Morgunblaðið - 13.12.1987, Blaðsíða 64
64 C
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. DESEMBER 1987
Skáldið Leopardi
eftirSvein Einarsson
Löngum var mér ásinn kær, einn og ber,
og limgerðið, sem felur auga mínu svo
mikið af sjóndeildinni. Sit hér og horfi -
velti fyrir mér, hvað sé fyrir handan:
takmarkaleysi, upphafin þögn,. og kyrrð
dýpri en önnur kyrrð, því um stund
þekkir hjartað ekki ótta. Og sem vindurinn
gnauðar í krónum tijánna ber ég saman
rödd hans og þessa endalausu ró, og eilífðin
kemur yfir mig á ný, árstíðir, sem féllu
í valinn, og andrá dagsins, lifandi og hávær.
Þannig drukknar hugsun mín í ómælinu;
ljúft er skipbrot mitt í þessu hafi.
(Sveinn Einarsson þýddi)
Spakur maður veitti því eftirtekt, að
ekkert er dauðara en dauður leikari, en
skáldið lifir, þvi að ljóðið lifír fyrir hann
og hann í því. Nýlega hlotnaðist þeim, sem
hér heldur á penna, sá heiður að vera við-
staddur þar sem haldið var upp á það, að
á þessu ári eru liðin 150 ár frá því að
ítalska skáldið Giacomo Leopardi lést.
Þetta gaf að sjálfsögðu tilefni til að rifja
upp, hvenær hann hefði fæðst og hvemig
lifað. Satt að segja vildi ég búa mig vel
undir þennan atburð, þar sem ég þykist
hafa orðið þess var, að ýmsar þjóðir, sem
ekki eru þó stöðugt að staglast á því að
þær séu bókmenntaþjóðir, gera oftlega
meira stáss með sína andans menn en
okkur íslendingum þykir taka því.
Ég tók mig því til og sló upp í gömlum
kennslubókum og þar var auðvitað Leop-
ardi á sínum stað. En svo langaði mig til
að tengja hann íslandi, koma kannski í
nokkrum orðum inn á áhrif hans á íslensk
skáld og íslenskan skáldskap — ég tala
nú ekki um, ef svo vel vildi til að hann
hefði orðið fyrir áhrifum frá okkar menn-
ingarheimi — til dæmis fomum norrænum
kveðskap. Til glöggvunar skal þess þegar
getið, að enginn virðist velkjast í vafa um
stöðu Leopardis í ítalskri bókmenntasögu;
í uppsláttarritum um bókmenntir er hann
talinn í röðinni á eftir þeim klassísku skáld-
um Dante, Petrarca og Tasso; sumir
fullyrða meira að segja, að ekkert skáld
ítalskt sé eða hafí verið ástsælla með þjóð
sinni.
Leopardi var fæddur í smábænum Rec-
anati í Marche-héraði við Adríahafsstrond
1798. Recanati stendur þó uppi í hlíðum
Appenninafyalla og þaðan er um klukku-
tíma akstur til hafnarborgarinnar Ancona,
sem er mun stærri, rúmlega á stærð við
Reykjavík. Leopardi var af aðalsættum
og enn stendur í Recanati hús það, þar
sem hann fæddist og ólst upp — og á ís-
landi hefðum við nú kallað slíkt hús höll.
Ekki leið hann skort, hafði nóg að bíta
og brenna, en hamingjan er sem kunnugt
er afstæð í duttlungum sínum: til þess var
tekið, hvað pilti leið oft illa, átti erfítt með
að umgangast fólk, var yfírmáta viðkvæm-
ur fyrir hveiju eina jafnt atburðum sem
því áþreifanlega. Á gelgjuskeiðinu keyrði
þó úr hófi, þannig að hann nánast grúfði
sig yfir bækur árum saman og því kennt
um, að hann rétti aldrei úr kútnum fram-
ar í nokkuð bókstaflegum skilningi og
sumir kölluðu hann kroppinbak. Alla ævi
lifði hann þama í skjóli fyölskyldunnar og
kom þá sér vel að þurfa ekki að hafa
áhyggjur af daglegu brauði, því að brátt
lagðist hann í skriftir og skáldskap og það
hefði varla gefið mikið í aðra hönd þá,
fremur en nú — þetta er á dögum Jónasar
Hallgrímssonar — þó að útgáfa bóka hans
í dag gefi fjölskyldunni reyndar allnokkrar
tekjur, og komið hafi verið á fót í næsta
húsi heilu safni með vinnuaðstöðu fyrir
þá sem vilja kynna sér verk Leopardis og
kynna öðrum þau. (Af þessu dæmi geta
klókir menn dregi nokkra lærdóma.)
Það er mál manna, að Leopardi hafi
sjaldan verið kátur og sumir vilja kalla
hann klökkvaskáld. Það hentaði nú reynd-
ar rómantísku stefnunni harla vel — og
til þeirrar stefnu verður hann að teljast
eins og Jónas; hann dó ungur eins og
Jónas — það fellur líka inn í hina ró-
mantísku skáldmynd — og svo er þama
ástartregi, sem líka á við. Reyndar hafa
ævisöguritarar og aðrar vondar tungur
verið að gera því skóna, að Leopardi hafi
aldrei verið við kvenmann kenndur — utan
einu sinni — kona sem átti fjóra elskhuga
fyrir, en aðhylltist tilbreytingu, bætti hon-
um í safnið og gerði hann að fimmta
elskhuga sínum um skeið; kannski er þetta
þvaður eitt.
Öllu nær væri að hnýsast í ljóðin.
Klökkvaskáld. Já, kannski, en svo ofur-
næmur að uppljúkast nýjar kenndir og
nýjar sýnir. Hið sjónræna er einmitt veig-
amikið einkenni á skáldskap hans,
samkenndin við náttúmna. Enn kemur
manni Jónas í hug og nú er það af því,
hve andstæðumar em skýrar: dagsbirtan
hjá Jónasi, tunglsbirtan hjá Leopardi, ann-
ar gengur náttúmnni á hönd í jákvæðri
heiðríkju bóndans, sem á þó allt sitt undir
þessari náttúm og hringrás hennar; hinn
með þeirri vitrænu fjarlægð, sem gefur
línu og litum háspekilegt innihald.
Skyldi Jónas hafa þekkt Leopardi, eða
Bjami? Það er freistandi að geta sér þess
til, að Jónas hafi fyrstur manna á íslandi
tekið sér nafn Leopardis í munn. Fæddur
var Jónas níu ámm á eftir sinum ítalska
skáldbróður og átta ámm eftir að Leop-
ardi var allur, var Jónas einnig kominn
undir torfuna, sem ljárinn kyssir. Þetta
er því ekki óhugsandi, en hvergi get ég
séð, að hann minnist Leopardis í bréfum
sínum; ekkert hefur hann þýtt eftir hann
og snaraði þó ýmsu, svosem alkunna er,
einkum þýskum skáldskap.
Þegar ég var að ferðbúast til Ítalíu,
reyndi ég semsé að hafa upp á þýðingum
á íslensku á ljóðum þessa eins af höfuð-
skáldum Evrópu. Ég fletti ljóðabókum
nítjándualdarmeistaranna — Matthíasar,
Steingríms — ég kannaði Hannes Haf-
stein, Gísla Brynjólfsson, Benedikt Grönd-
al, Guðmund skólaskáld. Allt kom fyrir
ekki. Ég leitaði ráða hjá bókmenntasinnuð-
um kunningjum mínum. Loks fór ég á
bókasöfn og fletti upp í skrám: Og viti
menn: Hjá Bókmenntaþjóðinni sjálfri var
ekki til ein einasta þýðing á einu einasta
ljóði Leopardis! Að vísu fannst blaðagrein
í Tímanum, þijátíu ára gömul, þar sem
einhver ónafngreindur blaðamaður hafði
af tilviljun tekið sig til og lesið nýútkomna
ævisögu Leopardis. Og hafði meira að
segja fundið upp á því að endursegja í
lausamáli inntak eins ljóða skáldsins. En
það var semsagt nafnlaust. Og allt og
sumt. Og með það fór ég til Ítalíu.
Eftir tveggja daga fund á vegum menn-
ingarmálanefndar Evrópuráðsins var
fundarmönnum sem sagt boðið að vera
við serímoníu útaf Leopardi. Síðar í haust
átti svo að halda ráðstefnu, þar sem lagt
yrði út af tengslum Leopardis við hinar
ýmsu borgir Ítalíu, (gleymum því ekki hve
stutt er síðan Ítalía sameinaðjst). Við
morgunverðinn áður en lagt var af stað,
var því 'stungið að fundarmönnum, að
kannski yrði það nú ekki illa þegið, ef við
aðkomumenn segðum fáein orð af þessu
tilefni, þessi athöfn héti nú einu sinni
Ommaggio
dell’Europa a Giacomo Leopardi, sem út-
leggst Evrópa hyllir Giacomo Leopardi.
Evrópa, það voru semsagt við, og þegar
komið var í ráðhúsið í Recanati, þar sem
athöfnin átti að fara fram, skipti það eng-
um togum, að okkur er skipað til sætis á
fyrsta bekk innan um generála og borgar-
stjóra og ættingja skáldsins. Og á prent-
aðri dagskrá getur að líta nöfn okkar í
prúðri röð innan um 39 önnur nöfn, og
þar stendur að við eigum að flytja ávarp
í nafni lands okkar og þjóðar, gott ef ekki
bera kveðju frá ríkisstjóminni sjálfri. Nú
voru góð ráð dýr, því að ekki vildum við
valda okkar ágætu gestgjöfum vandræð-
um og ekki vildum við annað en heiður
Leopardis hinn mesta. Það var því ekki
annað en setjast við skriftir í kjöltu sér
þama á fremsta bekknum — sjálfsagt
hefðu sjónvarpshetjunum, sem tóku af
okkur og öðrum pótintátum þama myndir
þótt við einkennilega áhugasamir og mik-
ið gefnir fyrir ritlist — leggja bara aldrei
frá sér pennann! Sem betur fer gafst góð-
ur tími, því að ræður voru almennt mjög
langar, þannig að allt fór þetta nú vel og
okkur mæltist, að ég held ekki verr, en
öðmm. Hins vegar vom ekki allir áhorf-
endur jafnþakklátir fyrir þessar löngu
ræður, ekki skólanemendur, sem gefíð
hafði verið frí frá kennslu í framhaldsskól- ‘
unum og smalað á staðinn — þeim leiddist
svo, að þeir samkjöftuðu ekki; svo mjög
vom þeir háreistir, að komtessan Anna,
ekkja bróður sonarsonarsonar Leopardis,
fann sig knúna í fáum orðum, sem hún
flutti, að minnast þeirrar virðingar, sem
skáldin eiga skilið.
Og það var nú eiginlega út af þessu
með virðinguna, sem ég tók mér penna í
hönd. Ég nefnilega álpaðist til þess af lé-
legum burðum að reyna að koma einu af
ljóðum Leopardis yfir á íslensku, og veit
ekki hvort það er virðingu skáldsins sam-
boðið. En mér gengur það til, að vekja
athygli á skáldinu Leopardi og hvetja aðra
til að bæta þar um. Ljóðið heitir á fmm-
málinu L’Infinito. Það hefur verið þýtt á
fjölda tungumála, til af því einar fimm
þýðingar á frönsku, m.a. eftir Sainte-
Bæuve, annað eins á ensku og þýsku (ein
af þeim eftir Rainer Maria Rilke) og af
öðrum þýðingum má nefna eina á rúss-
nesku eftir Onnu Akhmatovu. Ljóðið er
sagt ort á þeim stað, þar sem nú er mið-
stöð leopardiskra fræða í Recanati — og
víst er þar útsýn yfir hæðimár.
P.s. Þetta með virðingu fyrir skáldun-
um. Mér verður hugsað til Steingríms
Thorsteinssonar, þó að hann hafi ekki
þýtt Leopardi. Af hveiju er ekki stytta
af honum fyrir utan gamla Menntaskólann
í Reykjavík?
Höfundur er leikstjóri og rithöfundur.
Frankvæmdir við stækkun
dvalarheimilisins Höfða hafnar
Akranes:
Akranesi.
Undirbúningsframkvæmdir vegna byggingar annars áfanga dval-
arheimilisins Höfða á Akranesi eru hafnar og sunnudaginn 29.
nóvember sl. tók Guðmundur Bjarnason heilbrigðis- og trygginga-
málaráðherra fyrstu skóflustungu að væntanlegri byggingu.
Stefnt að því að húsið verði fok-
helt fyrri hluta árs 1989. Áætlanir
miða síðan að því að það verði full-
búið árið 1991.
Þessi áfangi dvalarheimilisins er
viðbygging til austurs frá heimilinu
og verður byggt á tveim hæðum. Á
jarðhæð verður eldhús, sameigin-
legur matsalur, skrifstofur og
afgreiðsla, aðstaða fyrir iðju- og
sjúkraþjálfun, hár- og fótsnyrtingu,
hvíldarrými fyrir þá sem sækja dag-
vistun, svo og rúmgóður salur fyrir
samkomuhald og félagsstarf aldr-
aðra. Framangreind aðstaða mun
þjóna öllum vistmönnum heimilisins
og er um leið ætlað að verða mið-
stöð öldrunarþjónustu á starfssvæði
heimilisins, sem er Akranes og
hrepparnir ijórir sunnan Skarðs
heiðar. Á efri hæð verður viðbótar-
rými fyrir 25 vistmenn. Fyrsti
áfangi dvalarheimilisins Höfða var
tekinn í notkun 1978 og er fyrir
löngu orðinn of lítiil auk þess sem
þar hefur vantað ýmsa aðstöðu
m.a. mötuneyti, borðsai og félags-
aðstöðu. í hinum nýja áfanga
verður rými fyrir 25 vistmenn bæði
einstaklinga og hjón eins og áður
kemur fram, en á biðlista eru nú
75 einstaklingar, þar af 29 með
brýna þörf fyrir vistun að mati þjón-
ustuhóps aldraðra. Stærð hússins
er samtals 2772 fm, þar af er 1.
hæð 1235 fm, 2 hæð 1215 fm og
lagnarými 322 fm. Heildarrúmmál
hússins er 10700 rm. Það er Verk-
fræði- og teiknistofan sf. á Akra-
nesi sem hefur hannað hina nýju
byggingu og er fyrirkomulag bygg-
ingarinnar einkar haganlegt.
Áætlaður heildarkostnaður við
þennan verkáfanga eru tæpar 153
milljónir króna og er þar tekið tillit
til nauðsynlegra breytinga sem gera
þarf á eldri hluta heimilisins til að
samhæfa starfsemi þess sem heild-
ar að 2.áfanga fullbyggðum, svo
og kostnaðar við fullfrágengna lóð
alls heimilisins. Fjármögnun fram-
kvæmda er áætluð með þrennum
hætti. í fyrsta lagi með framlögum
úr framkvæmdasjóði aldraðra allt
að 35%, í öðru lagi lán frá Hús-
næðismálastofnun ríkisins allt að
30% og í þriðja lagi framlög eignar-
aðila og annað söfnunarfé allt að
35%.
Sérstök fjáröflunar- og fram-
kvæmdanefnd hefur starfað að
undirbúningi verksins, en hana
skipa Gunnlaugur Haraldsson
formaður, Guðlaugur Hjörleifsson
og Daníel Ágústínusson.
Að sögn Gunnlaugs Haraldsson-
ar er bygging þessa áfanga heimil-
isins eitthvert brýnasta félagslega
verkefnið sem Akraneskaupstaður
og sveitarfélögin sunnan Skarðs-
heiðar takast nú á við sameiginlega.
Við bindum miklar vonir við að ein-
staklingar,. fyrirtæki og félög leggi
þessu máli lið með fijálsum fram-
lögum. Þannig tryggjum við framtíð
þessa mikla verks. Gunnlaugur seg-
ir að stofnaðir hafi verið söfnunar-
reikningar í nafni Byggingarsjóðs
Höfða í bankaútibúum á Akranesi.
Nú þegar höfum við móttekið pen-
ingagjafir að upphæð samtals 2,3
milljónum króna. Til marks um
áhuga fólks á þessari framkvæmd
nefndi Gunnlaugur að starfsfólk
Höfða hefði ákveðið í tilefni af töku
fyrstu skóflustungunnar að láta
andvirði einna daglauna sinna
renna til styrktar byggingunni. Með
þessu vill starfsfólkið sýna hversu
mikils virði það er þeim og vist-
mönnum á dvalarheimilinu að
framkvæmdir skulu -nú hafnar, og
um leið sýna þau öðrum ákjósanlegt
fordæmi sagði Gunnlaugur Har-
aldsson að lokum.
- JG
Morgunblaðið/Jón Gunnlaugsson
Guðmundur Bjarnason heilbrigðismálaráðherra tekur fyrstu skófl-
ustungu að 2.áfanga dvalarheimilisins Höfða. Ráðherrann notaði
afkastamikla gröfu til verksins eins og sjá má.
Margt gesta var viðstatt þegar fyrsta skóflustunga hins nýja áfanga
var tekin. Gunnlaugur Haraldsson formaður undirbúningsnefndar
byggingarinnar er í ræðustól.