Morgunblaðið - 17.06.1980, Qupperneq 16
16
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 17. JÚNÍ1980
Stan
Getz í
Laug-
ardals-
höll
ÞAÐ var ósvikinn jazz,
sem fyllti Laugardalshöll-
ina á laugardagskvöliö, er
Stan Getz og félagar
þeyttu hljóðfæri sín áheyr-
endum til óblandinnar
ánægju.
Stan spilaði sjálfur á
tenór- og barritónsaxó-
fóna, en aðrir í hljómsveit-
inni voru Andy Laverne,
33ja ára, sem spilaði á
hljómhorð og píanó, Chuck
Loeb, sem spilaði á gítar,
25 ára, Brian Bromberg,
sem spilaði á bassa og
bassagítar, tvítugur og
Mike Ifyman, sem spilaði á
trommur, 21 árs.
Meirihluti laganna, sem
þeir félagar spiluðu, voru
frumsamin af þeim Loeb og
Laverne, en inn á milli komu
síðan klassísk og þekkt jazz-
lög.
Fyrsta lagið eftir hlé var
Dessafinato, lagið sem gerði
Stan Getz á síðari hluta 7.
áratugsins heimsfrægan í
poppheiminum, því að þetta
var lagið, sem fleytti honum
upp í efsta sæti vinsældalist-
ans í Bandaríkjunum. Þetta
hefur engum öðrum jazzleik-
ara tekizt, hvorki fyrr né
síðar.
Þess má geta, að sjónvarpið
tók upp alla hljómleikana, svo
að sjónvarpsáheyrendur
munu fá að sjá og heyra þá
síðar.
Kvintett Stan Getz á sviðinu i Laugardalshöll, frá vinstri Laverne við píanóið, Stan með tenórsaxófóninn Bromberg með bassann, Hyman við
trommurnar og Loeb með gitarinn. Ljósm: Kristinn
Birgir ísl. Gunnarsson skrifar:
Með Stan Getz í Laugardalshöllinni
Fyrir jazzáhugamenn voru
tónleikar Stan Getz í Laugar-
dalshöllinni sl. laugardagskvöld
vafalaust hápunktur Listahátíð-
ar. Rúmlega 2000 manns hlýddu
á tenór-saxófónsnillinginn blása
með góðri aðstoð manna sinna.
Fögnuðurinn var mikill — og
ekki að ástæðulausu.
Stan Getz er 53 ára gamall og
hefur verið atvinnumaður í
saxófónleik síðan hann var 15
ára. Auk frábærrar tækni hefur
hann ekki sízt vakið athygli fyrir
hinn mjúka hreina tón, sem er
svo persónulegur að hann er
hvarvetna auðþekktur og enginn
tenórsaxófónleikari annar getur
leikið eftir.
Undanfarin ár hefur Stan
Getz gert mikið af því að safna
um sig ungum tónlistarmönnum
með nýjar og ferskar hugmynd-
ir. Svo er einnig að þessu sinni,
en kvintett hans skipa kornungir
menn, sem þó hafa allir þegar
náð langt í list sinni. Ekki fór á
milli mála að hér var um há-
menntaða tónlistarmenn að
ræða, sem auk þess að kunna sitt
fag, hafa þann neista, sem gerir
þá að góðum jazzleikurum.
Elztur meðleikaranna, eða
„The old man“ eins og Stan Getz
kynnti hann, er píanóleikarinn
Andy La Verne, 31 árs að aldri.
Hann hefur allsérstæðan stíl og
er greinilega undir áhrifum ým-
issa meistara klassískrar tón-
listar. Hann semur einnig og
flutti kvintettinn tvö af lögum
hans.
Tveir þeirra félaga eru undir
tvítugu, trommuleikarinn Mike
Hyman (18 ára), sem sýndi góð
tilþrif og bassaleikarinn Brian
Bromberg (19 ára), sem er
greinilega mjög efnilegur, hefur
mikla tækni og var skemmtileg-
ur í sólónum.
Þá er enn ótalinn gítarleikar-
inn Chuck Loeb, sein auk þess að
vera frábær gítarleikari, er
ágætis tónskáld, en þeir félagar
fluttu fjögur verk eftir hann.
Hann er 25 ára gamall.
Stan Getz og félagar opnuðu
hljómleikana með kraftmiklu
lagi eftir píanóleikarann Andy
La Verne. Þá strax kom í ljós, að
Stan Getz er kraftmeiri blásari
en menn e.t.v. hafa ímyndað sér,
ekki sízt miðað við ýmsar eldri
plötur hans. Tónninn er sá sami,
en stíllinn annar en var. Ljúft og
fallegt lag eftir gítarleikarann
Chuck Loeb fylgdi á eftir. í
báðum þessum lögum fengu
tónskáldin að spreyta sig og
fengu menn góðan forsmekk að
því, sem síðar varð.
Því næst kom gamalt og gott
lag „Autumn leaves", þá aftur
lag eftir gítarleikarann og þá
var komið að fallegri ballöðu,
sem eru uppáhaldsverkefni
flestra tenórsaxófónleikara. Það
var lagið „No more“, fimmtíu
ára gamalt lag, sem Billy Holi-
day söng á sínum tíma. Siðasta
lagið fyrir hlé var enn eitt verk
eftir gítarleikarann Chuck Loeb.
í því var mikill kraftur og tækni.
Tvíleikur þeirra Stan Getz og
Loeb í lok lagsins var frábær og
þar með lauk fyrri hluta tónleik-
anna í mikilli stemmningu.
Fyrst eftir hlé fengum við
upprifjun frá „bossa nova“-tíma-
bilinu, en Stan Getz átti mikinn
þátt í að gera þessa brasilísku
tónlist vinsæla á Vesturlöndum
upp úr 1960. Nú lék hann án hlés
tvö lög eftir Antonio Carlos
Jobim, hið fræga Desafinado og
Chega de Saudade. Ekki fór á
milli mála að þetta var öðruvísi
„bossa nova“ en Stan lék hér
áður fyrr, ekki eins ljúft og
seiðandi, heldur kraftmeira og
ákveðnara.
Nú var aftur komið að píanó-
leikaranum Andy La Verne og
fluttu þeir félagar fallegt verk
eftir hann, þar sem góður píanó-
leikur tónskáldsins naut sín vel.
Þá kom falleg ballaða, að þessu
sinni eftir Billy Strayhorn, sem
mikið vann með Duke Ellington
á sínum tíma. Hinn tæri og
mjúki tónn Stan Getz naut sín
vel í þessu lagi, en þó svellur
skapið undir niðri.
Þá var komið að lokalaginu og
var það enn eitt verk eftir
gítarleikarann Chuck Loeb.
Þarna fóru allir fimmmenning-
arnir á kostum og hver um sig
fékk að láta gamminn geisa í
löngum sólóum. Það notuðu þeir
sér óspart og sýndu, að allt eru
þetta mjög góðir listamenn.
Ekki sízt var Loeb frábær í
þessu verki.
Ekki fengu þeir að yfirgefa
sviðið strax. Fagnaðarlæti voru
mikil og tvö aukalög voru leikin.
Hið síðara enn ein ballaðan. Að
þessu sinni lagið „Infant Eyes“
eftir tenórsaxófónleikarann
Wayne Shorter, en það er meðal
þeirra laga, sem eru á 50 ára
afmælisplötu Stan Getz, en á
afmælisdaginn voru teknir upp
tónleikar í Montmartre-klúbbn-
um í Kaupmannahöfn og gefnir
út á tveggja plötu albúmi. Það er
nokkuð táknrænt fyrir Stan
Getz að píanóleikarinn Andy La
Verne „fékk“ að enda tónleikana
með einleik, þar sem hann lék af
mikilli tilfinningu og var frábær
í túlkun sinni. Stan Getz vill
greinilega leyfa ungu mönnun-
um, sem með honum eru að njóta
sín. Sjálfur uppsker hann þann
árangur að vera í stöðugri
endurnýjun. Stíll og efnisval
breytist í takt við nýja tíma í
jazz-tónlistinni, sem ungir menn
eru boðberar fyrir.
Fyrsta platan, sem ég eignað-
ist með Stan Getz var 78 snún-
inga plata árið 1953 (upptaka
1950) með eigin kvartett. Nokkr-
um árum seinna eða 1958 hlust-
aði ég á hann á tónleikum í
Gautaborg með Jazz at The
Philharmonic, flokki Norman
Granz.
Það var allt öðruvísi Stan
Getz, sem við hlýddum á í
Höllinni sl. laugardagskvöld.
Hann er kraftmeiri og ákveðnari
nú, en hinn mjúki og þýði tónn
er samur við sig. Hvort hann er
betri nú eða þá — það er annað
mál. Ég held að allir hafi farið
ánægðir út í bjarta júní-nóttina
að tónleikunum loknum.