Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1993, Side 112
116
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Við athugun á þeim viðartegundum, sem notaðar hafa verið við smíði
langspilanna og einstakra hluta þeirra, kom í ljós mikil fjölbreytni. Talið er
að fyrrum hafi langspil verið smíðuð úr rekaviði sem barst að strönd
landsins, og gæti það verið ástæðan fyrir því hversu margar viðartegundir
fundust við athugun á hljóðfærunum. Hljóðritanir á segulböndum bentu
eindregið til þess að efniviðurinn hefði áhrif á hljómgæði langspilanna.
Þrettán af hljóðfærunum voru smíðuð úr furu og virtust þau hafa fremur
hlýlegan en ekki mikinn hljóm. Þrjú langspil voru smíðuð úr douglas-
greni, eitt úr beyki og annað úr birki. Þessi hljóðfæri höfðu bjartari tón og
virtist hann berast betur saman borið við furuhljóðfærin. Eitt langspil var
smíðað úr eik og annað úr hnotu. Hvað hljómgæði snerti voru þau svipuð
hljóðfærinu sem smíðað var úr beyki.
Viðurinn í loki, botni og hliðum langspilanna var misþykkur, allt frá
tveimur og upp í sjö mm að þykkt. Þau hljóðfæri sem smíðuð voru úr
þynnsta viðnum reyndust best að hljómgæðum.
Snigillinn á mjórri enda langspilanna var smíðaður úr ýmsum viðarteg-
undum, á sex hljóðfærum úr furu, en á hinum ýmist úr beyki, ösp,
mahóní, eik, greni, douglasgreni, hnotu eða birki. I flestum tilvikum var
snigillinn skorinn út með tréskurðarjárnum eða hnífum og svipaður í lag-
inu eins og á venjulegri fiðlu.
Langspil númer 03. Þjóðminjasafn íslands Reykjavtk. Ljósm. Þjms.
Stillipinnarnir á hljóðfærunum voru smíðaðir úr margs konar efni. Á
níu hljóðfærum voru þeir úr furu, á fjórum úr mahóní, á þremur úr rósa-
viði, á tveimur úr beyki, á einu úr ösp og á tveimur var tónhæð stillt með
útbúnaði úr málmi. Lögun stillipinnanna var einnig mismunandi og við
athugun á þeim kom í ljós að eftirfarandi útlitsmyndir voru dæmigerðar: