Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1984, Page 17
GÍSLI GESTSSON
21
Þrastargata fannst mér fín
og fólk þar kátt og mannað.
Við ljóðasöng og lipurt grín
lék það hvað við annað.
Og ekki mundi ég þá til þín
þegar best var gaman.
Rúdesheim og Rínarvín
raðast dável saman.
Áður var ýjað að hinu sérhannaða samkvæmislífi safnfólksins, sem
heldur hefur færst í aukana eftir því sem liðinu fjölgaði, auk þess sem
sambýlisfólkið á Listasafninu er ósjaldan með í leiknum. Stundum er
þetta svosem ckki annað en aðsendur matur í hádeginu ásamt rauð-
vínsglasi, stundum er farið á vertshús að kvöldlagi, stundum í heima-
hús, einkum ef sérstakt tilefni gefst einsog afmæli eða húshitun.
Gísli setti ótvíræðan svip á þennan gleðskap allan, enda jafnan aufúsu-
gestur í veislum. Hann var t.d. einn 13 innvígðra, sem tóku upp á
því árið 1944 að hafa þorrablót í Reykjavík. Það var áður en síðasta
þorrablótabylgjan reið yfir. Hans er getið þannig í kynningarbrag um
blótmenn ásamt Eiríki föðurbróður sínum:
Eiríkur skáld vort Einarsson
Alþingis prýði og Skálholts von,
Gestsson er þar og Gísli:
Jarðteiknamaður ferðafús,
forðast þó aldrei vín úr krús,
bjástrar í bankasýsli.
Hið notalega skopskyn olli auðvitað miklu um vinsældir hans, en það
var harla merkileg blanda af góðlæti og kaldhæðni og gat því stundum
haft nokkurn keim af stórlæti.
Ekki var hann þó cinn þeirra sem menn nefna brandarakarla og eiga
vissan forða af skrýtlum, sem þeir ausa af við öll hugsanleg tækifæri og
oft án nokkurra tengsla við aðrar samræður líkt og þegar frygðarveini
er skotið inn í útvarpsþátt um fjárhagstillögur Jóns forseta. Fyndni Gísla
var áreynslulaus og hvorki undirbúin né tillærð. Tilsvörin eða tilvísan-
irnar komu jafneðlilega og þegar lækur lendir á steini og annaðhvort
flæðir yfir hann eða beygir hjá. Hann kunni nefnilega ókjörin öll af kát-