Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Side 101
STÓLL ARA JÓNSSONAR
105
(482-565 e.Kr.) hafi gefið Maximiani stólinn. Saga býsanskrar listar er talin
hefjast á tímum Jústinians, og má segja að fyrsti raunverulegi sigur hennar
sé unninn með kirkjunni San Vitale í Ravenna, sem vígð er 547. Eru
tíglamyndir hennar víðfrægar. Meðal þeirra er mynd af Maximiani erki-
biskupi. í borg þessari hvíldu um skeið líkamsleifar Andrésar postula, en
mikið fer fyrir krossi hans á Arastól. Deila á að hafa staðið um það milli
erkibiskupsins og keisarans hvort flytja ætti þær til Miklagarðs. Á 13. öld
koma í ljós ágætir ölduteinungar í franskri bókmálun og virðist jafnvel
sérstök ástæða til að hyggja að þeim, en fornir bylgjuteinungar þekkjast
annars víða. Má benda á jaðarskraut í saltaranum sem nefndur er eftir
Lúðvík 9. Frakkakonungi hinum helga (1214-1270). Telst handritið með
lýsingum sínum til fágætari minja gotneskrar listar. Á síðum þess státa
fjaðurmagnaðir bylgjuteinungar og glögglega mótuð atriði af toga bygg-
ingarlistar þar sem mikið fer fyrir bogum og rósagluggum. Þarna sjáum
við þrískipta boga, sbr. bogana á Arastól. Hliðstætt skraut við hina jaðar-
lægu bylgjuteinunga á Ravenna sætinu er á þremur stöðum á Rafnsstól, á
vinstra framstólpanum, vinstra megin á neðri þverfjöl baks í stólnum, og á
hægra bakstólpa. Það er einnig á tveimur stöðum í Arastól, á vinstra bak-
stólpa og vinstra megin á neðri þverfjölinni í baki. Ekki má þó skilja
samanburð þennan bókstaflega og um gerðarmun er að ræða. Þegar born-
ir eru saman Grundarstólar og sætið í Ravenna með tilliti til aðaleinkenna
í smíð sést að markvíst samband er milli burðarhluta í öllum gripunum og
atriða í þeim sem felld eru í bilin á milli.
Dýrmæt heimild varðandi uppruna skreytingarinnar á Grundarstólum
er forn spjaldatvennd (enska: diptych), sem kennd er við Gregorius páfa
I., hinn mikla (um 540-604). Þetta eru tvær útskornar fílabeinsþynnur, jafn
stórar, uppréttar, sem leika á hjörum við langbrúnir, útskurðurinn er lágt
upphleyptur, eins og skurðverkið á Ravenna stól, og handbragð gott. Stíll-
inn getur kallast býsanskur. Á vinstri þynnunni situr Davíð konungur í
hásæti, súla við langbrúnir báðar, og ofan við súlurnar bogi með krossi.
Framan á hásætinu sitt hvorum megin má sjá sams konar skrautatriði og
kemur í ljós tvisvar á efri þverfjöl baks í stól Ara lögmanns og rætt var
um, þ.e. tvær laufgaðar hríslur sem vindast saman, en op milli þeirra við
miðju. Ölduteinungur, ekki ósvipaður þeim sem hlykkjast eftir jöðrum á
báða vegu á Ravenna stól, rís sitt hvorum megin við mynd Davíðs. Neðan
við flöt sem hásæti hans er á er skorin stór átta blaða rós, og leyfist hér
samanburður við Grundarstóla. Á hægri þynnunni er Gregorius páfi.
Þessi spjaldatvennd er varðveitt á sama stað og konunglegir dýrgripir
Langbarða í dómkirkju borgarinnar Monza í Pódal. Ef til vill er hún frá
dögum Gregoriusar páfa, en ekki ríkir samkvæði um aldur hennar, og