
mótmælti ég, og geri enn.
Mannssonurinn talar í Matth.
25 um „eilífa eldinn". Það gefur
enga heimild til að álykta sem svo,
að þeir sem þangað kunni að
lenda, séu dæmdir til að vera þar
endalaust. En það var þetta, sem
ég vildi vekja athygli viðmæi-
anda míns á: Mannssonurinn
nefnir, í dómi sínum. ekki eitt
einsta þeirra atriða, sem G.G.
telur „höfuðatriði kristninnar“.
Hvernig getur það, sem ekki
kemur til orða á degi dómsins
verið slík „höfuðatriði", sem
hann vill vera láta?
En ég sé, að G.G. hefir ekki
skilið, hvað ég var að segja. Og er
honum það ef til vill fyrir beztu!
Hann getur þá haldið áfram að
elska margnefnd „höfuðatriði" sín,
sem þó Mannssonurinn á dóms-
degi virðist ekki hafa hugmynd
um, og hafði það ekki heldur á
meðan hann gekk hér um kring á
jörðu og gjörði gott.
Þar rekur sig hvað
á annars horn
Svo má með sanni segja um
skrif G.G. Hann segist t.d. „aðeins
trúa á Jesúm Krist, krossfestan og
upprisinn frelsara". Og þetta held-
ur hann sjálfsagt. En svo er það
deginum ljósara, að alls konar
kerlingabækur eru honum engu
síður kærar en það, sem Kristur
kenndi og bauð, að ekki sé meira
sagt. Því að ella hefði hann ekki
talið það til höfuðatriða kristninn-
ar, sem Kristur hvorki minntist á
né hafði hugmynd um.
Þá segir G.G. í öðru orðinu, að
grundvöllurinn sé Kristur, en í
hinu, að Biblían sé grundvöllur-
inn. Eru þá grundvellirnir orðnir
tveir? „Aumingja Páll“ vissi eng-
an annan grundvöll en þennan
eina, sem er Kristur. Og hann tók
svo stórt upp í sig , að annan
grundvöll gæti enginn lagt. En nú
hefir G.G. sem sagt lagt annan
grundvöll. Og þá veit maður það.
Greinarhöfundur brenglar sam-
an tvenns konar merkingu í orðinu
„trú“. Hann virðist ekki gera
greinarmun á guðstrú og hinu, „að
leggja trúnað á“ eitthvað. Þess
vegna villist hann líka út á þá
braut að telja trúnað við kirkju-
kenningarnar hinn eina sanna
kristindóm.
„Sumir vilja hafa Guð svo
lítinn, að hann sé lítið meira en
þeir sjálfir", segir G.G. En þó
ætlar hann Guði sínum, það sem
hann mundi ekki vilja gera sjálf-
ur. Ég veit, að Guðvin er það
góðmenni, að hann mundi engan
vilja dæma til eilífrar útskúfunar.
A.m.k. segir hann að það valdi sér
sársauka að hugsa til þess, að
sumir verði að lifa um eilífð fjarri
Guði. En hann minnist þó ekki á,
að Guði muni þykja þetta neitt
miður. Og af því að hann sér enga
leið til frelsunar þessum vesa-
lingum, telur hann vfst að Guð
almáttugur sjái það ekki heldur!
Þá sýnist munurinn á Guði og
Guðvini ekki svo ýkja mikill, þar
sem sá síðarnefndi veit upp á hár,
hvaða leiðir Guði eru færar, og
hverjar ekki færar til frelsunar
syndugum mönnum. En G.G. segir
að það hafi engin önnur leið til
verið en sú, sem áðurnefnd frið-
þægingarkenning útlistar svo fag-
urlega. En eftir þeirri kenningu
virðist freisunin fólgin f þvf að
losna við syndagjöldin en ekki
hinu, að þroskast að vizku og
vexti og náð hjá Guði og mönn-
um.
Páll hélt, að keppikeflið væri það
að losna undan valdi syndarinnar
og verða Kristi líkur. „Ef þér hafið
ekki anda Krists, þá eruð þér ekki
hans“, voru orð postulans. Og hver
vill neita því, að þetta sé rétti
mælikvarðinn á kristindóm vorn?
Eiðrof prestanna
í Vísisgrein sinni bregur G.G.
prestum um það, „allmörgum"
þeirra, að þeir „rjúfi þann eið, sem
þeir hafa gefið, er þeir voru vígðir
til embættis".
Það verður ekki sagt um grein-
arhöfund, að hann skeri ásakan-
irnar á hendur prestum við neglur
sér. En ætla mætti, að menn segi
ekki svona um bræður sína í
Kristi, að raunalausu. En í hverju
eru svo þessi „eiðrof" fólgin? Þau
eru fólgin í því, sem komið hefir
fram í þessum umræðum, að
„allmargir“ prestar hafa ekki talið
sér skylt að beygja kné sín fyrir
úreltum kirkjukenningum.
En svo er kannski rétt að geta
þess, áður en lengra er haldið, að
það er engin prestaeiður til. Og
þetta hefði G.G. átt að kynna sér
áður en hann reiddi refsivöndinn á
loft. Prestaeiðurinn var afnuminn
1888. Prestaheit kom í staðinn, en
með handbókinni frá 1910 var það
líka afnumið. Það er nú látið
nægja, að biskup brýni fyrir
vígsluþega, að hann „prédiki Guðs
orð hreint og ómengað, eins og það
er að finna í hinum spámannlegu
og postullegU ritum, og í anda
vorrar evangelísku lútersku
kirkju". Þetta er það sem snertir
kenninguna. í lokin spyr biskup,
hvort vígsluþegi „lofi því í einlægu
hjarta, að gjöra þetta eftir því,
sem Guð gefur honum náð til“.
Jáyrði vígsluþegans er hvorki
eiður né heit, heldur viljayfirlýs-
ing.
Eins og sjá má, er vígsluformáli
þess mjög rúmur, hvað kenning-
una snertir og þýðir í rauninni
það, að kenningarfrelsi er viður-
kennt innan þjóðkirkjunnar.
Vígsluþegi lofar því einu, að
prédika Guðs orðið eftir beztu
vitund. Annars er heldur ekki
rétt eða ráðlegt að krefjast af
honum.
Svolítið um nátt-
tröllin og fleira
Mótsagnakennt er það, eins og
fleira hjá margnefndum greinar-
höfundi, að hann skuli kalla:
„nátttröll, sem dagað hafa uppi í
kirkjunni", þá, sem hann segir þó
fylgja miklu yngri guðfræðistefnu
en sjálfur hann gerir. Og í skrifi
sínu vitnar hann með velþóknun í
orð eins og þessi. „Þannig er í
stuttu máli heimsmynd kristinnar
trúar, gamaldags og einföld, eins
og hún hefir verið alla þá stund,
sem liðin er síðan Jesús Kristur
umgekkst hér á jörðinni. Og hún á
að vera það“.
Heimsmynd kristinnar trúar á
því að vera „gamaldags“, að mér
skilst. Nú hefi ég alltaf álitið, að
nátttröllin hafi einmitt verið gam-
aldags en ekki nýtízkuleg! Það
væri því miklu eðlilegra að hugsa
sér, að G.G. væri þarna að tala um
sjálfan sig og sína trúbræður og
systur. Því að óheppnari og slysa-
legri gat hann ekki verið í þessum
samlíkingum sinum.
En manni bregður svo sem
ekkert við, þótt vart verði hug-
takaruglings og hugtakafölsunar
nú á tímum. Svo algengt er þetta
orðið. Einræðisríkin skreyta sig
með nöfnunum „lýðveldi" og „al-
þýðulýðveldi". Og þeir sem mestir
eru „heimsvaldasinnarnir" sjálfir,
nota það heiti óspart um óvini
sína. Svipað þessu gerist á trú-
málasviðinu hérna hjá okkur.
Seytjándualdar-menn kalla and-
stæðinga sína „nátttröll" og grall-
arasinnar tala hneykslaðir um
„trúmálaafturhald", og svo fram-
vegis. Er þetta í senn broslegt og
raunalegt.
Ekki veit ég svo gjörla hvað
G.G. er að fara þegar hann segir,
að „margir þessara presta hafi
e.t.v. aldrei ætlað sér að verða
prestar, heldur tekið þetta sem
hverja aðra atvinnu, af því að það
þurfti styttra háskólanám til þess
en margra annarra greina".
Munurinn á lengd námsins,
miðað við ýmislegt annað nám, er
ekki svo mikill að það geti hafa
skipt sköpum. Og sé hugsað um
„atvinnuna", þá hefir margt annað
þótt ábatavænlegra um dagana en
prestsstarfið. Manni sýnist það
vera orðið flest, sem G.G^finnur
„þessum prestum" til foráttu, og
iengu líkara en að upp sé risinn nýr
„prestahatari" á meðal vor. Rétt
er það, að margir eru sjálfsagt
kallaðir, en fáir útvaldir í þessari
stétt. En mundi það ekki einnig
geta átt við um fleiri, sem gegna
ábyrgðarstöðum? Mér er næst að
halda, að Guðvin Gunnlaugsson
hafi langað til þess að verða
prestur, og því brenni honum í
brjósti þessi meinlega gremja til
prestanna, þótt ómakleg sé.
En eins og í Völuspá segir,
kemur sú tíð, að „böls mun alls
batna" og „gullnar töflur aftur í
grasi finnast". Svo sér nú líka
G.G. fram á það, að upp muni
renna betri tímar, því að „nátt-
tröll" í prestastétt séu nú mjög á
förum. Og þakkar hann biskupi og
„ýmsum kennurum guðfræðideild-
ar“ þá heillaþróun.
Ég er bjartsýnn á framtíð
kristninnar í landinu, eins og
Guðvin, þó að óskir okkar um
framvinduna muni ekki falla í
sama farveg. Og vissulega má alls
góðs vænta af hinni ungu presta-
kynslóð, og hið sama af kennurum
guðfræðideildar, sem ég veit að
leggja kapp á það eitt að leita
sannleikans. Og um biskup vorn,
herra Sigurbjörn Einarsson, vil ég
segja þetta: Ég er þess fullviss, að
hann vill ljós yfir land — en ekki
myrkur.
Hvað er
kristindómur?
Það verður auðvitað aldrei gefið
fullkomið og endanlegt svar við
þeirri spurningu. Og eðlilega
hljóta svörin að verða á misjafna
lund. En dálítið kaldhæðnislegt er
það, þegar „höfuðatriði" kristin-
dómsins eru komin út fyrir flest
það, sem Jesús Kristur kenndi og
bauð.
Við höfum kynnzt því rækilega,
hvað Guðvin Gunnlaugsson telur
— ekki aðeins kristindóm —
heldur „höfuðatriði kristninnar“.
En nú langar mig að heyra fleiri
raddir um þetta að lokum. Er
sannast að segja orðinn hálf-
þreyttur á guðfræði G.G. og skoð-
unum hans á kristindóminum. Og
nú sný ég mér til skáldanna og
spyr fyrst séra Kai Munk, hvað
hann haldi í þessum efnum: „ó,
hvað er kristindómur? Einungis
það. að hafa öðlazt traust á Guði
— traust fyrir Krist. Hann er
engan veginn það, að mælt sé fyrir
vegum Guðs og þeim lýst, eða skrá
afhent um eiginleik^v hans og
einkenni, heldur er kristindómur-
inn leyfi til að treysta því örugg-
iega, að Guð sé veruleiki og
breytist aldrei. heldur hafi alia
þraeði í hendi sér. Já, það er þetta
traust, sem er nógu voldugt til
þess að þurfa hvorki að vita né
skilja. Það getur sagt í sömu
andrá: „Guð minn, Guð minn, hví
hefir þú yfirgefið mig?“ og þegar á
eftir:. „Faðir, í þínar hendur fel ég
anda minn“.
Skáldið Stephan G. Stephans-
son gefur megininntak fagnaðar-
boðskaþar Jesú í þessum tveimur
ljóðlínum:
„Hann kenndi að mannást heit
og hrein
til himins væri leiðin ein“.
Svör þessara tveggja andans
manna eru náskyld, þótt ólík
virðist vera. En samanlögð segja
þau hið sama og felst í boðorðinu.
sem Jesús Kristur sagði æðst
þeirra boðorða, sem vörðuðu veg-
inn til lífsins.
Svo sendi ég Guðvini Gunn-
laugssyni, og öllum sem þessi orð
sjá, beztu sumarkveðju.
30. apríl 1979.
Bjartmar Kristjánsson.