Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1984, Page 2
6
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Gísli fæddist á Hæli í Gnúpverjahreppi 6. maí 1907, sonur Margrétar
Gísladóttur og Gests Einarssonar bónda þar. Hann var elstur sjö systk-
ina, en hin voru í aldursröð Einar bóndi á Hæli, Ragnheiður dó 2ja ára,
Steinþór bóndi þar og alþingismaður, Þorgeir læknir, Hjalti búnaðar-
ráðunautur á Selfossi og Ragnheiður húsfreyja á Ásólfsstöðum.
Gestur á Hæli dó úr spönsku veikinni haustið 1918 aðeins 38 ára
gamall. En hann var mjög umsvifamikill þau tólf ár, sem hann bjó á
Hæli og ekki einungis sem búforkur á heimavelli. Hann var einn af
hinum bjartsýnu og atorkumiklu aldamótamönnum, sem í nokkurs
konar athafnagalsa trúðu á glæsta kosti íslendinga í framtíðinni. Hann
var t.d. með í ráðagerðum um virkjun Þjórsár, stofnun stóriðjufélaga,
rafvæðingu landsins, hafnargerð í Þorlákshöfn, járnbrautarlagningu um
sveitir og umbætur í verslunarháttum dreifbýlisins undir merkjum
bændasamtaka. Gísli ólst því í bernsku upp við mikinn gestagang at-
hafnamanna á borð við Einar Benediktsson skáld og Magnús Sigurðs-
son Landsbankastjóra.
En hjónin á Hæli voru einnig listhneigð. Gestur var skáldmæltur vel
eins og fleiri í hans ætt og Margrét músíkölsk, enda var hún kirkjuorg-
anisti og kenndi öðrum á orgel. Listamönnum eins og Einari Jónssyni
myndhöggvara og Ásgrími Jónssyni málara þótti gott að dvelja á Hæli
annað veifið.
Það hlaut að muna ólítið um það fjárhagslega, þegar heimilisfaðirinn
féll frá og móðirin stóð eftir með sex börn á aldrinum eins til ellefu ára.
En það skyldi ekki koma niður á menntun barnanna, ef nokkurs annars
væri kostur. Ekki fer milli mála, að Eiríkur yngri bróðir Gests lét sér
mjög annt um heimilið á Hæli, en hann var sýslumaður Árnesinga
1915—17, útibústjóri Landsbankans á Selfossi 1918—30 og alþingismaður
flest árin frá 1920—50. Hann var ógiftur fram undir fertugt, en Hjalti
Gestsson kveður hann hafa gengið þeim Hælissystkinum að nokkru í
föðurstað.
Gísli hafði snemma sýnt ágætar námsgáfur. Þá voru héraðsskólar
ekki enn komnir til sögunnar, en til var það, að félitlir námsmenn gerð-
ust heimiliskennarar í sveitum einn og einn vetur í senn. Þannig skiptu
heimilin á Stóra-Núpi og Hæli með sér kennurum um hríð og með
þessum hætti las Gísli undir gagnfræðapróf, m.a. hjá Vilhelm Jakobs-
syni og Einvarði Hallvarðssyni. Vorið 1923 tók hann gagnfræðapróf
utanskóla við Hinn almenna menntaskóla í Reykjavík og settist í fjórða
bekk um haustið. Á þessum árum hlaut nálægt fimmti hver nemandi